Nú ætla ég að fara inn á viðkvæman völl.
Þannig er að vinsælt er að deila statusum til að minnast þeirra og minna á þau sem hafa fengið eða eru með sjúkdóma, andlega eða líkamlega. Sjálf hef ég upplifað að fá bæði andlega og líkamlega sjúkdóma allt frá krabbameini til kvíða.
Mér finnst persónulega ekkert voðalega vænt um að vera minnt á það reglulega. –
Ég er gífurlega lánsöm og þakklát í dag. Heilbrigð á sál og líkama og er þakklát fyrir það.
Ástæðan er ekki sú að ég fókusera eða fæði líkama minn og sál á fortíðinni eða því sem var. Ekki á því að vera upptekin af sjúkdóm eða vera sjúkdómurinn minn. –
Svona eftir á get ég líka verið þakklát fyrir það sem hefur gengið á í mínu lífi, þó að ég hefði fegin viljað losnað við margan beiskan bikarinn.
Ástæðan fyrir því að ég er hamingjusöm í dag er sjálfsvinna og sjálfs-ást, fyrir utan meiri meðvitund, sem m.a. felst í því að þora að segja „Nei takk“ við því sem dregur mig niður. Þora að segja nei takk við neikvætt fólk og já takk við það sem kemur gott inn í líf mitt. Ég vel mér næringu sem nærir lífsneistann minn, og eykur ljósið. – Ég tek ekki eins nærri mér þegar fólk er að reyna að fella mig (meðvitað eða ómeðvitað) og rækta gleði mína. –
Næri elskuna og trúna en svelti óttann og efann.
Ekki halda eina sekúndu að ég sé fáfróð um allt sem er í gangi hjá fólki, sjúkdóma, kvíða og vanlíðan. En þarf að vera að veifa þessum skiltum og velta sér upp úr því í drama? –
Hvað með þá yfirlýsingu og sönnu staðreynd að það sem við veitum athygli vex? – Virkar það þá ekki öfugt líka? –
Veitum fólki athygli en ekki fókusera á sjúkdóminn þeirra. Fólkið er alltaf það sama, þó það sé með sjúkdóm.
Ég veit að það meina allir vel, og vilja sýna samhygð með því að birta til virðingar við fólk upplýsingar um veikindi. En ég held að þetta fólk sem veiktist og veikist eigi líka til svo margt annað til að minnast en að því sé minnst vegna þess að það var veikt.
Veitum gleðinni athygli, sáttinni og því sem er gott, eða eins og einhver sagði: kvörtum ekki yfir því að rósir hafi þyrna heldur gleðjumst yfir því að þyrnum fylgi rósir. –
Munum eftir fallegu sálunum í lífi okkar, öllum perlunum og minnumst þeirra sem farin eru þar sem minningin lifir sem ljós. Hvers vegna þau veiktust, hvernig þau dóu er ekki aðalatriðið, og veikindi okkar í dag – hver svo sem þau eru, eru ekki við.
Auðvitað berum við virðingu fyrir hvert öðru, veikum eða heilbrigðum, – ég verð að viðurkenna að stundum hafa þessi „skilti“ sem verið er að dreifa á facebook alið á sektarkennd minni, – er ég ekki góð manneskja ef ég deili þessu ekki á minn vegg? – – oft byrjar þetta á „Ég veit hverjir myndu dreifa þessu …. og það eru bara 2 % facebookvina minna“ .. eða eitthvað í þá áttina – og undirliggjandi er að þeir sem ekki dreifa séu þá þeir sem hafi ekki samhug með þeim sem hafa annað hvort fallið fyrir sjúkdómi eða eru með hann.“ –
Ég missti æskuvinkonu mína úr krabbameini, missti líka frænku – báðar í blóma lífsins. Ég þekki líka marga sem eru að glíma við alls konar sjúkdóma. Allt þetta fólk eru rósir í mínu lífi.
Fólk er sem ilmandi rósir. Þær skipta meira máli en þyrnarnir og missum ekki sjónar á fegurð þeirra og ilmi vegna þyrnanna.