Anna hugsaði illa um blómabeðið í bakgarðinum.
Það var komið í órækt og illgresið var reyndar að taka völdin.
Upp úr gægðust þrjú falleg blóm sem reyndu af veikum mætti að snúa til sólar.
Anna bretti upp ermar, setti á sig hanska og reytti arfa og beðið leit vel út.
Anna fór svo aftur inn í húsið sitt, – fór að sinna sínu og ekki leið á löngu þar til að beðið var orðið nákvæmlega eins og það var þegar hún fór fyrst að reyta arfann. –
—
Anna var alveg komin í rusl með heilsuna, búin að bæta á sig níu kílóum síðan hún hætti í stjörnukúrnum og það var tveimur kílóum meira en hún hafði farið af stað með. –
Anna bretti upp ermarnar og dreif sig í námskeiðið „Bikiníbomba á svipstundu“- Anna dreif sig í sportgallann og tók námskeiðið með trompi. Vann meira að segja verðlaun fyrir bestan árangur. Náði af sér öllum níu kílóunum og meira að segja einu til! …
Svo fór Anna í sólarferðina sína og sukkaði sem aldrei fyrr, leið ekkert allt of vel, og reyndar naut þess ekkert allt of vel sem hún var að gera því hún var með stanslaust samviskubit yfir því sem hún var að borða, en hugsaði með sér að það yrði „tekið á því“ – þegar hún kæmi heim aftur. –
Svo liðu vikur og reyndar keypti Anna sér áskrift í ræktina og byrjaði en vantaði gulrótina svo í þetta skiptið var hún ekki eins dugleg. – Reyndi smá, en ekkert gekk og hún var komin í gamla farið, og leit á sig sem „rusl“..
Af hverju get ég ekki ..?
Af hverju sukka ég þegar ég vil vera í formi ..?
Af hverju er ég að borða allan þennan sykur þegar ég veit að hann fer í geðið á mér?
—-
Anna fór aftur út í garð og leit á blómabeðið, blómin voru alveg að kafna í illgresi. – Hún setti upp garðhanskana og byrjaði að reita arfann, en í þetta skiptið spurði hún sig hvað ylli því að arfinn kæmi alltaf upp aftur, – eeee.. jú, hún hafði aðeins hreinsað yfirborðið, en ekki tekið hann upp með rótum. –
Anna fékk sér góð verkfæri og stakk upp arfann, það var meiri vinna en hún átti von á því að illgresið hafði fest sig rækilega í sessi, ef svo má að orði komast. – Það tók hana því meira en einn dag, – henni var orðið illt í bakinu og hún bað hann Tedda að koma út með sér til að hjálpa til við verkið. –
—-
Þið sem hafið lesið eitthvað um námskeiðið mitt „Í kjörþyngd með kærleika“ áttið ykkur e.t.v. á því sem ég er að fara hér. –
Það dugar að sjálfsögðu ekki að ráðast einungis á yfirborðið = afleiðingar, heldur þarf að sjá orsakir og skilja orsakir til að breyta lífsstíl eða siðum. –
Megrunarkúr er að ráðast á arfann, en ræturnar jafnvel styrkjast, því að í kúrnum er jafnvel alið á samviskubiti í eigin garð. „Þú átt að gera þetta!“ –
Enn og aftur erum við komin í spurningar um orsakir og afleiðingar. –
Af hverju ertu orðin/n eins og beð í órækt? – Þetta þarf ekkert að hafa að gera með utanáliggjandi þyngd. – Takið eftir því. Þetta getur líka verið offita hugans, eða janvel anorexía, eins og ég hef skrifað um. –
Tökum þetta almennt.
Af hverju ertu komin í rusl, eins og sumir orða það? –
Er það öðrum að kenna?
Er það hvernig þú varst alin/n upp?
Er það vegna þess að þú heldur í þær hugsanir?
Er það vegna þess að lífið er ekki þess virði að lifa því?
Ertu farin að stunda sjálfskyrkingu í stað sjálfstyrkingu? –
Af hverju?
Við þurfum að sjá til að breyta …
Við þurfum að viðurkenna til að breyta ..
Við þurfum að finna til (okkar) til að breyta ..
Við þurfum (jafnvel) að biðja um hjálp til að breyta ..
Við þurfum að tileinka okkur efni sjálfshjálparbókanna til að breyta ..
(það er ekki nóg að eiga hrífu og skóflu inní skáp ef við notum það ekki)
Sophie er frönsk kona sem segir sögu sína og frá breytingferli sínu, – það var hægt að sjá breytingarnar utan á henni, því að hún léttist um tugi kílóa.
Þegar hún var spurð „Hvað gerðir þú?“ – Þá svaraði hún:
„Ég GERÐI ekkert, ég breytti lífsviðhorfum mínum“ –
eða
„I didn´t DO anything, I just shifted my state of being“
Auðvitað gerði Sophie helling, en fyrsta skrefið var að breyta hugsunarhættinum, hætta að trúa þessu gamla, sem hélt henni í gamla farinu, eða þegar hún ætlaði upp úr því togaði hana til baka.
Í námskeiðunum mínum þá er ég að hvetja fólk til að vera einlægt, finna tilfinningar sínar, læra að sjá sig, tjá sig, skilja og læra að vilja rækta beðið sitt, hreinsa upp með rótum. –
Í rótunum er það sem við erum oft ranglega prógrammeruð með en því miður viðhöldum, það er það sem okkur er sagt þegar farið er að stöðva okkur.
„Þú getur ekki“ – „Hver heldur þú að þú sért“ – „Þetta tekst ekki“ – o.s.frv. –
Við höfum myndað skráp okkur til varnar en um leið heldur þessi skrápur lokar á það sem meiðir okkur, þá lokar hann á allar aðrar tilfinningar. Tilfinningar ástar. –
Máttur þess að fella varnir, að hreinsa skrápinn er eins og að hreinsa skít af kjarna þínum, af hjarta þínu sem á þó ósk heitasta að fá að njóta sín. –
Að vera til og finna til, bæði gleði og sorgar.
Að finna til ástar og taka á móti ást.
Það er það sem felst í því að vera tilfinningavera.
Þú ert þarna, blómið í blómabeðinu, – kannski svolítið að kafna í arfanum, þér líður betur inn á milli þegar arfinn er reittur, en ræturnar segja alltaf til sín. – Rætur blómsins eru góðar, þær taka inn næringu fyrir þig, en rætur arfans og illgresisins taka frá þér orkuna þína og næringuna. –
Sólin er tilbúin að skína á þig, regnið er tilbúið að vökva þig, og vindurinn tilbúinn til að veita þér súrefni og ferskleika.
Þú þarft að snúa þér að sólu og treysta henni. –
Hugsaðu fallegar hugsanir – sólin
Drekktu vatnið sem er í boði – vökvunin
Taktu djúpt andann – súrefnið og vindurinn
Það má alveg sjá heilaga þrenningu út úr þessu 😉
Ekki hafna þér áður en lífið hafnar þér.
Elskaðu þig, virtu þig, treystu þér, fyrirgefðu þér… samþykktu þig.
Frábær grein hjá þér Jóhanna!!! Takk fyrir mig.
Með kærleikskveðju,
Elín BJörg.
Takk Elín mín 😉 ..
Snilldargrein sem ég get tileinkað mér að öllu leyti 🙂 Takk kærlega fyrir
Bakvísun: Sjálfsræktarhópur … hlúð að jarðveginum. | johannamagnusdottir
Bakvísun: Sjálfsræktarhópur | LAUSNIN, sjálfsræktarsamtök