Ég var að kenna á námskeiði nýlega og setti upp á töflu:
Við erum aldrei nógu _________________________
og bað þau sem þar voru að fylla í eyðuna, kasta fram sem upp á vantaði, það komu fleiri orð, en ég held að þetta séu þau algengustu.
Eflaust er það síðasta – „aldrei nógu mjó“ algengara hjá konum en þó eru karlmenn þar líka og við þekkjum hvað gerist þegar að það að vera aldrei nógu mjó fer yfir strikið; – þá breytist það í sjúkdóminn anorexíu.
Að sama skapi, þegar við erum aldrei nógu góð eða dugleg, getum við farið yfir í sjúklegt ástand, við göngum fram af okkur í dugnaði – förum langt yfir strikið alveg eins og anorexíusjúklingar, – og enn og aftur það sama í góðmennskunni.
Í öllum tilfellum erum við orðin sjúk.
Svona hættuleg er fullkomnunaráráttan.
Fullkomnunarárátta lærist af samfélagi sem gerir kröfur sem eru sjúkar.
Ég hef verið í öllum þessum hlutverkum, ekki nógu góð, ekki nógu dugleg og ekki nógu mjó. Það veldur því að ég var aldrei nógu sátt, og því aldrei hamingjusöm. –
Ef ég var góð og að sinna einhverjum, var ég kannski að berja mig fyrir að vera ekki að sinna eða vera góð við einhvern eða einhverja aðra.
Ef ég var dugleg að vinna, en ekki dugleg að þrífa heima var ég ekki nógu dugleg, punktur. Eða öfugt.
Ef ég var komin í „rétta“ þyngd gat ég samt fundið einhverja „vansköpun“ of þykkir ökklar, ekki sá „súperkroppur“ sem ég ætlaði mér að vera.
Þrátt fyrir allt ofangreint, geri ég mér grein fyrir því að ég var mjög dugleg, mjög góð og með eðlilegt og heilbrigt vaxtarlag. En ég var ekki nóg.
Orsökin kom úr uppeldi og orsökin kom úr umhverfi.
Svo fór ég ásamt fv. manni mínum að ala upp börn, en hann var líka með sömu einkenni, að vera ekki nóg, þó við sýndum þau á mismunandi hátt. – Lélegt sjálfsmat getur bæði komið út í vanmáttarkennd, að finnast við ómerkileg og óverðug og líka í ákveðnum hroka gagnvart öðrum, en það er hrokagríman til að aðrir sjái ekki að hvað við erum „í raun“ ómöguleg. (Það er það sem okkur finnst, eða höldum um okkur).
Börnin læra að þau séu ekki nóg, ekki nógu mjó, ekki nógu dugleg og ekki nógu góð, og færa það yfir á börnin sín sem ef ekkert er að gert.
Það er því okkar sem „vöknum“ að rjúfa keðjuna.
Það sem ég er að lýsa hér að ofan er auðvitað það sem ég er að vinna með dags daglega. Ég er „sérfræðingur“ í sjálfri mér og mínum bata og það er þess vegna sem ég á auðvelt með að sjá og nema annað fólk og hvar það er statt.
Við erum þarna flest, þ.e.a.s. að vera ekki nóg. Við þurfum að vakna til meðvitundar um það hvað er að, af hverju við getum ekki verið ánægð, og þegar meðvitund er náð og við förum að hætta að gera óraunhæfar kröfur til okkar sjálfra, vera okkar bestu vinir og lifa í meðvitund erum við komin á réttan veg. – Veg hamingjunnar. Vegur hamingjunnar liggur í því að upplifa sig í að vera nóg, skilyrðislaus hamingja sem hefur ekkert að gera með útlit, dugnað eða hversu mikið af góðverkum við vinnum. –
Þessi ofangreindi pistill varð til í morgungöngunni þar sem ég rölti hér hringinn, Holtsgata, Bræðraborgarstígur, Sólvallagata, Vesturvallagata og svo aftur Holtsgata. – Ég geng hann með glaðan voffaling þegar ég er að passa hann fyrir dóttur mína. –
Yfirþyrmandi þakklæti fyllti huga minn, í morgunkyrrðinni. Ekki bara þakklæti, heldur líka ást, – því núna þegar ég hef lært svona mikið á sjálfa mig og lært að ég má elska sjálfa mig, get ég fyrst farið að elska í raun og veru. Ekki á forsendum óttans að einhverjum líki ekki við mig, að ég sé ekki nóg. –
Við lærum það sem fyrir okkur er haft, en það er algjörlega óþarfi að dæma foreldra okkar eða þá sem kenndu, líka heiminn því að heimurinn kann ekkert á þetta frekar en við. – Ekki kunni ég á þetta heldur.
Við erum særð börn særðra barna, sárin koma hægt og bítandi.
Eina sem við getum raunverulega gert er að láta af dómhörku og óraunhæfum og ómanneskjulegum væntingum í eigin garð og annarra. – Þær væntingar verða aldrei upp fylltar og því enda þær alltaf í vonbrigðum.
Gleðjumst yfir og þökkum fyrir það sem er, og fögnum því að vera nóg, ekki þegar og ekki ef, heldur núna. – Við erum öll elsku verð, skilyrðislausrar elsku, ekkert „ef“ og ekkert „þegar“ við erum elskuð núna, og hvers vegna ekki af okkur sjálfum? – Vegna þess að ég er ekki nógu ____________________?
Ég hef lýst æðra mætti/Guði sem mætti sem elskar okkur skilyrðislaust og sem fyrirgefur skilyrðislaust. Ástæðan fyrir því að margir leita þangað er til að fá hjálp við að elska sig og virða, er að æðra mætti er ekkert ómögulegt. Í því liggur almættið, í hinu skilyrðislausa.
Ég trúi að við séum sköpuð í mynd þessa almættis og ef svo er þá ættum við að hafa möguleikann á að elska skilyrðislaust og fyrirgefa. – Við höfum bara villst af leið.
Fagnaðarerindið er að við erum nóg, við erum sama mannveran og áhyggjulausa barnið sem var í öruggu móðurlífi, fékk næringu frá móður, upplifði öryggi móðurlífs og var umvafið kyrrð legvatnsins.
Guð/æðri máttur/cosmos/vortex – eða hvað sem við viljum kalla það er móðurlífið okkar, kyrrðin, öryggið, næringin, elskan og allt sem er gott og verndandi.
Þegar við eru stödd þar erum við í sátt og vellíðan.
Eftir því sem við getum dvalið þar lengur og oftar, þess betra verður líf okkar og það er líf í bata. Það þarf að aflæra það sem afvegaleiddi og læra það sem kemur okkur til baka, og til eru aðferðir við að komast þangað, vegna þess að við svo sannarlega erum týnd í heimi sem afvegaleiðir og gefur röng skilaboð. – Þær aðferðir þekkja margir sem hugleiðslu, yoga, tengingu við náttúru o.fl. Það getur engin/n gengið þá leið fyrir okkur, en öll höfum við möguleika á þeirri göngu ef við viljum, okkar er valið.