BERSKJÖLDUÐ
Þegar við leyfum okkur að vera berskjölduð, eða komum út úr „skrápnum“ eins og ég kalla það þá erum við aftur orðin eins og börnin, – en börn eru vissulega auðsæranleg. Börn eru viðkvæm, og í sjálfsvinnu erum við samt að stefna að því að ná hreinleika og náttúrulegri einlægni barnsins, en því fylgir það að fella varnirnar og leyfa okkur að finna til. Þær tilfinningar eru óhjákvæmilega bæði vondar og góðar. –
Til að hafa möguleikann á að upplifa einlæga ást þurfum við að hafa hleypt lífinu að, við verðum að hafa sagt „já“ við lífið, og við þurfum að hafa opnað fyrir amorsörvarnar, því að þær komast sömu leið og vondu pílurnar. –
Ef við lokum á allar tilfinningar, þá getum við endað sem „flatliners“ eða dofin. Það væri óskandi að einu tilfinningar okkar væru góðar tilfinningar, við gætum verið með skrápinn eða skjöldinn gegn hinu vonda, en svo gjörsamlega opin fyrir hinu góða, en svoleiðis virkar það ekki.
Að vísu höfum við möguleika á því að styrkja okkur – okkar raunverulega sjálf, þannig að þegar okkur líður vel þá fara vondu pillurnar og pílurnar að breytast í gúmmíkúlur og við tökum þær ekki eins nærri okkur og áður. Það er þegar við erum stödd á réttri leið, í okkar rými, í móðurlífi heimsins, sem ver okkur þannig að við heyrum ekki hið vonda fyrir indælum nið legvatnsins. (Nú er ég orðin virkilega skáldleg).
Ég er að meina að þegar okkur fer að líða betur, við leyfum sárunum að gróa og finnum fyrir lífsfyllingu og lífsneista þá er allt í lagi að fella varnir, því að við upplifum þrátt fyrir allt og allt öryggið í sjálfum okkur, og þessu móðurlífi.
ER ÓHÆTT AÐ ELSKA AFTUR – EFTIR HJARTASORG?
Það er mikilvægt að átta sig á því við hvað við erum hrædd. Það gæti verið að þú sért ekki hrædd/ur við ástina sjálfa, heldur eitthvað tengt henni. Til dæmis, þegar þú heldur að þú sért hrædd/ur við að vera elskaður/elskuð, ertu í raun að upplifa óttann við að kynnast manneskju sem hefur áhuga á þér og kann að meta þig. Þig eins og þú ert, ekki bara þig sem geranda. Kannski er það óvenjulegt og nýtt? – Kannski upplifir þú þig ekki verðuga/n ástar eða þér sé sýndur áhugi?
Kannski heldur þú að þú sért hrædd/ur við að verða ástfangin/n, þegar í raun þú ert hrædd/ur við að missa stjórn á lífi þínu. Eitt af einkennum meðvirkni er mikil stjórnsemi og að treysta ekki lífinu fyrir sér, – þurfa helst að vita hvað er handan við hornið.
FRÆIN Í GARÐINUM
Ein besta dæmisagan um stjórnsama fólkið er þegar það treystir ekki því að fræin í garðinum komi upp. Það er kannski búið að planta fræjum í lífsins blómabeð og ef við treystum æðri mætti þá treystum við að sólin skíni á það og regnið vökvi. Við treystum að lífið taki við. Hinn stjórnsami fer út í beð og fer að róta í moldinni, toga upp spírurnar og jafnvel skemmir fyrir, og tekur þannig stundum fram fyrir hendur lög náttúrunnar, eða „tekur fram fyrir hendurnar á Guði“ og skemmir þannig fyrir sér. Manneskjan fer þá í pakkann „Verði minn vilji“ í stað þess að leyfa „Verði Guðs vilji“ – Því að það er ákveðin hæfni að sleppa tökunum og leyfa Guðs vilja að ganga fram. –
Í sumum tilfellum, höfnum við áður en okkur er hafnað – bara til að hafa stjórn á hlutunum. – En auðvitað sitjum við þá eftir með sárt ennið, e.t.v. í sömu sporum og fyrr, búin að skella í lás, skella á okkar eigið búr. Sitjum þar örugg – en ein, og hleypum engum að.
ORSAKIR ÓTTANS
Það er gott að gera sér grein fyrir orsökum óttans, -en eins og meðvirkni verður til í bernsku, eða á upptök sín í bernsku verða flestar óttatilfinningar, eins og hræðsla við að missa, hræðsla við höfnun o.s.frv. til í bernsku, og svo er henni e.t.v. viðhaldið í vanvirkum samböndum, samböndum þar sem fólk er ekki meðvitað um viðbrögð sín.
Mörg sambönd eru byggð á óttanum við að vera EKKI elskuð, og það er samband byggt á sandi, því auðvitað er óttinn sandur sem ekki er gott að byggja á. Hvað segir í sunnudagaskólatextanum?- „Á bjargi byggði hygginn maður hús“
KYNNUMST OKKUR SJÁLFUM
Pýþagóras sagði „Þegar þú þekkir þig þekkir þú Guð“..
Skrápurinn þykki sem ég talaði um í upphafi útilokar okkur ekki bara frá öðrum hann útilokar okkur frá sjálfum okkur. –
Annar veggur sem fólk setur upp er falinn í hlutum, því sem við kaupum til að forðast okkur sjálf. Þess meira af dóti í geymslunni, fleiri skór, föt og fleira af því sem við kaupum – eða hinu ytra sem við leitum í því lengra komumst við frá okkur. –
Það er engin tilviljun að frægir „gúrúar“ – urðu fyrir uppljómun þegar þeir höfðu misst allt veraldlegt. Eckhart Tolle bjó lifði einhvers konar umrenningslífi og hugsaði, Neale Donald Walsh heyrði í Guði í örvæntingu sinni þegar hann hafði misst allt frá sér. Margir þekkja söguna af Job í Biblíunni. Góður og grandvar maður missir allt sitt, ekki bara veraldlegt, heldur líka heilsuna og fjölskylduna. Ein mikilvægasta setning þeirrar umdeildu sögu felst í orðum Jobs þegar hann segir að áður hafi hann þekkt Guð af afspurn (eflaust lesið um hann) en nú hafi augu hans litið Guð. – Í berskjöldun sinni, þegar allt er af honum tekið sér hann Guð. – Sér hann sjálfan sig gætum við líka sagt.
„Fagnaðarerindið“ er það að við þurfum ekki að missa allt til að þekkja okkur sjálf. Við höfum ákveðin hlið til þess, – hlið einlægninnar, að fella grímur, að hætta að hafa leyndarmál og lifa í lygi, játast sjálfum okkur, ekki þykjast og ekki sýnast heldur VERA. – Lifa verandi ekki síður en gerandi. – Leyfa okkur að finna til hjartans.
RÓT ÓTTANS
Þá komum við aftur að óttanum, líka óttanum við að elska. Þegar við höfum áttað okkur á hvað það er í raun sem við erum hrædd við og hvaðan sá ótti er upprunninn. –
„You have to see your pain to change“ – eða „Þú þarft að sjá meinið til að breyta“- Af hverju ertu hrædd/ur? –
Í flestum tilfellum er óttinn byggður á fyrri reynslu, kannski varstu svikin/n, upplifðir trúnaðarbrest eða varðst fyrir miklum sárum og miklu niðurbroti sem þú gast ekki varist, því þú hafðir ekki kunnáttuna. Kannski varstu einhvern tímann brjálæðislega ástfangin/n og settir þig og þínar þarfir langanir aftast í forgangsröðina til að þóknast þeim sem þú elskaðir eða þráðir að þiggja ást frá.
Við förum oft í þetta þóknara/geðjara hlutverk þegar við erum hrædd við að missa. Þess vegna verður það að vera (ítreka þetta) einlægur ásetningur að elska sjálfan sig, virða og treysta. Það er grunnurinn fyrir góðu sambandi að elska sjálfan sig, eins öfugsnúið og það gæti hljómað.
En viljum við ekki öll að lífsförunautur okkar hafi sjálfsvirðingu, sjálfstraust og upplifi sig elsku verða/n? – Ég held það.
Það er líka besta fyrirmyndin sem hægt er að gefa börnum sínum. Foreldrar og bara hverjum sem þykir vænt um börn, vilja að þau hafi til að bera sjálfstraust, séu með gott sjálfsmat o.s.frv. – það kennum við best með því að leyfa þeim að spegla sig í okkur. Einhver sagði að fyrirmyndin væri ekki bara besti kennarinn, hún væri eini kennarinn. Ég held það sé Albert Schweitzer.
Það er engum í hag að við gefum afslátt af þörfum okkar og löngunum. Við verðum líka að yrða þær upphátt og vera sam-skaparar frá upphafi. Deila tilfinningum, segja hvernig okkur líður og ekki byrgja inni.
Innibyrgðar tilfinningar, óuppfylltar langanir og þrár eru ávísun á tjah.. „disaster“
Hvernig á makinn að vita hvað þú vilt ef þú segir honum það ekki? –
Vond samskipti eru orsök þess að sambönd bresta og líka orsök þess að fyrirtæki ganga illa. – Góð samskipti eru gríðarlega mikilvæg, og alveg eins og í góðum „buisness“ – er niðurstaðan „win-win“ alltaf hin besta. Að allir/báðir aðilar fari sáttir frá borði. En ekki að annar standi sigri hrósandi á meðan hinn upplifir sig sigraðan. Kannski til skiptis.
Það má segja að par sé „co-creators“ – eða samskaparar að sambandi sínu. Það þarf að gera það frá upphafi. Búa sér til sýn, hvernig viljum við lifa og hafa lífið. – Ef sýnin er sameiginleg, þá eins og í markþjálfun skoða helstu hindranir og gera sér grein fyrir þeim, og svo er það þetta stóra BJARGIÐ sem byggja má á, TRÚIN á sýnina. Að leyfa ekki hindrununum verða stóra málið, – jú vita af þeim (sjá þær) en fókusinn á ekki að vera á þeim og við eigum ekki að fara að trúa á þær, – en það er eins og að trúa á óttann, eins og að trúa á fyrri reynslu og láta hana hefta sig.
Nýja sýnin og núið er það sem er í dag.
Við þurfum að sleppa hinum neikvæða tilfinningalega farangri sem við oft drögnumst með. Við erum þau einu sem getum sleppt því, hann þyngir okkur á vegferð okkar, ekki síður en skjöldurinn eða skrápurinn gerir það. Brené Brown kallar þetta 20 tonna skjöldinn. Við komumst hreinlega ekkert áfram í þroska eða í lífinu – og talar hún jafnframt um mátt berskjöldunar, eða „Power of vulnerability“ – það er hægt að „gúgla“ það og horfa á þann fyrirlestur sem er býsna magnaður. –
Eins og áður sagði, þá erum við ekki komin í heiminn til að dæma náungann né okkur sjálf.
Við eigum það til að berja okkur niður. „Af hverju kom ég mér ekki úr skaðlegum aðstæðum miklu miklu fyrr?“ – „Hvað er að mér að láta þetta yfir mig ganga.“ Eða „Ég var orðin/n svo vond/ur“ .. Í vanlíðan verðum við sár, vond og veik og við förum að hegða okkur í takt við það. Við hlaupum á milli stjórnsemi og þess að þóknast, af því við kunnum ekki annað. –
Þarna þurfum við að fyrirgefa sjálfum okkur fyrir kunnáttuleysið, við vissum ekki betur, kunnum ekki betur. Foreldrar okkar kunnu ekki heldur betur, og við lærðum af þeim sem fyrirmyndum. –
Ástæðan fyrir því að við skoðum fortíðina er EKKI til að lifa þar, og ekki til að fara í ásökun yfir hegðun okkar. Heldur til að læra af því og gera ekki það sama aftur.
Sönn saga: Ég kannaðist við mann sem átti fornbíl sem pabbi hans hafði átt. Bíllinn var búinn að vera í fjölskyldunni frá upphafi og maðurinn hafði haldið honum við og hafði gaman af því að keyra hann á sunnudögum. Þessi maður kynntist konu og varð ástfanginn, þau ákváðu að gifta sig, en konan setti skilyrði að hann losaði sig við bílinn. Hún vildi ekki láta fornbíl standa í nýja bílskúrnum.
Maðurinn seldi fornbílinn sinn til að þóknast konunni, eflaust í óttanum við að ef hann gerði það ekki væri hún ánægð.
Þetta er einföld saga, og næstum ótrúleg. En það er svo margt rangt í henni. Það er þessi skilyrta ást, og að maðurinn þurfi að gefa eftir. Varla var konan afbrýðisöm út í bílinn? – Ekki veit ég það, en samband sem byrjar á því að þvinga annan aðilann til breytinga, eða að sleppa sínu áhugamáli hljómar ekki sem traustur grunnur. Þetta var bara ein saga, en þær eru til margar þar sem fólk er að gefa afslátt af lífi sínu, afslátt af þörfum og löngunum og afslátt af sjálfu sér. Stundum er það að þóknast því sem það heldur að makinn vilji, en spyr aldrei. Það þýðir að það annað hvort kann ekki eða fær ekki að vera það sjálft – makinn vill að það sé eitthvað annað en það er eða viðkomandi þorir ekki að vera hann/hún sjálf/ur. – Það er, enn og aftur, ávísun á óhamingju.
Það er best að koma fram strax sem við sjálf, með kosti og galla. Við erum öll mannleg og eins og segir í textanum
„I´m only human, born to make mistakes“ – (Þetta hlustaði ég á í bílnum á heimleiðinni úr vinnunni í gærkvöldi). – Veitum endilega athygli skilaboðunum sem lífið er að senda okkur. Þau koma í formi alls konar sendiboða og skilaboða. Koma í formi fólks og frétta.
Ef þú elskar einlæglega reynir þú ekki að koma viðkomandi í fyrirframgefið (piparköku)mót, sem þú hefur ákveðið. – Þá tekur þú viðkomandi eins og hann/hún er. Auðvitað stillum við sjálf upp betri hliðinni fyrst, það er í mannlegu eðli, en það er líka gott að vera heiðarleg og einlæg og koma fram grímulaus. Ekki koma fram sem Mr. Hyde og umbreytast í Mr. Jekyll þegar fer að líða á.
Ekki fela þig. Það þarf hugrekki til þess, og það þarf að fella varnir (enn og aftur).
—-
Við getum sigrast á óttanum, með því að vita hvað veldur honum. Það gerum við með elskunni og trúnni. Það gerist ekki á einni nóttu og ekki reyna það því það getur virkað yfirþyrmandi, umskiptin verða of snögg og það tekur í hjartað. Ekki ætlast til of mikils af þér. Leyfðu elskunni að drippa inn dropa fyrir dropa, og um leið lekur óttinn út dropa fyrir dropa. Leyfðu þér að finna þessi umskipti koma yfir þig hægt og rólega þar til að einn daginn þú vaknar upp og óttinn er farinn, og umskiptin hafa orðið.
„Realize that it’s all right if you fail at love. Everyone fails at love at some point or another so you’re not alone.“
Gerðu þér grein fyrir því að það er allt í lagi að verða ástfangin/n. Allir verða ástfangnir einhvern tímann, og það er sorglegt ef svo er ekki, því að elska er að lifa. –
Gefðu fræjunum tíma og þolinmæði til að vaxa. – Leyfðu.
Ofangreint er innblásið af erlendri grein, eða atriðum sem talin eru upp. Að sjálfsögðu er þessi grein eins og aðrar úr mínu berskjaldaða hjarta, sem er að upplifa allskonar tilfinningar sem ég er að venjast, og ég bið ykkur að taka mjúklega við henni. – Hægt er að smella hér til að lesa erlendu atriðin.
Þú ert GJÖF Guðs/heimsins til þín, þér er treyst fyrir gjöfinni. –
Takk fyrir mig 🙂