Hvað og hver stoppar okkur í að ná árangri? – Er það eitthvað utanaðkomandi? Er það bergmál frá fortíðinni? Vantraust umhverfisins eða við sjálf? – Við verðum að hætta að trúa á óttann og það sem hefur verið, og fara að trúa að tækifærin séu ekki síður okkar en annarra. Við eigum öll séns, þó að við komum úr mismunandi umhverfi, – það reynir á okkur sjálf, að aflæra afturhaldssemi og gamlar úreltar hugmyndir, jafnvel fjölskyldu fulla af „væntumþykju“ fyrir velferð okkar, en sem hefur ekki trú á okkur. Eina manneskjan sem raunverulega getur stoppað okkur erum við sjálf.
Sem börn lærum við að óttast það sem er skaðlegt. Við förum varlega nálægt eldi, hita, vatni og ýmsum hættum og lærum eða eigum að læra hvað okkur er hollt og hvað okkur er óhollt. –
Foreldrar eða forráðamenn bera ábyrgð á okkur sem börnum, en síðan förum við að geta sjálf. – Vandamálið er oft fyrir foreldra, hvar og hvenær á að slíta. Það er nefnilega ekkert hreinn skurður í þessu. Við þroskumst hægt og rólega frá foreldrum okkar, þar til við erum tilbúin 100% til að taka ábyrgð á eigin hegðun.
Þessi mörk eru mjög óskýr og mjög mismundandi eftir foreldrum og líka auðvitað fer það eftir þroska barnanna. Verst er þegar að barnið er tilbúið, en foreldrið ekki. Við erum meira að segja að tala um fullorðin börn, stundum komin á þrítugsaldur, að þeim er ekki treyst af foreldrum, sem hafa ekki þorað, tímt eða viljað sleppa tökunum.
Hér ætla ég að stilla fókusinn á það hvers vegna margir fullorðnir eru hræddir við að fylgja ástríðu sinni, leyfa draumum sínum að rætast o.s.frv. –
Að einhverju leyti er það þetta uppeldi, þar sem barnið hefur fengið neikvæð viðbrögð við því að ætla að gera eithvað: „Þú getur ekki“ – „Þú kannt ekki“ – „Hvað þykist þú nú geta“ – „Viltu ekki bara láta þér ….. nægja“ .. „Svona er ekki gert í okkar fjölskyldu“ – Allt sagt í vinsemd, það vantar ekki, en hvort trúir barnið foreldrum sínum eða sjálfu sér?
Þetta eru jú foreldrarnir, þeir hafa alltaf rétt fyrir sér er það ekki?
Stundum jú, en stundum kemur hræðsla foreldranna og löngun þeirra til að halda barninu undir verndarvæng eða pakka það í bómul í veg fyrir að það þroskist eðlilega, eða fái tækifæri til að prófa nýja hluti.
Þegar börnin mín voru lítil áttum við labradortíkina Hnetu, sem var mjög ljúf. Vinur barnanna kom í heimsókn og tilkynnti að hann væri hræddur við hunda. Ég leiddi þau saman og fyrr en varði lék hann við Hnetu eins og hin börnin og hafði steingleymt hræðslunni, þegar mamma hans kom til að sækja hann. Hneta kom til dyra dilandi rófunni, – og mamman kallaði skelkuð upp „Takiði hundinn sonur minn er svo hræddur við hunda“ .. eee.. nei, það var hún sjálf sem var hrædd við hunda og hún var búin að „kenna“ stráknum sínum það, – og yfirfærði hræðslu sína á hann. – Sonurinn varð ringlaður og lá við að hann spyrði „á ég að vera hræddur?“ – Að sjálfsögðu er eðlilegt að kenna börnum að varast ókunnuga hunda, en viðbrögð hennar voru ekki eðlileg hræðsla, heldur ofsahræðsla.
Hundar eru misjafnir og fæstir grimmir, hvað þá heimilishundar sem hafa alist upp með börnum. – Það sama gildir um menn. Það eru til morðingjar, nauðgarar, þjófar og alls konar ofbelsimenn, en það þýðir ekki að við þurfum að vera hrædd við alla menn. (Þetta var útúrdúr).
Ástæðan fyrir dæmisögunni hér að ofan er að foreldrar setja stundum eigið óöryggi eða hræðslu yfir á börnin sín. Kannski hefur móðirin aldrei þorað að taka séns á neinu, lifað inní öryggi þægindarammans og vill að sonurinn eða dóttirin geri það líka? –
Svo þegar að stálpað fólkið fær einhverja flugu í kollinn, – þá mætir það efasemdum foreldranna, og það sem verra er að búið er að planta efasemdunum í þeirra koll. – Foreldrarnir eru þá orðnir „guðir skoðana þeirra“ –
„Ég get ekki“ – „Hvað ætti ég svosem að vera að þessu“ – „Hinir eru miklu hæfari“ – o.s.frv.
Þarna þurfum við að losa, sleppa og aflæra.
Hvað langar þig, eða hefur alltaf langað að gera en þú hefur ekki látið það eftir þér vegna þess að þú óttast mistök, vantar sjálfstraust, eða trúir að einhverjir aðrir séu betri? – Hvað ef að allir hugsuðu svoleiðis? Þá væru engar bækur skrifaðar, engin ljóð samin, engin málverk máluð. –
Sumar fjölskyldur virðast halda ákveðnar fóbíur í heiðri og viðhalda þannig einhvers konar fjölskylduálögum, eins og enginn gæti brotist út úr hefðinni eða mynstrinu, – en ég heyrði foreldra t.d. segja fyrir framan börnin sín „prófkvíði er voðalega ríkjandi í þessari fjölskyldu“ – eða „okkur gengur öllum illa að læra ensku í þessari fjölskyldu“ – „við erum ekki fyrir að láta ljós okkar skína í þessari fjölskyldu“ .. það er margt í mörgu.
Við eigum ekkert að samþykkja þetta, ekki frekar en að vera föst í ákveðinni stéttaskiptingu eins og tíðkast sums staðar í heiminum. –
Að sjálfsögðu eru til öfgarnar í hina áttina og við verðum allta að taka inn í þetta raunsæisfaktorinn, en við lærum fæst nema að láta á það reyna. –
Allir eiga tækifærin skilið.
Það er betra að hafa reynt og vita hvar við stöndum, en að hafa aldrei reynt og lifa við eftirsjá.
Sá/sú sem aldrei framkvæmir neitt gerir vissulega aldrei mistök. En mikið hlýtur honum/henni að leiðast!
Ekki vera sá/sú sem stöðvar þig, ekki taka við keflinu af forföður, sem réttir föður, sem rétti þér keflið sem segir: „Þú getur ekki“ –
Vissulega er það þannig að ef við segjum nógu oft „Ég get ekki“ þá fer það að virka, – þú getur ekki.
Að sama skapi, ef þú segir nógu oft „Ég get“ þá fer það að virka, – þú getur.
(Þetta þekkja t.d. allir góðir kennarar).
Það getur vel verið að árangur náist ekki við fyrstu tilraun, jafnvel ekki aðra eða þriðju, en sá/sú sem lætur á það reyna hefur möguleika, sá/sú sem situr með hendur í skauti og telur úr sér kjarkinn, eða rifjar upp úrtöluraddirnar hefur fyrirfram drepið niður möguleikann. –
Miði er möguleiki! –
Stöðvaðu ekki möguleika þína með hugsununum þínum. E.t.v. lærðum og súrum hugsunum. Leyfðu þér að taka inn nýjar og jákvæðar hugsanir og leyfðu þér að fara inn á veginn sem opnast þegar þú gefur þér leyfi. –
Þú þarft bara að slökkva á þínu innra rauða ljósi sem segir „STOP“ og kveikja á því græna „GO“ – Það gerir það enginn fyrir þig. –