Þegar ég var barn og unglingur skrifuðum við í minningabækur hjá hvort öðru. Kannski var þetta meira svona stelpu-eitthvað, en ég man það ekki alveg. (Þetta verður alveg „þegar amma var ung“ pistill ;-))
Mundu mig, ég man þig. –
Lifðu lengi, en ekki í fatahengi.
Lifðu í lukku, en ekki í krukku.
Svo var þetta það sem stóra systir skrifaði og ég hermdi eftir:
Ef bóndinn er súr á svipinn, og samlyndið ekki gott, berðu hann þá með kökukefli og komdu þér á brott.
Sei, sei… kannski ekki alveg til eftirbreytni.
Kannski er ég að gleyma einhverju, en þetta tvennt um að lifa hvorki í fatahengi né krukku er góð speki. Koma sér út úr skápnum, upp úr krukkunni, út fyrir rammann!