Að leiða af ástríðu …. í tilefni nýafstaðinna forsetakosninga

„Hver einn og einasti einstaklingur fæðist hér sem ljósvíkingur“ …Ég trúi því að allir hafi kraft og geti áhrif haft.“ …  Vildi samt óska ég væri meira vakandi, stundum er ég sofandi“ .. Allir eru ljósvíkingar í hjartanu á sér“ … (Mugison og Hjálmar)

Ég er hugsi vegna nýafstaðinna forsetakosninga.  Getur verið að sá sem hafði mestu ástríðuna hafi unnið kosningarnar og hafi þannig tekist að vekja von,  eða var það vegna þess að hann vakti ótta? –  Ég ákvað að kjósa Þóru,  þó ég viðurkenni að mér hafi þótt vanta upp á ástríðuna hjá henni og upplifað eitthvað vélrænt við og við  …  en það er bara mín upplifun, og þrátt fyrir það var hún mitt val,  því þetta vélræna var bara við og við, eins og áður sagði. –  Þegar ég horfði á samræðurnar í gærkvöldi var það í raun Andrea sem heillaði mig mest,  og ég held að sú kona eigi eftir að ná árangri sem leiðtogi, þó það verði ekki sem forseti.  Reyndar var ég búin að spá því að Dorrit yrði sigurvegari kosninganna, en þar fer kona með sjarma og hugrekki þeirrar sem berskjaldar sig og tekur sig ekki of hátíðlega.

Í mínum huga þarf forseti að vera ljós og vekja ljós hjá öðrum.  Vera andlegur og ástríðufullur leiðtogi ekki síður en veraldlegur.  Því að ef að andann vantar og ástríðuna,  þá vantar ansi margt.

„Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu“ …  (´úr 5. kafli Matt. )

Það þarf ekki nema eina eldspítu til að lýsa upp dimmt herbergi.  Með þessari  einu eldspítu er hægt að kveikja á mörgum kertum.

Þannig virkar leiðtoginn og þannig er kjarninn í því að veita öðrum eldmóð og innblástur.  Það er sá sem opinberar ljósið sitt,  er tilbúin/n til berskjöldunar og  hefur hugrekkið til að losa sig við ótta, efa og hamlandi trú og gefur fólki von, bjartsýni og tilfinningu fyrir tilgangi sínum.  Mikilvægi þess að færa ljósið inn í heim óvissu og hvetja aðra til að gera það sama.  Þetta er það sem við köllum ástríðu eða eldmóð.

Ástríða er orka sem kemur frá hjartanu sem flæðir í gegnum okkur, ekki bara frá okkur. Hún fyllir hjörtu okkar þegar við leyfum það og hún gefur öðrum innblástur þegar við deilum henni.  Það er eins og sólskin sem flæðir inn um dyragátt sem við leyfum okkur að opna.

Það er ekkert nýtt, það var alltaf til staðar.  Við þurftum bara að samþykkja það.   Undir réttu kringumstæðunum virkar þetta „flæði“ áreynslulaust, auðvelt og tignarlegt.

Það er að minna okkur á að við höfum tilgang.  Okkur er ætlað að vera jákvæð.  Okkur er ætlað að vera ástríðufull og upplifa ákall lífsins – opna dyrnar sem hingað til hafa stundum lokað á ljósið. – Dyr mótstöðu og hamlana.


Innblásturinn kemur þegar við leyfum sjálfum okkur að vera andleg og í takti við innsta kjarna.

Þegar þú upplifir einlæga ástríðu og ert innblásin/n af einhverju eða einhverjum,  í hvers konar ástandi ertu?  Hvað ertu tilbúin/n til að gera til að sýn þín verði að veruleika? –  Sleppa ótta?  Sleppa efa? – Trúa á sýnina?

Þegar sjálfsöryggið vex og trúin á markmiðið er líklegra að ná árangri.

Við erum öll leiðtogar, við erum það með því að vera fyrirmyndir,  okkar eigin, börnum okkar og annarra, okkar nánustu og svo koll af kolli stækkar það … Ef við látum ljós okkar skína, – þá þýðir það að við erum að fylla okkur af ljósi lífsins, ljósinu sem okkur var gefið við fæðingu.  Það streymir til okkar og við eigum ekki að loka á það, heldur gefa það áfram. Það er okkar að viðhalda ljósinu og við getum gengið í gegnum hvern dimman dalinn á fætur öðrum, og lýst þann dal.  Okkur hefur nú þegar verið gefið ljósið,  en það er okkar að láta það skína.

(hluti af þessari hugvekju er innblásin af:
Leading with Passion  eftir John J. Murphy)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s