Eftirsjá á dánarbeði – eða ekki ….

Lissa Rankin er læknir, – en einnig mikil áhugamanneskja um „Mind over Medicine“ og hefur skrifað mikið um það. –  Það er s.s. um andlega þáttinn í lækningum. Ég hef fylgst með henni á Facebook og hlustað á nokkra góða fyrirlestra með henni.  Í dag (11. júlí 2014) birti hún eftirfarandi (í minni þýðingu):

„Sem læknir, sem hefur oft setið við dánarbeð, get ég staðfest þá staðreynd að hin deyjandi sjá sjaldnast eftir því að hafa ekki haft næga stjórn á lífi sínu.  Þau sjá eftir því að hafa ekki tekið meiri áhættur.  Þau sjá eftir draumum sem þau fylgdu ekki eftir, ástríðu sem þau létu renna út í sandinn.  En enn fremur, sáu þau eftir að hafa ekki opnað hjarta sitt að fullu svo að kærleikurinn flæddi út, eins og úr brotinni kókóshnetu.  Þau sáu eftir að hafa ekki tjáð sig meira um ástina,  og hvernig þau héldu aftur af sér, íklædd brynju til að vernda sig gegn berskjöldun ástarinnar. Þau sjá eftir að hafa ekki fyrirgefið þeim sem særðu þau.  Þau sjá eftir að hafa ekki haft samkennd sem lífsgildi í fyrsta sæti.   Og á þessari lokastundu, þegar þau finna sárindin yfir því að hafa látið þörfina fyrir að stjórna leiða þau til að fórna tækifærinu til að elska að fullu, finna þau, í sársaukanum í eftirsjánni, að þau eru þau sem eru í mestri þörf fyrir samkennd.

Vöknum við þetta. Ekki vera ein eða einn af þessum sem deyr með eftirsjá. Ekki láta óttann halda aftur af þér. Það er ekki of seint. Það er enn tími.  Þitt er valið.  Í stað þess að vera takmörkuð af ótta okkar,  getur þú látið hugrakka hluta þinn taka við stjórninni héðan í frá.  Þú mátt eiga drauma.  Þú hefur það sem til þarf, til að vera ein/einn af þessum, sem uppfyllir sínar ástríður,  lætur alla sem þú elskar vita, og að upplifa þessa innri ró sem felst í því að lifir í samræmi við hið sanna sjálf þitt.  Þú getur geislað frá þér meðvitund Guðs í mannlegu formi – og elskað alla leið, alltaf, og skilið eftir boðskap hjá hópi fólks.  Hjarta þitt er svona umfangsmikið.  Hugrekki þitt er svona stórt: Þú hefur enga hugmynd um hversu mikil/l þú ert.  Þú getur byrjað nú þegar.  Þú hefur innra með þér máttinn til að breyta öllu á augabragði.  Í dag getur verið fyrsti dagurinn í restinni af lífinu þínu. 

Stattu stöðug/ur í þeirri fullvissu að þú ert elskaður/elskuð.  Þú ert nóg. Þitt sanna sjálf þráir að brjótast út, og þegar þú gerir það blessar þú heiminn.“
——
Hér vantar nú bara Amen og Hallelúja.  Hvílíkur hvatningartexti að láta nú eftir sér og þora að gera það sem okkur langar til.  Er einhver þarna úti sem þig langar að segja að þú elskir?  Það er allt í lagi að viðkomandi viti það, –  þó hann/hún elski þig ekki til baka (ekki ástfangin) – þá ert þú a.m.k. búin/n að segja þitt.  Svo getur verið að okkur langi að segja vinum eða vinkonum hversu ómetanleg þau eru okkur og hvað við elskum þau mikið.  Nú eða börnum – foreldrum o.s.frv. –  Það er alltaf svo notalegt að heyra: „Ég elska þig“  –  mér hlýnar a.m.k. við það .. og látum nú elskuna flæða eins og kókósmjólk úr öllum okkar brotnu hjörtum,  því að engin/n hefur nú gengið þessa lífsgöngu án einhverra sára sem hafa skapað glufur í hjartað,  hvernig væri nú að nota þær til góðs og hleypa kærleikanum út  – í stað þess að vera í þessari brynju? –
Látum nú þau sem farin eru kenna okkur – lærum af þeim – og auðvitað lifa þau enn í okkur, svo við höfum tækifæri að ljúka því sem þau hefðu e.t.v. viljað.
Það eru sem betur fer ekki öll sem fara full eftirsjár.  Ég átti stelpu sem lifði hugrökk, fylgdi hjarta sínu og lét ekki stöðva sig. –  Hvernig hún lifði var í sínu lífi,  er mér,  og mörgum fleirum  innblástur í okkar lífi, alla daga.
Það er ekki síst hennar vegna að ég, móðir hennar, þori í dag að vera ég sjálf, með opið hjarta, þori að elska – þrátt fyrir að vera auðsæranleg og þrátt fyrir nektina sem felst í því að missa. Því ég hef uppgötvað þann sannleika að kærleikurinn er uppspretta sem eykst við notkun.
Hræðumst aldrei að elska, og vonandi mun þessi elska einhvern tímann verða ráðandi afl í heiminum. –
Það byrjar heima –  í hjartanu þínu.
Þakka þér fyrir að hafa gefið þér tíma til að lesa. ❤
candle-heart-hands

Feður og dætur ..

Ég hef verið að lesa svo sorglegar fréttir undanfarið, sem innihalda samskipti feðra og dætra.  Þið vitið um hvaða fólk ég er að tala. Það skiptir ekki öllu máli, – og þessi pistill fjallar ekki um einstök mál heldur bara almennt um þessi tengsl, og það sama gildir um tengsl milli annarra í fjölskyldunni, hver svo sem þar eiga í hlut.  Auðvitað gæti þetta verið móðir og sonur, eða systir og bróðir.

Öll þessi vondu samskipti eiga sér rætur í sársauka. EInhver segir eitthvað eða gerir eitthvað út frá eigin sársauka.

Er allt þetta fólk sem tilheyrir sömu fjölskyldunni tilbúið til að ganga ósátt til hinstu hvílu? –   Hvað ef að einhver deyr og ekki hefur náðst sátt?

Það er svo sorglegt að horfa upp á ættingja, jafnvel í valdabaráttu, um eitthvað sem eyðist,  þ.e.a.s. þessi völd flytur enginn með sér inn í eilífðina. –  Sálin fer með okkur inn í eilífðina, sál sem hefur e.t.v. ekki náð að fyrirgefa.  Og eftir verður sál sem heldur nær ekki að fyrirgefa,  sál sem situr uppi með að vera búin að missa e.t.v. barnið sitt og kvaddi það ekki með sátt. –

Í mínum huga er fátt sorglegra.

Mér finnst þetta líka ákveðið vanþakklæti fyrir lífið.  Að eiga dóttur eða eiga föður, að eiga son, að eiga móður,  en ná ekki að njóta þess að eiga samskipti við hvort annað.

Sum sár eru svo djúp að þau er erfitt að heila,  en þar finnst mér að guðsfólkið,  eða sem telur sig trúa á kærleiksríkan Guð,  ætti einmitt að biðja Guð um lækningu og heilun.  Biðja Guð um að hjálpa sér við fyrirgefninguna.

Ég hef litla trú á illskunni, hvað sem hver segir.  Ég trúi að hún sé til, en ég trúi að það sé hægt að afvalda hana með elskunni.

Ég trúi ekki öðru en að faðir liggi andvaka að geta ekki talað við dóttur og að dóttir liggi andvaka að geta ekki talað við föður. Þetta er tap á báða bóga. –

Fyrirgefningin er stærsta gjöf sem hægt er að gefa sjálfum sér.  Hún þýðir ekki að við höfum samþykkt gjörðir eða orð hinna,  hún þýðir að við sleppum tökum á reiði, gremju, og öllu því sem hið vonda vill að við höldum fast í.  Ég trúi að við getum snúið á illskuna með því að samþykkja hana ekki,  og gera hana ekki að okkar. –

Við syndgum öll einhvern tímann, sum í smáu önnur í stóru. Við gerum öll mistök einhvern tímann.

Þegar ásakanirnar birtast á víxl í blöðunum – er það réttur vettvangur til fyrirgefningar? –   Munu ásakanir á víxl leysa málin?

Ef við viljum raunverulega ná bata og betra lífi, þrátt fyrir að vondir hlutir hafi gerst,  – þá þurfum við að sýna skilning en ekki stunda það sem kallað er „The Blaming Game.“ –

Hættum að leita að sökudólgum og förum að skilja AF HVERJU hlutirnir gerast, eða fólk hegðar sér á ákveðinn hátt. það er miklu farsælli leið til að leysa flest mál og deilur.

Lífið er of stutt og of mikilvægt til að því sé lifað í deilum, ekki gera ekki neitt, eins og þar stendur,  enginn einstaklingur getur verið hamingjusamur hvort sem sál hans er plöguð af skömm vegna vondra leyndarmála eða lifir með sál sem nær ekki að skína  vegna reiði og gremju.

Með von í hjarta að þessi skrif hjálpi til skilnings á mikilvægi þess að eyða ekki lífinu til einskis  .. okkar dýrmæta lífi.

424816_387786877901754_155458597801251_1714720_1712323506_n

Hvað ertu að hugsa?

Hugsanir eru ekki staðreyndir, ekki heldur þær sem við höfum hvað ástarsambönd varðar.. Það er til alls konar hugmyndafræði um sambönd og ástina eins og:

– Ástin er sársaukafull   (Love hurts)
– Það er ekki hægt að treysta konum/körlum
– Ég er ekki nógu góð/ur
– Hjarta mitt er lokað eða ég get ekki opnað hjarta mitt
– Ég er ekki elskaður/elskuð
– Það er engin/n meðvituð/meðvitaður  kona/karl á lausu
– Sambönd eru bara drama
– Það er ekkert til sem heitir „sönn ást“
– Ég er ekki nógu flott/ur/kynþokkafull/ur/verðmæt/ur
– Ég er of ung/ur / gamall/gömul fyrir ástina

Áttum okkur á því að við erum mjög líklega ómeðvitað að hugsa eina eða fleiri af þessum hugsunum.  Þær hafa stundum orðið til við vonda og/eða sársaukafulla fyrri reynslu

Þess vegna heldur fólk áfram að sækja tilfinningar úr fortíð og varpa þeim yfir á framtíð og varpa tilfinningum sem það hefur upplifað í fortíð í fyrra sambandi yfir á nýtt samband og yfir á nýjan maka.  Sum okkar hafa samsamað sig svo fullkomlega með þessum gömlu hugsunum og tilfinningum að þær lita alla tilveruna og verða eins og álög eða spádómur um framtíð sem við erum sjálf að uppfylla. 

Þegar samband gengur skrykkjótt – er það stundum vegna þess að við erum að varpa á það fyrri reynslu, nota útrunnar hugsanir og tilfinningar sem tilheyrðu öðru og liðnu tímabili á það sem er að gerast í dag.

Þegar við vörpum sárum en þó útrunnum hugsunum og tilfinningum yfir á samband – er það eins og að nýta  ruslahaug.

Það er því kominn tími til að kveðja gömlu hugsanirnar sem ekki þjóna okkur lengur – og taka upp nýrri og bjartsýnni hugsanir.

Engum – eða fáum, dettur í hug að borða mat sem er kominn langt yfir síðasta neysludag? –  Af hverju að nota andlegt fæði sem er orðið ónýtt og er skaðlegt heilsu okkar og hamingju?

Gætum að hvað við hugsum ..

(Þessi grein er endursögn af grein á síðunni Ascended Relatiionships)

Ég skrifa minna þennan mánuð – en er að halda dagbók á framboðssíðunni minni www.kirkjankallar.wordpress.com  en ég er að sækja um stöðu sóknarprests á sunnanverður Snæfellsnesi, vonast til að ég geti skrifað þaðan frá 1. desember nk. 🙂  Það vantar ekki orkuna frá Jöklinum.

1237725_718572361489869_2098217819_n

Er slóðinn varðaður með kærleika? …

Næstum daglega stöndum við frammi fyrir einhvers konar vali, – veraldlegu vali eins og  hvað við eigum að hafa í matinn, og svo vali um viðhorf. –

Ákvarðanir eru teknar og við tökum stefnu samkvæmt þeim, og svo kemur eitthvað upp á og þá breytist stefnan.

Oft heyrum við sagt „Ég veit ekki hvað ég vil“ –  eða „Ég veit ekki hvert ég er að stefna“ –

Þetta þýðir þó varla að við vitum ekki neitt.

Við getum byrjað að stilla upp fyrir okkur það sem við vitum, – flest fólk vill t.d. frið, gleði, ást, styrk o.s.frv. –  Þá er hægt að setja fókusinn þangað, eins og fram kemur í síðustu færslu sem nefnist: Hókus Fókus.

Það eru nokkur ár síðan ég sá tilvitnun frá Carlos Castenada og er hún eftirfarandi:

„Does this path have a heart? If it does, the path is good; if it doesn’t it is of no use.“  

Það er gott að hafa svona vörður, vörður hjartans – kærleikans – á slóðanum okkar.  Ef við lendum á gatnamótum og þurfum að velja á milli tveggja leiða, að spyrja okkur hvor leiðin færi okkur meiri kærleika, meiri ást – og þá allt sem áður er nefnt; gleði, frið og styrk. ❤

6a00d8344a59a353ef00e54f4fbf2d8834-800wi

Hvað gerist ef maki þinn „dansar“ ekki eftir þínu höfði?

Mikill samskiptaspekúlant var að falla frá, hann Hugó Þórisson – blessuð sé minning hans, – en ég sótti eitt sinn helgarnámskeið hjá honum og hlustaði a.m.k. 3svar á hann á fyrirlestrum. –

Það er ýmislegt sem situr eftir eins og ‘“Ég“ boðin,  að tala út frá sjálfum sér en ekki með ásökun,  og það að „Segja það sem maður meinar og meina það sem maður segir.“

Þó Hugó hafi aðallega gefið sig út sem ráðgjafi í samskiptum foreldra og barna þá gilda þessi samskiptaboð að sjálfsögðu milli fullorðins fólks.

Ferlið í samböndum vill of verða þannig að fólk kynnist með fyrirfram gefnar væntingar um hinn „fullkomna“ maka, og ætlar síðan hinum aðilanum alls konar hluti sem eru honum kannski alls ekkert eiginlegir.  Væntingar verða s.s. óuppfylltar og skapa óánægju og vonbrigði hjá þeim sem væntir og vonar og ætlast til.  Það versnar líka oft í því þegar annar aðilinn ætlast til að hinn hreinlega viti hvað hann eða hún er að hugsa og fer svo í gríðarlegt fýlu-eða gremjukast þegar hinn hegðar sér ekki skv. væntingum og tilætlun þess sem óskar.

Þá kemur inn þetta gullkorn að segja upphátt hvað við viljum, hvers við vonum og tala um þarfir okkar og langanir,  jafnvel framtíðarvonir og framtíðarsýn og sjá hvort þær smella saman. –

Það þýðir ekki að ætla maka sínum að sjá um okkar eigin hamingju, – eða taka ábyrgð á okkar hamingju, – svo ekki sé talað um ef við erum búin að ætla honum að vera öðru vísi en hann er, svo er hann bara alls ekkert þannig og fara þá að stjórnast með hann á þann hátt að breyta honum í eitthvað sem hann alls ekki er!!!..  og jú,  fara svo í megafýlu ef honum tekst ekki að vera það sem VIÐ viljum að hann sé. –

Flókið, pinku. – En þarna kemur inn stjórnsemin, og það að ef við hefjum samband á röngum forsendum,  þ.e.a.s. við ætlum okkur að breyta maka okkar til að „aðlaga“ hann að okkur þá er það nokkurn veginn dæmt til að mistakast.  Ef að einhver fæ ekki að vera sá sem hann raunverulega er finnur hann ekki hamingjuna sína og enn þá síður getum við ætlast til að viðkomandi geti gert okkur hamingjusöm.

Alltaf eru það sömu grunnlögmál sem virka, þ.e.a.s. í samskiptum,  við þurfum að vera sátt í eigin skinni til þess að eiga farsælt samband með öðru „skinni“  😉

Það á engin/n að orku-eða hamingjusjúga annan aðila til að fá hamingju og ekki eigum við heldur að þurfa að vera hamingjubrunnur fyrir aðra.  Það er hver og ein/n sinn eigin hamingjubrunnur. –

Um leið og við förum að ætlast til að uppspretta hamingju okkar liggi í annarri manneskju erum við að gefa frá okkur eigin mátt og vald – og fær hinni manneskjunni máttinn – gera hana að einhvers konar æðra mætti og jafnvel þannig að hún skyggi á okkar eigin æðra mátt.

Makinn verður þá einhvers konar „Guð“ í okkar lífi – og þegar makinn klikkar – fer ekki að OKKAR vilja,  þá missum við „trúna.“ –

Verum við sjálf – leyfum öðrum að vera þau sjálf – reynum ekki að breyta fólki – og látum ekki fólk breyta okkur.

Verum við sjálf og virkjum  okkar eigin uppsprettu gleði, gleði, gleði! 😉

to be yourself in a world that is constantly trying to make you something else is the greatest accomplishment copy

 

Ég vil lifa og ég vil gleðjast …

Ég vil dvelja á stað þar sem umvefur mig hrein jákvæð orka, og ef ég hugsa það innar, þá vil ég VERA hrein jákvæð orka.

Ef ég er hrein jákvæð orka, tek ég ekki á móti neikvæðri orku,  hún nær engri tengingu og svona skoppar af mér eins og vatn ef ég væri smurð með olíu. –

Auðvitað íhuga ég lífið og auðvitað íhuga ég dauðann, eftir þjáningar þær sem ég er búin að fara í gegnum síðastliðið ár.  Dauðinn bankaði snemma á dyrnar hjá mér,  en það gerðist þegar pabbi lést 1969 og ég aðeins tæplega 7 ára gömul. –

Dauðinn er jafn sjálfsagður og lífið en voða lítið ræddur í raun.  Það mætti kannski ræða hann meira – ekki undir formerkjum þess að vera hrædd við dauðann,  eða óttast komu hans, heldur til að skilja hann og samþykkja að hann er einmitt hluti lífsins.

Okkur finnst það óréttlátt og hrikalega ósanngjarnt þegar ungt fólk deyr. Það er ósanngjarnt og ömurlegt einhvern veginn. Að ung börn fái ekki að lifa með móður – með föður,  sjái þau aldrei aftur í lifanda lífi.

Það má þó segja að það séu til aðrir vondir hlutir sem eru ekki beinlínis dauði,  en það er þegar foreldrar – lifandi foreldrar – hafna börnum sínum, eða börn foreldrum.   Hvers konar „dauði“ er það annars ekki?

Þegar skaðinn er skeður,  þegar dauðinn er hið raunverulega sem við verðum að horfast í augu við.  Þegar mamma, pabbi, dóttir, sonur, bróðir, systir, frænka, frændi, vinur, vinkona eru farin,  þá hvað?

„Minning þín er ljós í lífi okkar“  er algengasta áritun á legsteina í dag, það þekki ég því ég seldi legsteina í tæp tvö ár. –

Og minning minna nánustu sem farin eru úr þessari jarðvist er svo sannarlega ljós í lífi mínu.

Það er mikið að missa bæði dóttur og móður á sama ári.  Það hljómar eiginlega óbærilegt – og það er það,  en samt,  já samt kemst ég einhvern veginn áfram.

„When going through hell keep going“ –  heyrði ég um daginn.

Ég held áfram, vegna þess að ég fæ enn fleiri minningar og enn meira ljós til að styrkja mig.

Ég fæ ljós frá minningum hinna dánu,  og ég fæ ljós frá hinum lifandi. Aldrei hef ég fengið eins mikla elsku og væntumþykju eins og núna síðustu ár, og þið þarna úti eruð að styrkja mig í því að hreinsa út neikvæða orku og ég vil lifa og ég vil gleðjast og ég vil vera hrein jákvæð orka,  því lífið er orka og við sogum til okkar neikvætt og við sogum til okkar jákvætt.

Þegar fólk fer á fínustu skemmtistaðina þá eru sumir sem fá V.I.P. passa, en V.I.P. þýðir Very – Important – Person.

Í mínu lífi hafa verið mjög mikilvægar persónur, – og þær eru að sjálfsögðu í lífi okkar allra.  Nokkrar af mínum V.I.P. eru farnar og ég varð fúl, sár og reið að þær væru farnar, – þá stærsta stjarnan mín hún Eva Lind,  sem var tekin svona fram fyrir röðina og fór á undan.

Það gat engan órað fyrir því að svona skyldi fara, en það getur engan órað fyrir því að ungt fólk fari – börn á undan foreldrum sínum, en samt er það alltaf að gerast.  Ég er ekki eina móðirin sem hefur misst barnið sitt, – þó að á þeim tímapunkti sem það gerðist liði mér þannig.

En ég VIL lifa og ég vil gleðjast, ég vil njóta þess og þeirra sem eru í þessari jarðvist.  Ég vil vera þeim hrein jákvæð orka um leið og sjálfri mér.

Aðeins út frá styrkleika mínum og mínu ljósi get ég gefið styrk og get ég gefið ljós – og ég get vísað veginn eins og viti.   Ég dreg engan áfram, því engin/n vill vera dregin/n.  – Allir vilja geta gengið á eigin jákvæðu orku.

Í gærkvöldi setti ég kómískan status á facebook: „Ef ég fæ 10 like tek ég tappann úr rauðvínsflösku“ –  ég er, í þessum skrifuðu orðum,  komin með 105 „likes“ .. –  Þetta var skemmtilegur leikur og vissulega var tappinn tekinn úr – og svo kom systir yfir og hjálpaði til, en ég naut í raun mun betur þess að hlæja að öllum „like“ og vinarþelinu sem þeim fylgdu, heldur en áhrifa vínsins.

(ég tek það sérstaklega fram að ég er ekki að hvetja til drykkju áfengra drykkju, og held fast við það að vatnið sé drykkur drykkjanna).

En eníhú – svo ég fari nú að setja botn í þennan pistil –  þá poppaði ítrekað upp í höfuð mér setning úr bók bókanna, sem er   B.I.B.L.Í.A. –  en þessi orð eru úr bók hennar sem kallast  „Prédikarinn“ .. reyndar ætla ég að setja allan kaflann hér með því mér finnst hann passa vel við það sem ég er að skrifa:

„Öllu er afmörkuð stund

1Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.
2Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma,
að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp hið gróðursetta hefur sinn tíma,
3að deyða hefur sinn tíma og að lækna hefur sinn tíma,
að rífa niður hefur sinn tíma og að byggja upp hefur sinn tíma,
4að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma,
að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma,
5að kasta steinum hefur sinn tíma og að tína saman steina hefur sinn tíma,
að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma,
6að leita hefur sinn tíma og að týna hefur sinn tíma,
að geyma hefur sinn tíma og að fleygja hefur sinn tíma,
7að rífa sundur hefur sinn tíma og að sauma saman hefur sinn tíma,
að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma,
8að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma,
stríð hefur sinn tíma og friður hefur sinn tíma.
9Hvaða gagn hefur verkamaðurinn af öllu striti sínu?
10Ég virti fyrir mér þá þraut sem Guð hefur fengið mönnunum að þreyta sig á. 11Allt hefur hann gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra en maðurinn fær ekki skilið að fullu það verk sem Guð vinnur. 12Ég sá að ekkert hugnast þeim betur en að vera glaðir og njóta lífsins meðan það endist. 13En að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.

ETUM – DREKKUM OG VERUM GLÖÐ,   ÞVÍ ÞAÐ ER GUÐS GJÖF.

(feitletranir eru mínar).

eat_drink_enjoy_960x433

Fyrst á réttunni svo á röngunni, tjú, tjú, trallalla ..

Ég hef nokkrum sinnum horft á myndina „Conversation with God“ – en þar segir frá ævi Neale Donald Walsch og hvernig hann hóf samræður sínar við Guð og hvernig hann fór að skrifa.

Eitt af því sem kom í huga minn í morgun (en það er ansi margt) er þetta „quote“  frá Neale, en það er þá svarið um eðli Guðs.

„Neale, you’ve got me all wrong… and you’ve got YOU all wrong too. I don’t want anything from you to be happy. But, you think you are below ME, when in truth… we are all one. There is no separation.“

Allt líf er orka, og eftir að hafa hlustað á Lissa Rankin í morgun, sem talar um innsæið okkar, eða innra ljós (inner pilot light) sem við þurfum að nota til að heila okkur innan frá, sé ég að hún er að tala um það sama og Esther Hicks sem nefnir orkuna the Source, eða uppsprettu,  höfundur „The Secret“ – talar um Love (kærleikann, ástina, elskuna)  sem æðstu orkuna eða (Greatest Power),  það er þá þessi margumræddi æðri máttur. –   Margir kalla þennan mátt Guð.

„Heal from the inside out“ … Peel your masks down and let your light shine“.   Lissa Rankin

Grímurnar sem hér um ræðir, eru hlutverkagrímurnar okkar,  þá í samræmi við stétt, stöðu, starf, hjúskaparstöðu o.fl.

Ljósið kemur innan frá.

Gleðin er forsenda árangurs.

Gleðin kemur innan frá.

Ástin kemur innan frá.

Traustið kemur innan frá.

Virðingin kemur innan frá.

Sækjum þetta allt í uppsprettu ljóssins.

Við erum svo oft að leita langt yfir skammt, – leita að ljósi sem við þegar höfum,  leita að trausti sem við þegar höfum, leita að virðingu sem við þegar höfum, leita að ást sem við þegar höfum.

Við þurfum bara að trúa að þetta sé þarna allt saman,  óendanleg uppspretta – og meira en nóg, –

Við eigum þetta ekki einungis skilið, við eigum þetta og þurfum bara að finna, heyra og sjá þennan innri fjársjóð.

Stundum þurfum við að standa á haus til að fá nýtt sjónarhorn,  eða horfa fyrst á réttunni og svo á röngunni? ..

Himnaríki er innra með okkur og þar getum við gengið í gleði og friði alla daga, líka núna.

Gefum því tækifæri – hindrum það ekki – leyfum því að koma fram.

„Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku, og þá lýsir það öllum í húsinu.“  (Úr fjallræðunni). 

„Heal from the inside out“ … Peel your masks down and let your light shine“.   Lissa Rankin

Hvað eru grímurnar sem Lissa Rankin talar um annað en mæliker sem hylur ljósið?

Heilun kemur innan frá og öll viljum við lifa heil.

Já,  heil og sæl. 

 Teka_InnerLight_big

Já þetta segja þeir allir – gúrúarnir …

Grein eftir Robert Holden

Þó að við hræðumst að eitthvað vanti hið innra förum við út á við að leita að hamingjunni.  Við horfum framhjá því sem er nú þegar „HÉR“ á meðan við eltumst við „ÞAR“ og við missum af hinu heilaga „NÚI“ um leið og við íhugum „NÆSTA SKREF“ gleymum við að þakka fyrir það sem „ER“ um leið og við biðjum um „MEIRA.“  Við leitum, hömumst og þraukum, en við komumst aldrei á áfangastað vegna þess að við komumst ekki yfir hugsunina að eitthvað vanti.

Getum við séð að allur okkar sársauki kemur frá þeirri hugmynd eða trú að uppspretta hamingju okkar sé utan við okkur?  Þessi eina ranghugmynd – þessi litli ótti – er það sem er okkar andlega ruslfæði,  við lærðum óverðugleika, og að vera ekki „nógu góð“ ruslið.

Veitum því eftirtekt  hvernig öllum okkar hugsunum um ótta og skort er umsnúið um leið og við samþykkjum að hver arða alheimsgleðinnar hvílir nú þegar í hjörtum okkar.

Finnum  fyrir þessu – núna. 

Getur þú séð þetta fyrir þér?

Okkar tvö líffræðilegu augu sjá eitt og annað.  Þau sjá hluta af litrófinu, hluta af landslagi, hluta af sjónum, hluta af himninum.  Þau sjá eitthvað af þér og eitthvað af mér.  En þau sjá ekki heildarmyndina.  Það er aðeins þegar þú horfir með hjartanu að þú getur byrjað að skilja möguleikann á sönnum heilindum, sannri fegurð og sannri einingu.

Ímyndum okkur að hvað sem við viljum sé hér og nú.  Hvað vilt þú?
Visku?  Hún er hér nú þegar?  Frið?  Hann er hér.

Innblástur? Hann er nú þegar hér.  Þetta er allt hér,  vegna þess að þú ert hér. Þetta er heildarmyndin.  Þetta er það sem hið ótakmarkaða Sjálf þitt sér.

Við erum það sem við leitum að. Það þýðir að sú gleði sem við vonuðumst eftir  „AÐ FÁ“  eftir að við fyndum okkar sanna félaga, fengjum draumastarfið, keyptum óskahúsið, og þénuðum næga peninga er nú þegar til staðar innra með okkur!

Þegar við leitum að ást, gleði, mætti, peningum, Himnaríki, og Guði, erum við í raun að leita eftir upplifuninni af hinu óskilyrta Sjálfi sem er ekki haldið niðri með ótta,  aðsklnaði og skorti.

VIð erum ekki hér til að finna hamingjuna, við erum hér til að útvíkka hana. VIð erum  eldmóðs-pökkuð,  visku-innblásin, sköpuð með ást, og blessuð með gleði. Og þannig erum við öll. Til að vera frjáls er eina sem við þurfum að gera að gera okkur sjálf móttækileg því sem er nú þegar hið innra. Raunveruleg heilun er að gefa upp mótstöðuna við hinu skilyrðislausa Sjálfi.

„Ég er það sem ég leita.“  –  Sannleikurinn er hér, innblásturinn er hér, ástin er hér, friðurinn er hér, hjálpin er hér,  vegna þess að þú ert hér. Sannleikurinn er land án vega,  og hamingjan er ferðalag án fjarlægðar.

by Robert Holden  (þýðing Jóhanna Magnúsdóttir).

IMAGINE WHATEVER YOU WANT IS HERE RIGHT NOW. WHAT DO YOU WANT?

Titillinn er að þetta segja þeir allir gúrúarnir – en mér skilst að orðið gú-rú þýði frá myrkri til ljóss. –  Kannski þurfum við ljós hið innra til að sjá þetta allt saman? –   Það eru mörg trúarbrögð og ekki trúarbrögð sem segja sama hlutinn,  það er að segja að leita inn á við.

„Himnaríki (og allt hitt) er hið innra“ –

Þá er bara að loka augunum og sjá með hjartanu.

draft_lens8964771module79056571photo_1263444833the_little_prince2

Skilur mig einhver? – námskeið, „Lausn eftir skilnað“

Við höfum flest ef ekki öll óendanlega þörf fyrir að einhver skilji það sem við erum að ganga í gegnum.  Skilji sársauka okkar, reiði, og sérstaklega ef okkur þykir að á okkur sé brotið. – 

Það eru oft tilfinningar fólks eftir skilnað,  – mikil sorg, höfnunartilfinning, skömm, reiði, trúnaðarbrestur, einmanaleiki og svona má lengi telja. 

Ef síðan makinn nær sér í annan eða aðra, bætist í tilfinningaflóruna, afbrýðisemi, og kannski hefnigirni, –  „af hverju getur hann/hún verið hamingjusöm/samur en ekki ég“ .. 

Fyrrverandi á að skilja sársaukann, skilja vanlíðanina og ef hann/eða hún gerir það ekki fara stundum bréfasendingar í gang  –  á hinn og þennan. 

Sorgin er sannarlega til staðar, sársaukinn og allar þessar ofangreindu tilfinningar.   Og það sem makann vantar er skilningur. 

Ef makinn skilur ekki, eða vill ekki dragast inn í sársauka hins,  þá verður oft reiði og stjórnsemi ofan á og þá kemur þetta „þú átt að skilja mig – no matter what“  eða  „Ef ég er ekki glöð/glaður mátt þú ekki vera það heldur“ –   „Af hverju ertu glöð/glaður með þessum/þessari en ekki með mér?“ 

Einhvers staðar hér á blogginu er hægt að finna pistilinn „Er fókusinn á fyrrverandi“ –  sem fjallar um það að meðan fókusinn er á fyrrverandi maka, þeim sem þú ert skilin/n við og hans/hennar nýja maka og hans/hennar nýja lífi þá lifir þú ekki þínu lífi og ert ekki að byggja upp þína hamingju. 

„The Blaming Game“ er allsráðandi og það þýðir að viðkomandi er föst eða fastur í bakkgír.  „Stuck in Reverse“ eins og sungið er um hjá Cold-Play. 

When you try your best, but you don’t succeed
When you get what you want, but not what you need
When you feel so tired, but you can’t sleep
Stuck in reverse

And the tears come streaming down your face
When you lose something you can’t replace
When you love someone, but it goes to waste
Could it be worse?

Lights will guide you home
And ignite your bones
And I will try to fix you

And high up above or down below
When you’re too in love to let it go
But if you never try you’ll never know
Just what you’re worth

Á námskeiðinu „Lausn eftir skilnað“ förum við í gegnum alla tilfinningaflóruna – og skoðum leiðir að bata. Ég „fixa“ enga/n en bendi á „fix“ –  Við sleppum tökum á fyrrverandi eins og það er hægt,  og yfirleitt eru lágmarkssamskipti ráðlögð, og þá aðeins ef um börn er að ræða, til að fara yfir þeirra mál. 

Það er mikilvægt að hin fráskildu gleymi heldur ekki börnunum í stundum leiðindamálum sem upp koma á milli þeirra.  Börnin verða oft stærstu fórnarlömbin í skilnaðarmálum,  ekki vegna skilnaðarins sjálfs,  heldur vegna vondra samskipta foreldra eftir skilnað. 

En hvað skiptir stærstu máli? – Jú, að einhver skilji þig,  einhver geti sett sig í þín spor,  þú skoðir hvað gerðist og hvað gerðist ekki.  Takir þína ábyrgð á skilnaðinum því það þarf undantekingalaust tvo til að skilja.  Þar er ekki um að ræða tvo vonda eða illa aðila, heldur tvo aðila sem ekki kunnu betri samskipti sín á milli en það fór sem fór. 

Það getur vel verið að annar aðilinn hafi farið alveg eftir bókinni og gert allt „rétt“ en hinn ekki.  En sama hvernig það er –  við berum ábyrgð á eigin hamingju,  það er ekki hægt að sækja hana til makans í sambandinu og ekki heldur eftir að sambandinu lýkur.   Því fyrr sem við sleppum tökunum á þessum sem við erum skilin við því fyrr skapast pláss fyrir nýjan vöxt.  

Eins og við alla sorg og við öll vonbrigði þarf að viðurkenna þau og gráta þau, fara í gegnum tilfinningarnar og ræða þær – en ekki dvelja þar að eilífu, því þetta er eins og fenjasvæði.  Ef við stoppum of lengi erum við föst.  Ekki reisa hús í dimmu feninu.  Leyfum ljósinu að lýsa okkur heim,  „Lights will guide you home“ – 

Við erum í þessu námskeiði sem öðrum í Lausninni að koma heim til okkar sjálfra,  heila okkur,  læra að við þurfum ekki hamingju frá öðrum því hún er hið innra. 

Næsta námskeið,  Lausn eftir skilnað – fyrir konur,  er áætlað 21. september kl. 9:00 – 15:00 

Lausninni,  Síðumúla 13 

Eftirfylgni er í fjögur skipti – á fimmtudögum kl. 17:15 – 19:00

Leiðbeinandi:  Jóhanna Magnúsdóttir, ráðgjafi Lausnarinnar

Verð:  29.900.-   (hægt að skipta greiðslum).  

(Ath! þær sem komu á örnámskeið – Lausn eftir skilnað fá það gjald frádregið). 

Hámark 10 konur í hóp.  

Umsagnir um námskeiðið Lausn eftir skilnað.

 

skilnadur-500x248

 

 

„Í september 2012 stóð ég frammi fyrir þeirri ákvörðun að skilja við manninn minn eftir 14 ára samband.  Allt í einu var ég orðin einstæð þriggja barna móðir og fannst ég alein. Vinkona mín benti mér þá á Lausnina og þar fékk ég upplýsingar um að innan skamms hæfist námskeið fyrir konur sem stæðu í sömu sporum og ég. Ég var niðurbrotin og ringluð og fannst ég virkilega þurfa að byggja mig upp. Þess vegna ákvað ég að skrá mig á þetta námskeið og sé sko alls ekki eftir því. Leiðbeinandinn á námskeiðinu, miðlaði af sinni reynslu og hvatti okkur endalaust áfram. Hún fékk mig til þess að horfa öðruvísi á hlutina og gaf mér von um að það væri betra líf handan við hornið ég þyrfti bara að trúa því sjálf. Á námskeiðinu kynntist ég frábærum konum og eftir að námskeiðinu lauk héldum við sjálfar áfram að hittast og hittumst einu sinni í mánuði. Þetta veitir mér mikinn stuðning og það er gott að finna að maður stendur ekki einn. Mér finnst þetta námskeið hafa hjálpað mér mjög mikið á þessum erfiðu tímamótum í lífi mínu og ég stend tvímælalaust uppi sem sterkari kona. Ég hvet því alla sem eru að ganga í gegnum skilnað eða hafa gengið í gegnum skilnað að fara á þetta námskeið vegna þess að mun hjálpa ykkur að komast yfir þennan erfiða kafla í lífi ykkar.“

 35 ára kona
 
—————————————————————————————

„Mesta áfall í lífi mínu var að skilja. Mér fannst mér hafa mistekist, þetta var ekki ætlunin, ég var uppfull af sorg og skömm og föst þar. Ég hafði engar aðferðir og engin tæki til að vinna úr þessu áfalli. Á námskeiðinu Lausn eftir skilnað með Jóhönnu Magnúsdóttur kom léttirinn, því ég var ekki ein og til var leið til úrvinnslu. Lausn eftir skilnað er réttnefni námskeiðsins, það var mér ómetanlegt á leið minni til betra lífs.“

44 ára kona 

SKRÁNING OPNAR Á VEF LAUSNARINNAR Í NÆSTU VIKU. 

ath! – Þetta námskeið er ætlað konum,  en við höfum verið með námskeiðið fyrir karla og voru þeir mjög sáttir.  Ég skora á karla að hafa samband ef þeir hafa áhuga á svona námskeiði og ég mun setja upp námskeið! – 

Nánari upplýsingar hjá johanna@lausnin.is