Í minni sjálfsvinnu og vinnu með fólki hef ég uppgötvað þá staðreynd að við erum oftast sjálf okkar verstu óvinir. –
Við potum í okkur, stingum, tölum niðrandi til okkar, hæðumst að okkur, gerum lítið úr okkur ….. o.s.frv. og komum oft á tíðum fram við okkur sjálf eins og við myndum aldrei láta okkur detta í hug að bjóða vinum okkar upp á. – Svo þegar við erum orðin svona meidd, þá förum við oft að meiða aðra líka, svo þeir finni nú líka til. Það er stundum erfitt að þola ljós hinna ef við getum ekki opinberað okkar eigin.
Kannski má bara kalla þetta sjálfs-einelti? –
Flest þráum við hrós, viðurkenningu, þakklæti frá umhverfinu eða a.m.k. athygli.
Hversu oft hrósum við okkur, viðurkennum við hvað við erum yndisleg eða þökkum okkur fyrir hvað við höfum staðið okkur vel? –
Af hverju óttumst við að tala fallega til okkar, af hverju óttumst við að vera góð við okkur sjálf og að láta ljós okkar skína? –
Auðmýkt á ekki að felast í því að tala niður til okkar né rýra verðmæti okkar á nokkurn hátt.
Auðmýkt felst í því að vera þakklát fyrir lífið sem okkur er gefið, virða gjöfina sem lífið er, ekki að gera lítið úr því eða hreinlega tala niður til þess. –
Þiggjum gjöfina og förum vel með hana, þannig virkar hún best fyrir okkur og ekki síður fyrir aðra.
Kannski ættum við öll að íhuga það hvernig við förum með gjöf Guðs, okkur sjálf, og hætta að leggja okkur í einelti? –