Að byggja á bjargi …

Það sem hefur leitað á mig undanfarið er þetta með mismuninn að byggja á bjargi og byggja á sandi, – fór svo að „gúgla“ það og fann að ég hafði verið að hugsa þetta fyrr, finnst alltaf fyndið að finna pistla eftir sjálfa mig um það sem ég er að hugsa um í dag.

Ég myndi eflaust skrifa þetta pinku öðru vísi í dag, en samt mjög líkt. Það væri svo gaman að taka skrif Eckhart´s Tolle og bera þau saman við margt sem stendur í Biblíunni, Tolle talar um hlið til að komast í verundina, þessa verund sem sumir upplifa sem Guð, og í Biblíunni er talað um þröng hlið. – En eins og Tolle bendir á er hugtakið Guð býsna vítt (og misnotað), en hér er ég að tala um það sem verund svipað og Tolle gerir. Tek svo fram að orðið „heimska“ er runnið af rótum þess að leita heim, og í pistilinum tala ég um heimskuna að leita í það sem við þekkjum jafnvel þó það sé vont fyrir okkur og hefti frelsi okkar.

Að byggja á bjargi er að hafa traust og trú og leyfa sér að trúa því að allt fari eins og það á að fara. Stjórnast ekki af ótta, hvað sem á dynur, heldur á trúnni á m.a. það að þegar við nærum elskuna farnist okkur vel. – Hið sanna HEIM er heima hjá okkur og heima í Verundinni/Guði – en hið falska HEIM er þegar við erum þar sem okkur líður illa, við erum barin, heim sem egóið stundum leiðir okkur, egóið nærist á ótta. M.a. ótta við skoðanir annarra, hvað öðrum finnst og því sem aðrir geta gert okkur.

Þekktu þig og þekktu Guð, treystu þér og treystu Guði, leyfðu þér og leyfðu lífinu.

Hér er svo pistillinn sem ég fann – en hann er frá 2009.

3.12.2009 | 22:59

Að byggja á sandi ..

Í þessum pistli langar mig að tala til trúaðra um á hverju trú þeirra byggist. Nú tala ég bara út frá mínum bakgrunni, uppeldi, þekkingu, lífsreynslu, menntun og vissulega trú. Þegar ég skrifa, leyfi ég mér að láta flæða, og er ekki að vitna beint í aðra eða  að taka upp nákvæmlega orðrétt úr Biblíunni, en vissulega liggur það allt að baki. Það er svipað og ég les slatta af uppskriftabókum til að fá innblástur til að elda, en elda síðan bara „upp úr mér“ .. Man eflaust sumt úr uppskriftunum, en bæti svo í það sem minn smekkur og bragðlaukar leyfa.

Ég hef nú um nokkurt skeið átt viðræður bæði við trúlausa sem trúaða. Trúlausir eru ekki eins flóknir, þ.e.a.s. þeir skiptast aðallega í þá sem eru algjörlega trúlausir á alla yfirnáttúru, eins og Vantrúarmenn, eða þá sem hafa ekki átrúnað t.d. á guð eða goð, en trúa þó á yfirnáttúrulega hluti.

Trúfólk er mun flóknara fyrirbæri og flóran djúp og breið.

Alveg eins og ég veit að ég er gagnkynhneigð kona (því ég hneigist til karlmanna) er ég hneigð til trúar. Ég ætla ekki að fara í það að skilgreina mína trú í smáatriðum, ekki frekar en ég myndi skilgreina mitt kynlíf. Sumt verður að fá að vera prívat. Wink  Það er þó ekkert felumál að ég er kynvera og ég er trúvera og skammast mín fyrir hvorugt.

Nú hef ég oft lesið pistla eftir trúfólk og kynnst trúfólki sem er afskaplega háð Biblíunni. Vitnar í texta sí og æ máli sínu til stuðnings. Biblían er bók, er rit sem var skrifað af mönnum sem eru löngu, löngu dauðir. Orðin þar eru dauð – nema að einhver lifandi lesi þau og noti þau.

Fyrir kristið fólk er Jesús lifandi, lifandi orð Guðs. Orðið sem varð hold, reynt var að deyða þetta orð en Orðið reis upp og lifir enn, merkilegt nokk. Þessu lifandi orði kynntist ég sem barn, í sunnudagaskóla, í bæn á mínu heimili og í fólkinu í kringum mig. Auðvitað í bókum eins og Perlur og í Biblíusögum í barnaskóla. Aldrei sá ég neitt ljótt í kringum þetta Orð. Kynntist því jafnframt í söng og leik.

Einn söngurinn fjallaði um heimska manninn sem byggði á sandi og síðan var þar annar hygginn  sem byggði á bjargi.

Ekki geta allir byggt a orði Guðs eða vilja, þar sem þeir hafa kannski aldrei heyrt það eða eru ekki aldir upp við það. Það er því ekki hægt að segja að þeir byggi á sandi.

Heimsmynd sem byggir á elsku er byggð á kletti. Hvaðan sem þessi elska kemur.

Mín upplifun er sú að í sumum tilfellum sé Biblíunni haldið of þétt upp að  augum  að  hún hleypi ekki ljósi  elskunnar í gegnum sínar þykku síður.  Biblíunni er haldið fast því að fólkið þorir ekki að sleppa því það treystir ekki að Guð muni grípa það.  Það er hrætt við að heimsmyndin hrynji ef að allt sem stendur í Biblíunni er ekki satt og rétt og hið eina.  Hrætt við að viðurkenna mótsagnir og þversagnir bókarinnar jafnvel þó þær séu augljósar.  Fíllinn er klæddur í músasunbol, bara vegna þess að það stendur í bókinni að fíllinn eigi að passa í músastærðina.

Hver og hvað er þá  kletturinn?   Kletturinn er sjálfstraustið.  Að trúa á sjálfan sig vegna þess m.a. að við erum sköpuð í mynd Guðs og framlenging af Guði.  Áðurnefnd elska kemur þarna sterk inn, því að til að treysta á okkur sjálf þurfum við að elska okkur sjálf.

Hús er mjög þekkt tákn fyrir manneskjuna.  Þú byggir þig á sjálfinu. Að trúa ekki á sjálfan sig, elska sig og treysta ekki sjálfum sér er því heimska, því hvernig eiga aðrir að trúa eða treysta á þann sem ekki trúir á sjálfan sig.

Að hafa trú á sjálfum sér eru hyggindin.

Við erum öll eins og Pétur – klettur, við byggjum á sjálfum okkur, sum þiggja Guðs hjálp, önnur ekki.

Kjarninn í kristnum siðferðisboðskap er að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig og okkur er sagt að láta ljós okkar skína.  Ekki fela það, – ekki fara í „I´m not worthy“ gírinn.  Allir eru verðugir að skína og eiga að skína.  Skína inn á við og út á við. Ekki veitir af ljósinu á þessum dimmu dögum desembermánaðar.

Því miður verð ég svo oft sorglega vör við þá staðreynd að kynbundið ofbeldi er tengt því að menn blási lífi í þau biblíuvers sem segja að karlinn sé æðri og nær Guði en konan, svo ekki sé minnst á þann texta sem er notaður til að undirstrika  gagnkynhneigðarhyggjuna – þar sem hinn gagnkynhneigði telur sig æðri hinum samkynhneigða. 

Að telja sig æðri öðrum manneskjum er ekki að elska náungann EINS OG sjálfan sig, það er að elska sjálfan sig MEIRA en náungann.

Kristið fólk getur því ekki leyft sér að telja sig merkilegra en hinn trúlausa.

Ég nenni ekki að ritskoða það sem ég hef skrifað hér að ofan,  það er kannski eitt sem orkar tvímælis – það er þegar ég segi að það sé heimska að trúa ekki á sjálfan sig, þá gæti einhver sagt að sumir trúi ekki á sjálfa sig vegna þess að utanaðkomandi er búinn að beita þá ofbeldi og brjóta þá niður.

Hver þekkir ekki frásagnir af konum sem fara til manna sinna aftur og ítrekað eftir að búið er að lúberja þær. Sorry – það er heimska.  Við hjálpum þessum konum ekkert með að segja þeim eitthvað annað – eins og það séu hyggindi eða ást að leita til húsbónda sem barinn hundur.

(Innskot 2012,  þetta er mjög beitt hjá  mér,  þetta er lærð hegðun frá bernsku að leita í öryggið þar sem óttinn við öryggisleysið verður meira en traustið á frelsinu) – það er fólk sem er komið með gríðarlega lágt sjálfsmat (eða metur sig réttara sagt út frá því sem aðrir segja)  sem lætur bjóða sér ofbeldi og því miður verður það að segjast að það er oft orðið svo veikt að það getur með engu móti komið sér sjálft úr þessum skaðlegu aðstæðum,  en fyrsta skrefið er þá að biðja um utanaðkomandi hjálp til að styrkja sig til að geta komið sér úr þeim).  Þessar aðstæður geta verið við sjálf líka,  við getum verið okkar verstu óvinir og farið að stunda sjálfskaðandi hegðun.

svo heldur pistill frá 2009 áfram:

Konur þurfa að fara að taka ábyrgð á sjálfum sér og hætta að kenna körlum um allt sem miður fer. Það kemur með sjálfstrausti og sjálfsvirðingu og með þannig byggja þær á kletti en ekki sandi.

Jæja elskulega fólk, ég vona að þið takið viljann fyrir verkið og að þið skiljið eitthvað í þessum ítarlegu hugleiðingum.

Bæti hér við broti sem kom i athugasemd:

„En á meðan ógagnrýnin upptaka trúarbragða þykir dyggð, þá verða þessir hlutir ekkert skárri. Það er ekki dyggð að taka upp regluverk án þess að athuga hvort það sé sanngjarnt og velmeinandi – það er heimska sem í vanhugsun sinni verður vonska“  (Kristinn Theódórsson)

Það er gott að þetta kom fram með „vanhugsun.“   Það er þetta með að vakna og vera með meðvitund um hvað er gott og hvað er illt, og hugsunina hvað er bjargið og hvað er sandurinn.

Ef ég byggi líf mitt og gjörðir mínar á sandi fær það ekki staðist,  ef ég byggi það á bjargi fær það staðist. –  Það fjarar ekki undan því sem er byggt á trausti.

Það sem er ekta er bjargið,  það sem er gerfi er sandurinn.

Það er gott að lesa úr Mattheusarguðspjalli það sem stendur þar og tengja það við það sem á undan kemur.  Ekkert er nýtt undir sólinni, pælingarnar fara í hringi.  Mér finnst eftirfarandi texti magnaður og segja svo margt sem skiptir máli.

Dæmið ekki

1Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd. 2Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmd verða og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða. 3Hví sér þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? 4Eða hvernig fær þú sagt við bróður þinn: Lát mig draga flísina úr auga þér? Og þó er bjálki í auga þínu. 5Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.
6Gefið ekki hundum það sem heilagt er og kastið eigi perlum yðar fyrir svín. Þau mundu troða þær undir fótum og þeir snúa sér við og rífa yður í sig.

Biðjið, leitið

7Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. 8Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. 9Eða hver er sá maður meðal yðar sem gefur barni sínu[1]

Orðrétt: syni sínum.

stein er það biður um brauð? 10Eða höggorm þegar það biður um fisk? 11Fyrst þér sem eruð vond hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir sem biðja hann?
12Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir.

Þröngt hlið

13Gangið inn um þrönga hliðið. Því að vítt er hliðið og vegurinn breiður sem liggur til glötunar og margir þeir sem þar fara inn. 14Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur er liggur til lífsins og fáir þeir sem finna hann.

Af ávöxtum þeirra

15Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. 16Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? 17Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda. 18Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. 19Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað. 20Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.

Á bjargi

21Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.
22Margir munu segja við mig á þeim degi: Drottinn, Drottinn, höfum vér ekki í þínu nafni flutt orð Guðs, rekið út illa anda og gert mörg kraftaverk? 23Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.
24Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi. 25Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi en það féll eigi því það var grundvallað á bjargi.
26En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni er byggði hús sitt á sandi. 27Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll og fall þess var mikið.“
28Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu varð mannfjöldinn djúpt snortinn af orðum hans 29því að hann kenndi eins og sá er vald hefur og ekki eins og fræðimenn þeirra.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s