Hvernig er hægt að lifa í núinu og samt vera að búa sér til markmið og hafa sýn?
Er þetta ekki spurning sem margir spyrja sig? – Sjálf er ég bæði að leiðbeina við líf í núinu og að setja fókus inn á við, auk þess að hjálpa fólki við að búa sér til stefnu – sýn – og hafa trú á sýninni. Einhvers konar vísir að markþjálfun.
Svarið er í sinni einföldustu mynd að við þurfum að hafa innri og ytri markmið. Hið ytra er t.d. þessi klassísku að ná árangri í starfi, finna góðan lífsförunaut, ná árangri félagslega, eignast draumahúsið o.s.frv.- En hin innri eru að ná sátt við sjálfa/n sig, frelsa huga sinn og hjarta, leita inn á við og ná æðruleysi.
Ef að innri markmiðum er ekki náð verðum við aldrei fullkomlega ánægð með ytri markmið. –
„Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en glata sálu sinni“
Setjum okkur því endilega sýn – fallega sýn, leyfum okkur að dreyma og ekki setja upp hindranir, hvorki innri né ytri hindranir. Þegar við höfum sett upp sýn – og ég mæli með því að skrifa þessa sýn niður, þá þurfum við að þekkja það sem hindrar og við þurfum að trúa á sýnina og leyfa henni að verða að veruleika. Kannski er eitthvað þar sem ekki gengur upp, og þá leyfum við því líka bara að vera – því kannski var það ekki það besta fyrir okkur. – Það sem verður verður.
Enginn er færari okkur að drepa niður sýnina okkar en við sjálf. Það geta jú verið ytri hindranir, fólk, atburðir o.s.frv. en það fer eftir viðbrögðum okkar, hversu trufluð við erum af þessum ytri hindrunum hvort við missum sjónar af sýninni eða ekki.
Því miður skemma margir þessa sýn fyrir sér með því að leyfa henni ekki að rætast, trúa ekki á hana, byggja á fyrri reynslu og segja því „mér mun ekki takast þetta núna, því mér tókst það ekki áður“… eða eitthvað álíka. Aðrir segja „ég á ekkert gott skilið“ –
Henry Ford sagði að hvort sem þú heldur að þú getir gert eitthvað eða heldur ekki, hafir þú rétt fyrir þér.
„Resistance“ – eða mótstaðan við hinu góða sem okkur er ætlað er einn af okkar verstu óvinum. –
Við þurfum að byrja að losa hið innra, losa stíflurnar í líkamanum og huganum. Losa um allt þetta „ég get ekki röfl“ – Losa um fókusinn á dramanu. Veita athygli heilbrigða hluta okkar i stað þess að fókusera á það sem er veikt í okkur. –
Besta aðferðin sem ég persónulega þekki og stunda er hugleiðslan, – að leiða hugann en ekki láta hann leiða okkur. Ég lærði hugleiðslu fyrir mörgum árum og hef þróað mínar eigin hugleiðslur og kennt. Einnig nota ég hugleiðslur frá öðrum fyrir sjálfa mig. – „Guided meditation“ – Það eru ýmis form af hugleiðslu, hugleiðsla getur verið að borða góðan mat og veita honum athygli, hverjum bita fyrir sig, finna bragð og áferð matarins, hugleiðsla getur verið að vera við árbakka og veiða fisk, hugleiðsla getur verið að hlusta á uppáhaldstónlistina þína eða ganga á fjöll. – Allt sem lætur þér líða vel og kemur þér inn á við, inn að innri markmiðum og losar um áhyggjur og kvíða sem halda þér spenntri/spenntum.
Innra ljós, friður, gleði, ást, sýn … eru atriði sem hægt er að kalla fram hið innra með hugleiðsluaðferðinni. – Hugleiðslan er eitt af hliðunum til að komast inn og sjá fjársjóðinn/uppsprettuna hið innra.
Á skipulagsfundi í Lausninni í gær, lét ég vita að ég yrði með hugleiðslu þrisvar í viku næsta vetur. Hugleiðslan byrjar um miðjan ágúst og ég setti upp kvöld, morgun – og hádegistíma til að sem flestir gætu fundið eitthvað við sitt hæfi. Ég ætla að hafa þetta óhefðbundið og hafa eitt mánaðargjald, þannig að þetta verður eins og í líkamsræktinni, eftir því sem fólk mætir oftar þess ódýrari verður tíminn!. Hugleiðslumánuðurinn í Lausninni verður frá 15. – 15. hvers mánaðar – þannig að fyrsta hugleiðslan er 15. ágúst nk.
Stakur tími kostar kr. 2000.-
10 tíma „klippi“kort frjáls mæting kr. 15.000.-
Eins mánaðar kort kr. 10.000.-
Tveggja mán. kort kostar kr. 18.000.-
þriggja mánaða kort kostar kr. 24.000.-
þetta verður betur auglýst þegar nær dregur og hægt verður að kaupa gjafabréf til að gefa sjálfum sér eða öðrum.
Tímarnir í boði verða:
Mánudaga kl. 19:00 – 20:00
Þriðjudaga kl. 11:00 – 12:00
Miðvikudaga kl. 08:00 – 09:00 og 12:00 – 13:00
Fimmtudaga kl. 12:00 – 13:00
Ath! Hugleiðslan er þvertrúarleg og þverpólitísk, – allt starfið miðast að því að treysta, dæma ekki hvert annað, geta verið við sjálf og komið fram af heiðarleika. – Ég nýti mér orkustöðvar, liti, ljós – en fyrst og fremst þá náðargjafir sem guð/lífið/heimurinn/mátturinn hefur gefið en sannarlega tel ég að allt ofangreint sé þar innifalið. –
Vertu ekki þín innri hindrun, því þú átt allt gott skilið.
Slepptu, treystu og leyfðu … þér að skína.