„Áttu þetta skilið?“ ….

Ég var einu sinni spurð þessarar spurningar,  og svarið þá var: “NEI” og ég tók afdrifaríka ákvörðun í mínu lífi.

 

Þrátt fyrir að vita hvað ég ætti skilið og hvað ekki hélt ég ekki áfram að fara eftir því.  Og þrátt fyrir að ég leysti upp vondar aðstæður eða skaðlegar,  sem höfðu skapast að hluta til og var viðhaldið vegna minnar eigin vankunnáttu í samskiptum (meðvirkni) fór ég aftur og aftur í sama hlutverkið,  hlutverk þess sem þóknast, þess sem virðir ekki eigin langanir og þarfir vegna þess að langanir og þarfir annarra ganga alltaf fyrir.

 Ef ekki í sambandi þá í starfi.

“Ég verð að taka tillit”

“Ég vil að allir séu vinir”

“Æ, þessi á svo bágt”

“Ég get þraukað, en ekki hinir”

 „Þessi verður að fá að njóta sín“

„Ég vil ekki kvarta“ .

Fórnarlamb hvað?

 

Ég er löngu búin að læra (the hard way) að ég fæ sama verkefnið aftur og aftur þar til ég fer að tækla það rétt. 

 

Lífið er ekkert meðvirkt með okkur,  eða að sleppa okkur.  Það vill að við lærum og þroskumst.

 

En hvað á ég skilið?

 

Ég á skilið virðingu, ást og traust og til að eiga það skilið þarf ég að virða mig, elska mig og treysta mér fyrst og fremst. 

 

Ég á skilið hamingju, og hamingjuna sæki ég ekki út á við, hún kviknar innra með mér,   hún er þarna og við upplifum hana þegar við opnum augun, eyrun og skynfæri öll. 

 

Ég á skilið góða heilsu, en ég verð þá að sinna mér vel og næra bæði andlega og líkamlega,  ekki bæla niður tilfinningar sem setjast að í líkamanum,  ekki fela mig og ekki afneita sjálfri mér.  Ég verð að samþykkja sjálfa mig og elska og gera það sem í mínu valdi stendur til að halda góðri heilsu.  Auðvitað er ekki allt á mínu valdi, en ótrúlega mikið samt.

 

Ég á skilið að skína.  Já, ég má og á að skína – og ljós mitt á ekki að skyggja á neina aðra og ef þeim finnst það óþægilegt þurfa þeir kannski bara að skrúfa upp sitt eigið ljós? –   Hamingja mín er hamingja þín og öfugt.

 Ég á skilið að eiga góðan maka, ég þarf á samneyti, nánd og snertingu aðila af gagnstæðu kyni  að halda eins og svo margir.  Ég væri að ljúga ef ég þættist ekki þurfa þess.  Ég á skilið maka sem stendur mér við hlið og hann á skilið maka sem stendur honum við hlið.  Ég á skilið jafningjasamband,  heiðarleika, traust og það að vera elskuð eins og ég er og þurfa ekki að sanna mig, eða betla um athygli.  Ég á skilið maka sem veit hvað hann vill.  Hann á líka skilið að ég segi honum hvað ég vil.  Allt of mörg pör yrða ekki væntingar, langanir sínar og þrár við hvort annað og fara svo í fýlu þegar að þær eru ekki virtar. –

„Betra er autt rúm en illa skipað“ –    hvað er annars illa skipað rúm?  Það verður hver að finna út fyrir sig.

Það er margt, margt fleira sem ég á skilið, eins og að lifa án þess að þurfa að óttast útgjöld hver mánaðamót,  án þess að lifa í afkomukvíða, en það hefur verið minn raunveruleiki síðastliðið ár,  og hefur það verið mín stærsta áskorun að halda hamingjunni og sjá hana, þannig að útgjaldafrumskógurinn skyggi ekki alveg á hana, en ekki bogna við það að veraldlegur grunnur hefur gefið sig.   Ég verð að líta á það sem dýrmæta reynslu (gjöf?) að geta sett mig í spor þeirra sem hreinlega ekki eiga fyrir mat, selja gullið sitt eða hvað nú sem það er sem er einhverra peninga virði. 

 

 

Ég á margt skilið og að sjálfsögðu eiga allir menn og allar konur allt gott skilið.  

 

Við erum eflaust sjálf að hindra það ítrekað,  við trúum því ekki.

 

En ég ætla að ítreka það daglega við sjálfa mig,  

“Ég á allt gott skilið” –

 

“En hvað gagnast það manninum að eignast allan heiminn en glata sálu sinni?”

 

Þessi spurning hefur leitað á mig undanfarið, – og ég er ekki að biðja um heiminn, aðeins traust þannig að ég geti haft þak yfir höfuðið og hafi frelsi til að geta heimsótt barnabörnin mín e.t.v tvisvar á ári.   Það stendur tæpt í dag,  en það rætist úr, því ég á það skilið! 😉

 

Aldrei hef ég verið með meiri innri lífsfyllingu,  enda hef ég verið dugleg að fylla á bikarinn með góðri næringu og í raun með því bara að trúa að bikarinn sé fullur og sjá það.  Vakna til meðvitundar um þessa ómetanlegu innri gjöf.

 

Nú eru nýir hlutir að koma inn í líf mitt og ný verkefni – eða réttara sagt nýjar gjafir.  Ég hef ítrekað gert sömu mistökin,  já, en nú hef ég lært og tek ekki á móti því sem mér er ekki bjóðandi.  Ég læt ekki bjóða mér upp á ógeðisdrykk sem ég drekk þegjandi og hljóðalaust vegna þess að það hentar öðrum, af honum verð ég veik. Ég ætla að gera rétt og vera vakandi,  virða þarfir mínar og langanir en ekki fara í aftursætið og alls ekki í píslarvottahlutverkið.

 

Ég get þetta,  ég ætla og ég skal,  en ég bið líka um hjálp þess máttar sem elskar mig skilyrðislaust,  og það er bara einn máttur sem getur það og það er Guð.

„Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt, og vit til að greina þar á milli“

Takk.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s