Þessi hugvekja er endurvakin, – eflaust vegna þess að ég sá mynd sem minnti mig á hana. Þessi táknræna mynd er hér:
Þegar einhver deyr þá hugleiðum við oft hvernig viðkomandi lifði lífinu, og í jarðarförinni er farið yfir lífsgönguna, oftar kallað lífshlaup. Þegar verið er að tala um gamalt fólk er oft sagt að það hafið dáið satt lífdaga, en þá deyr unga fólkið væntanlega enn hungrað lífdaga, eða hvað?
Einu sinn skrifaði ég um menntaveginn sem væri genginn eins og Fimmvörðuháls, en það má alveg eins nota þá líkingu um lífsgönguna, líkinguna um fjallgöngu eða vegalengd sem við vitum ca. fyrirfram hvað á að taka langan tíma.
Ekki komast allir á leiðarenda, heldur heltast úr lestinni; veikjast, verða fyrir slysi eða þola hreinlega ekki meira og falla fyrir eigin hendi. Sumir leggjast bara niður og geta ekki meira. Það er of dimmt, það vantar vilja til að halda áfram, því að fólk sér enga ástæðu, sér engan tilgang til að halda áfram.
Það sem dregur helst úr mér er illskan og skömmin. Illskan, hatrið og óttinn sem þrífst í heiminum og á minni eigin göngu herjar það á mig sem illviðri eða mótvindur.
Hvað er þá það sem heldur mér helst gangandi og hver er tilgangur minn, og væntanlega þinn, í lifsgöngunni? Það er væntanlega elskan – það er að vera og lifa sem vogarafl gegn illskunni. Tilveran er barátta góðs og ills, og eftir því sem fleiri láta gott af sér leiða og elska því betra.
Því er svo mikilvægt að hvert okkar sem getur gefið gott viti af því hversu mikilvægu hlutverki við höfum að gegna til að halda hinu góða uppi í heiminum. Hvert eitt og einasta okkar hefur þann tilgang að fylla og opna hjarta sitt fyrir elsku, og láta það skína fyrir sig og til þeirra sem í kring eru.
Í lífsgöngunni þurfum við ferðafélaga, ekki einungis fólk, heldur þurfum við ferðafélaga í formi gilda.
Gildin eru m.a. þau góðu eins og: ást, heilindi, hugrekki, traust, trú, virðing og vinátta – þessu öllu þurfum við að pakka með í lífsgönguna og þessu þurfum við sem eldri erum að deila með og kenna hinum yngri. Stundum eru þau reyndar betri í að kenna okkur.
Á göngunni þurfum við að passa okkur að hlaða ekki of miklu á okkur, ekki verða of þung – hvorki líkamlega né andlega. Við megum ekki draga fortíðina á eftir okkur í bandi, þá getur gangan orðið of þung og stundum óbærileg. Ef við horfum of langt fram, þá missum við kannski af því að sjá þær dásemdir sem eru í kringum okkur. Við þurfum að stoppa reglulega og njóta útsýnisins – njóta þess að vera þar sem við erum, en ekki aðeins hugsa hvernig verði þegar við erum komin lengra. Svo er öruggara að líta í kringum sig til að gæta að hvað er að gerast hér og nú.
Mér finnst það fallegur tilgangur lífsins: að elska – elska sig og elska aðra.
Mörg erum við kvíðin, stundum erum við að kvíða því sem aldrei verður – og eflaust er það oftast svoleiðis. Kvíðinn býr til meiri kvíða.
Allt sem við vökvum dafnar og þess vegna má ekki vökva kvíðann og ekki vökva áhyggjurnar. Við verðum að vökva traustið, trúna, hugrekkið og vökva elskuna.
Sendum fallegar hugsanir til okkar nánustu í stað þess að senda þeim áhyggjur okkar, sumir segja að áhyggjur séu bæn, í staðinn fyrir að senda gott sendum við okkar áhyggjur í viðkomandi sem við höfum áhyggjur af. Þá er bara að breyta áhyggjunum yfir í ljós og elsku og senda það í einum góðum pakka til viðkomandi. Við það má bæta að senda óvinum okkar, eða þeim sem teljast dags daglega ekki í „okkar liði“ líka fallegar hugsanir, fallegar hugsanir skaða engan og síst okkur sjálf.
Þegar við stöldrum við á lífsgöngunni, kannski bara í kvöld – tökum þá djúpt andann, þökkum fyrir hversdaginn, þökkum það sem við venjulega tökum sem sjálfsögðum hlut. „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ ..
Gott nesti í formi næringar er grundvallarelement fyrir heilsusamlegri lífsgöngu okkar, við berum svo ábyrgð á því að huga vel að farartækinu okkar; líkamanum – og huga vel að því sem drífur okkur áfram; andanum – en vissulega verður þetta tvennt að fara saman, á lífsgöngunni.
Síðast en ekki síst, er mikilvægt að minnast á samferðafólkið í lífsgöngunni. Ég hef gengið samferða mörgu fólki, er alltaf að kynnast nýju fólki , yndislegu og stórmerkilegu fólki. Reyndar finnst mér flest fólk stórmerkilegt og mikilvægt sem ég kynnist, allir hafa eitthvað að gefa. Sumt fólk er fyrirmyndir af því sem ég vil vera og annað fólk að því sem ég vil ekki vera.
Þau sem gefa elsku, styrk og gleði eru bestu fyrirmyndirnar og þeim kýs ég að vera samferða.
Við höfum val!