„Hugsaðu ljós“……

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna.

Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því …“   (Jóh 1:1-5, 14)

Jesús er fyrirmynd mennskunnar,   manneskjunnar sem getur lifað í myrkri og manneskjunnar sem lifir í ljósi,  manneskjunnar sem er ljós.

Ég vaknaði í morgun og sá snjóinn á trjánum, og sá allt lífið.  Heimurinn er súrealískur núna, – ég trúi næstum því að ég rekist á ljón í garði nágrannans,  mér finnst jafn „auðvelt“ að trúa því og það að dóttir mín sé látin.   En ég verð að trúa því, því það er staðreynd.  Ég vinn mig ekkert útúr því hjartasári með því að stytta mér leið í gegnum sorgina,  með flótta frá henni.

En ég get valið að ganga leiðina í myrkri eða ég get valið að ganga hana í ljósi.

„Þótt ég fari um dauðans skugga dal,  þá óttast ég ekkert illt því ÞÚ ert hjá mér“ …

Ég er ekki að lenda í fyrsta áfalli lífs míns,  ég held ég hafi bara fengið dágóðan skammt,  hélt reyndar að kvótinn væri kominn.  En engin/n veit…

Aðdragandinn, átökin og áfallið við að missa dóttur mína og ganga í gegnum lokakafla lífs hennar með henni, dóttur  sem var mér mjög nátengd er á ómælanlegum sársaukaskala og aðeins þeir sem þekkja sjálfir skilja.

Ég hef valið ljósið hingað til og ég ætla ekki að leyfa myrkrinu eða þeim öflum sem eru í þeim að ná mér. –  Ég ætla að hæðast að þessum öflum,  sem halda að þau geti náð mér og haldið mér niðri.  Hæðast að skrímslunum í djúpinu sem reyna að toga,  og hlæja að þeim þegar þau missa máttinn þegar ég fylli mig af ljósi,  og vegna ljóssins ná þau ekki að festa klónum í mig,  því þau þola ekki birtuna. –

Hí á ykkur,  dirfist ekki! –

Ég ætla að halda áfram þó vegurinn verði hlykkjóttur,  ég geri það ekki án Evu Lindar,  því ég er nokkuð viss um að hvíslið: „Hugsaðu ljós“  kom frá henni.    Við gerum þetta saman,  hún er alltaf í mér,  hún er af mínum líkama og verður alltaf dóttir mín, var og er.

Börnin mín;  Jóhanna Vala og Þórarinn Ágúst eru líka ljós af mínu ljósi, og þau bera það sama með sér og Eva Lind,  deildu sama móðurlífi og eiga margt sameiginlegt með henni.

Við munum vera hennar ljósberar,  og börnin hennar Ísak Máni og Elisabeth að sjálfsögðu líka, og litla Eva Rós Þórarinsdóttir.  Allir sem þekktu Evu,  líka pabbi hennar, ömmur, afarnir sem eru farnir, fjölskyldur okkar,  vinkonur og vinir hennar og okkar sem erum hérna megin slæðunnar.  Og allir sem taka þátt í því að hugsa eins og hún óskaði að fólk hugsaði;  með jákvæðni og gleði.

Ljós af ljósi.

Já,  ég trúi að það séu dimm öfl og það séu ljósöfl.  Við getum nært bæði,  en VIÐ VELJUM.

Aldan er svo sterk,  hún verður varla verri og hún hefði alveg getað kaffært okkur,  en við erum vön öldunum í Flórída,  við erum jaxlar,  já meira að segja mamman er jaxl sem fer út í öldurnar. –  Við hræddumst aldrei óveðrið.

Við erum inní þeim miðjum núna og þess vegna er erfitt að anda. En við ætlum að vinna,  með Evu Lind,  því ef einhver er á ströndinni að hvetja okkur áfram er það hún.   Það er ekki í hennar anda að við leggjumst í eymd og volæði.   Hún vissi að við myndum syrgja,  var búin að segja það – og það má,  enda ekkert okkar ofurmannlegt,  – ekkert er mennskara en sorgin.

Upp, upp, mín sál ..  já og inn með ljósið.

Hugsaðu ljós! ..

Gleymum ekki því sem Eva óskaði; að börnin hennar yrðu alin upp í jákvæðni og gleði. Við ættum öll að taka það til okkar, þó ekki með því að þagga niður í sorg okkar, – heldur að ganga í gegnum sorgina alltaf með hennar hugmyndafræði í hjarta, og með henni.

Þannig virðum við hana og minningu hennar.

Elsku, elsku, elsku Eva Lind, lífsins lind sem heldur áfram að gefa og lind sem aldrei þornar. –

light6-ElisabethKublerRoss-quote

Ein hugrenning um “„Hugsaðu ljós“……

  1. Bakvísun: Mest lesið á árinu 2013 | johannamagnusdottir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s