Ekki kaupa kastala ..

Eftirfarandi las ég á bloggi eins uppáhalds rithöfundar míns Paulo Coelho:

(í minni þýðingu)

„Ég er alltaf í baráttu við sjálfan mig, en ég er mjög bjartsýnn hvað það varðar.  Fólk er alltaf að átta sig betur og betur á því að hamingjan er frelsi, og frelsi er að geta „ferðast létt“ – það að eiga ekki marga hluti –  vegna þess að við lok dagsins byrja hlutirnir að eiga þig.“  Paulo minnist þess að hann íhugaði að kaupa kastala í Frakklandi, – og fór að skoða nokkra en áttaði sig á því að ef að hann keypti kastala færi öll hans orka og vinna í það að hugsa um kastalann.    Í staðinn keypti hann litla myllu, til að geta haft tíma til að ferðast upp í fjöllin, fara í göngur, og að verja lífinu í það sem sem hann langaði til.  Í stuttu máli vildi hann segja;  Þess minna af eignum sem þú þarft að vera að sinna þess meira frelsi! ..

Sannleikur og upplifun Paulo´s rímar við það sem yngri dóttir mín hefur verið að gera undanfarið, – en hún hefur venjulega haft þann háttinn á að þegar hún ferðast hefur hún farið með þunga ferðatösku með mörg dress til skiptanna.  (Reyndar á móðirin það til líka).

Hún hefur verið að vinna í vetur,  í raun tvöfalda vinnu,  bæði á leikskóla og á veitingastað og í maíbyrjun fór hún ásamt tveimur vinkonum í „draumaferð“ – en það er bakpokaferð til Kúbu og fleirri staða. – Í gær voru þær að fljúga frá stað sem heitir Baracoa í Chile til Havana Kúbu.

Fyrir nokkrum dögum komst hún í tölvu, en yfirleitt hafa þær ekki verið nettengdar, – og á facebook skrifaði hún:

Hef ekki verid svona natturuleg sidan eg var litil stelpa.. skitug fot og bodum okkar i sjonum.. ja tetta getur madur svo eftir allt 🙂 Yndislegt!! xx

Við erum að tala um að þær eru með ca. tvenn föt til skiptana í bakpokanaum. –

Ég held að við flest óskum þess að vera akkúrat eins og börn náttúrunnar, – að í raun séu þessi ósköpin öll af alls konar dóti,  geymslur fullar af því sem við erum hætt að nota og fataskápar fullir af ónotuðum skóm það sem heldur okkur frá því að vera náttúruleg. –

Ég á ekki kastala og hvað þá myllu eins og Paulo Coelho, á reyndar ekkert húsnæði og mótsögnin þar er að það væri ákveðið frelsi frá áhyggjum að eiga húnsæði yfir höfuðið. –

En ég skil hvað Paulo er að fara,  þegar að eignirnar eru farnar að eiga okkur.  Það minnir mig svolítið á sumarhúsaeigendur sem eru farnir að hafa samviskubit ef þeir fara ekki nógu oft í sumarbústaðinn. –

Það er gott að hugsa til þess að við höfum öll frelsi til að leika okkur, baða í sjónum og vera eins og börn.

Þvi fyrr sem við áttum okkur á raunverulegu verðmæti því betra. –

Við getum ekki sett verðmiða á fólk, sólarlag, upplifanir,  samveru og frelsi.

Ég hef undanfarin ár verið að ferðast léttara og léttara.  Að hluta til er það „þvingað“ val,  það var val að segja upp öruggri stöðu þar sem ég hafði góðar tekjur, – en það var var vegna ákveðinna lífsgilda.  Það val kostaði mig fjárhagslegt öryggi, – og má segja að það hafi komið mér í ákveðna klípu blankheita og veldur mér oft því sem ég kalla „afkomukvíða.“

Sjálfstæða starfið (sem er bæði göfugt og er í raun ástríða mín)  er hingað til  ekki að gefa mér nægilegar tekjur til að dekka það sem er svona nú til dags litið á sem grunnþarfir hjá Íslendingum.  Húsnæði, matur, sími, tryggingar, internet, bensín á bílinn o.s.frv.  Það neikvæðasta við þetta er að hafa ekki ráð á að heimsækja barnabörnin (og nú fæ ég smá sting í hjartað og tár) og að geta ekki hjálpað börnunum mínum fjárhagslega þegar þau lenda í vanda.  Það hefur frekar verið á hinn veginn.

Ég er hvorki verri né betri manneskja fyrir vikið.  (Þarf að minna mig á það reglulega).

EN

Ég hef það fyrir sið að spyrja mig hvaða lærdóm lífið sé að gefa mér.  Að sjálfsögðu á ég núna auðveldara með að setja mig í spor þeirra sem deila þessu sem ég nefndi „afkomukvíða“ – og verð fyrir vikið betri ráðgjafi.  Ég hef þurft að kyngja stolti með að biðja um hjálp, og sumir segja að stolt sé ein stærsta syndin okkar, – svo aftur sé vitnað í Coelho þá eru það orðin „hjálp“ og „takk“ sem eru leiðarvísar okkar í gegnum lífið,  ef við kynnum þau á öllum tungumálum þá týnumst við hvergi í heiminum. –  Ég hef fundið að ég á sterkt bakland og hef upplifað ótrúlega mikla velvild og er þakklát þeim sem hafa hjálpað mér á ólíkum sviðum. –

Skólunin felst líka í því að hafa lært að þekkja enn betur hin raunverulegu verðmæti lífsins, fjölskyldu, vini, náttúru og heilsuna,  bæði andlegu og líkamlegu og mikilvægi þess að láta ekki kvíða fara að spilla nákvæmlega þessu. –

OG

Frjálsari hef ég aldrei verið,  þegar ég opna fataskápinn segi ég ekki lengur; „ég hef ekkert til að fara í“ – heldur „Úff hvað er úr mörgu að velja“ – því auðvitað hefur fimmtug kona sankað að sér mikið af fötum og skóm í gegnum ævina. –

Og þegar ég verð vel efnuð aftur,  þá ætla ég ekki að kaupa mér kastala. –

Það er loforð.

Ein hugrenning um “Ekki kaupa kastala ..

  1. Það er spurning hvort Paulo er einugis að tala um veraldlegar eignir, húsnæði og bíl, borð og stóla, blankskó og sparikjól. Ef til vill eigum við varasamari eignir, þessar sem eru inni í höfðinu á okkur, innra með okkur, hugmyndirnar um börnin sem við eigum, makann sem við eigum, vinirna sem við eigum, trúna sem við eigum, allar hugmyndirnar sem við eigum. Þær eignir eru margfalt meira íþyngjandi en hlutirnir fyrir utan okkur, hús og bíll. Við höfum eignað okkur þetta allt, en við eigum það í reynd ekki, ekkert af því. Við erum einungis farvegur sem lífið notar til að birtast í nýjum myndum, fyrir það að skoða sjálft sig í, fyrir okkur að skoða sjálf okkur í, því lífið er jú við og við það. Og á meðan við höldum fast í þessar eignir þá erum við uppfull af allskonar svo lífið kemst ekki að til að létta okkur tilvistina. Og ekki orð meira um það.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s