Frá sjónarhóli fullnægjunnar…

Þessi yfirskrift er andstæða „Frá sjónarhóli örvæntingar“  ..

Þetta er munurinn á desperat og satisfied. –

Að lifa í tilfinningu af skorti er að upplifa sig aðþrengda/n eða örvæntingafulla/n.

Að lifa í tilfinningu af því að hafa nóg er að upplifa sig fullnægða/n.

Framkvæmd sem er framkvæmd í örvæntingu er svipað og örvæntingin þegar sumt fólk er að leita sér að maka.  Ef það er gert af sjónarhóli örvæntingar þá virkar það oft þannig á mótaðilann að hann flýr í burtu.

Ef að lætin eru slík að það verður helst að „klófesta“ hinn aðilann og setja hann í búr,  þá heldur lífið áfram í örvæntingu og jafnvel óttanum um að missa, sem breytist í afbrýðisemi og vantraust. –   Fólk verður að ná saman á réttum forsendum, ekki að „landa laxinum“ – því þá er annar veiddur og hinn veiðimaður, – er það jafnræði og er það réttur grunnur?

Við löðum að okkur hið góða með því að líða vel, elska okkur sjálf og virða, og upplifa gott sjálfstraust.

Það á við um alla hluti.

Þegar allt virðist erfitt og áhyggjurnar eru að sliga,  þá er besta ráðið að fara að dansa, leika, syngja, hlusta á fallega tónlist,  njóta barna,  fara út að ganga með voffa og horfa á sólarlagið,  fara að vaða í á, eða synda í vatni.  Eitthvað sem veitir okkur gleði og fullnægju. – Þá lögum við okkar eigin orku, – tíðnisvið okkar, – og þá gengur okkur ósjálfrátt betur með verkefnin framundan. Hamingjan er forsenda árangurs en ekki árangur forsenda hamingju. Hamingja er reyndar árangur í sjálfu sér, og kalla ég það „innri árangur“ sem er forsenda þess að njóta „ytri árangurs“ ..

„Bikar minn er barmafullur“  og „mig mun ekkert bresta“ (skorta)  segir í Davíðssálmi 23 – þýðir að glasið er fullt,  sá sem á barmafullan bikar lifir ekki í skorti, sá eða sú sem upplifir sig vera NÓG, – skilyrðislaust (þá er ég ekki að tala um ytri eigur) – lifir ekki í örvæntingu heldur í fullnægju. –

Við lifum í trausti og trú. –

Þessa tilfinningu er hægt að skapa innra með sér,  það gerist skref fyrir skref, en um leið og við höfum tekið ákvörðun um að losa okkur við byrðarnar,  tekið ákvörðun um hamingju okkar getum við andað léttar og erum komin á veginn. –

„The way to heaven is heaven“ – .. 

.. svona er þetta .. njótum þess að lifa þó við höfum ekki náð einhverju ákveðnu markmiði,  – setjum okkur markmið, – að sjálfsögðu,  en í fullvissu þess að markmiðið næst miklu frekar ef við trúum á það, ef okkur líður vel og við erum ekki í örvæntingu að nálgast það.

Aðþrengd manneskja kemst ekki langt, – hún er ekki frjáls.  Að vera aðþrengd er eins og lifa lífinu í spennitreyju og öfugt  við frelsið.

Við þurfum að leyfa okkur að lifa í frelsi en ekki helsi, lifa í lukku en ekki í krukku, lifa lengi en ekki í fatahengi. –

Hver og ein manneskja þarf að leyfa sér að elska án skilyrða,  elska án þess að vera í kvíða um það að vera elskuð á móti. –   Bara njóta þess fyrst og fremst að elska … og lifa skilyrðislaust.

Til að elska annað fólk þurfum við helst að elska okkur sjálf, – að elska okkur sjálf er að þykja vænt um okkur sjálf, það að vera okkar besta vinkona eða vinur, – höfum það í huga hvort að við tölum eins við okkur sjálf og okkar bestu vini? –  Erum við verri eða betri við okkur?

Ég setti sömu færslu á bloggið mitt naflaskodun en þá með lagi Páls Óskars; – Ó, hvílíkt frelsi að elska þig,  en ætla að setja hér eitt uppáhalds sem mér finnst ekki síðra.

Það er frelsi að elska – bæði sjálfa/n sig og aðra ….

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s