Yfirskriftin er hamingja (h)eldri borgara og fjallar þó aðallega um það að það er aldrei of seint að upplifa hamingjuna, eða „To live happily ever after“ ..
Í rauninni getur þessi pistill átt við allan aldur, því aldur er afstæður – sumir/sumar upplifa sig gamla/r fyrir aldur fram og svo öfugt. –
Mér þykir gaman að jákvæðni Louise Hay sem kynnir sig sem „85 years Young“ ..
Allir mínir pistlar um hamingjuna, eins og „hamingjuforskotið“ og „hamingjan ert þú“ á ekkert síður við gamalt fólk en ungt. –
Þetta snýst um að breyta um viðhorf, segja já við lífinu.
Að segja já við lífinu er að segja já við sig og þegar þú segir já við lífinu segir lífið já við þig. –
Lífið ert þú – auðvitað! –
Við tölum þannig þegar von er á nýju barni að nýtt líf sé í vændum. Þetta líf er mannvera og allar mannverur eiga skilið að við tökum vel á móti þeim. –
Fyrst erum við ósjálfbjarga og þá eru það hlutverk foreldra að vernda þetta nýja líf, en svo kemur að því einn daginn að það er okkar hlutverk að vernda þetta líf, samþykkja það, elska og virða. – Við játumst þessu lífi. –
Við játumst líka lífinu sem er til staðar fyrir okkur.
Alveg eins og fólk fer með játningu í trúarbrögðunum þurfum við að fara með játningu til okkar sjálfra, játningu til lífsins.
Það skiptir ENGU máli hvað við erum gömul, það er á gatnamótunum – á X-inu sem við tökum ákvörðun um að játast lífinu, að við byrjum að opna fyrir hamingjunni sem er – annað hvort við sjálf eða innra með okkur eftir hvernig við lítum á það.
Það er með þessu JÁ- i sem við förum að leyfa góðum hlutum að gerast. Það er byrjunin og bara það að vera byrjuð þýðir að við erum batnandi og batnandi manni er best að lifa. –
Auðvitað er betra að vera batnandi en í stöðnun, það segir sig sjálft!
Svo hversu gömul eða gamall þú ert eða upplifir þig (sumum finnst þeir vera fornir um fertugt) – segðu JÁ við lífinu og lífið segir JÁ við þig. –