Fyrir nokkrum árum las ég bók sem heitir „Women, Food and God, eftir Geneen Roth, – og undirtitill er „an unexpected path to almost everything“ ..
Þessi bók breytti viðhorfi mínu og losaði mig undan því sem kalla má „þráhyggjumegrun“ ..
Á sama hátt og við lærum að umgangast mat lærum við að umgangast lífið. – Með því að njóta og það sem er aðalatriðið að umgangast mat með meðvitund. „Awareness“ – Taka eftir því hvað við erum að setja upp í okkur og íhuga „af hverju?“
– Er það vegna hungurs, vana eða vanliðunar kannski? –
Eftir að ég losnaði undan þessu þunga fargi „þráhyggjumegrunar“ – stóð vigtin mín í stað og ég hætti reyndar að vigta mig því ég passaði í fötin mín og pældi ekkert í þessu. Vigtin var bara truflandi. Það var ekki þetta „jójó“ sem hafði verið áður, þar sem ég fór í átak, lifði á fræum og baunum og grenntist og þyngdist svo aftur.
Mitt át hefur oft verið í hálfgerðu meðvitundarleysi, – ég er búin að stinga upp í mig kexi eða einhverju án þess að vera viðstödd í raun. – Síðan hef ég borðað of mikið, tekið of stóra skammta því ég er að reyna að fylla upp í tilfinningalegt tóm, en að sjálfsögðu verðum við aldrei södd af því.
Það er hægt að fara að lifa með meðvitund, læra að elska sjálfa/n sig nógu mikið til að vilja að líkaminn sé í því kjörástandi sem honum er hollast. Að ekki sé of mikil vigt á hnjánum, of mikið álag á bakið vegna þungs maga o.s.frv. –
Ég varð fyrir gríðarlegu andlegu áfalli í janúar þegar ég missti dóttur mína, – og ég uppgötvaði bara nýlega að ég var gjörsamlega búin að tína farveginum, þessum farvegi meðvitundar sem ég hafði áður verið á. Það er ekki skrítið, – en það sem er að hjálpa mér núna að komast upp á hann aftur, er sú mikla sjálfsvinna sem ég hef stundað og að vakna á ný að ég þurfi að láta mér þykja vænt um sjálfa mig til að ofbjóða ekki sjálfri mér og líkama mínum með óhollustu og ofgnótt.
Hluti af því að komast aftur á góða farveginn er breyting á viðhorfi, breyting á fókus. Ég er þakklát fyrir breyttan fókus og er nú þegar farin að vera minn eiginn áhorfandi, veita sjálfri mér athygli, og líður svo miklu, miklu betur með það.
Athygli er yfirleitt það sem við sækjumst eftir hjá öðrum en gleymum að sækja til okkar sjálfra.
Til að koma mér upp á „meðalveginn“ á ný skrifa ég niður allt sem ég borða og deili því með einum aðila. – Það er um leið „heiðarleikapróf“ – Um leið og ég veit að ég geri það, veiti ég því athygli þegar „úps“ ég er búin að stinga upp í mig kexkökum eða Prins Póló eða hvað sem það er.
Það þarf ekki að bíða eftir sáttinni, en sátt er ástand sem við flest viljum vera í. Um leið og við höfum tekið ákvörðun erum við farin að lifa í sátt. Um leið og við breytum viðhorfinu.
Athygli er skemmtilegt orð, en við förum að veita okkur athygli. Athygli er komið af því að athuga eða huga að. Okkur verður umhugað um okkur sjálf, umhugað um heilsu okkar.
Aldrei fara að huga að okkur á röngum forsendum, þ.e.a.s. að við séum einungis að borða minna eða vinna í heilsu okkar vegna utanaðkomandi áhrifa, heldur einmitt vegna þess að okkur er umhugað um okkur.
Við erum gjörn á að dæma fólk fyrir alls konar ofneyslu, kaupæði, áfengisnotkun, framhjáhald, en margt sem við gerum þegar við hugum ekki að heilsunni og mataræðinu þá erum við að ofneyta, og eiginlega halda framhjá sjálfum okkur.
Verum góð .. við okkur sjálf. Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum.
Ef þú værir umhverfisverndarsinni og elskaðir heiminn byðir þú honum ekki upp á margt af því sem þú býðir sjálfum/sjálfri þér uppá er það?
Þú ert þinn eigin heimur. Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum.
Ég ætla ekki að skrifa nánar um þetta hér, en þar sem ég er komin sjálf í farveginn minn aftur býð ég öðrum upp á aðstoð/námskeið. Nota þekkingu mína, menntun og reynslu til að styðja. Það má lesa nánar um það á facebook síðunni „Í kjörþyngd með kærleika“ og á síðunni sem heldur utan um samnefnd námskeið: http://elskamig.wordpress.com/
– Hafið samband 😉 ..