Það er ekki langt að fara til Reykhóla – Hugvekja flutt í léttmessu á Reykhóladögm.

Sól inni, sól úti, sól í hjarta, sól í sinni.

Og Gleði, Gleði, Gleði … allur pakkinn bara.

Hug-vekja er það sem ég er komin til að flytja í dag,  og þar sem ég á það til að taka hlutina mjög bókstaflega,  þá er það það sem markmiðið mitt er með því með því að tala hér í dag,  það er að vekja hugann.  En mig langar að bæta um betur og vekja ekki aðeins hugann,  heldur líka uppáhaldið mitt og það er hjartað.

Kannski er ég bara að vekja mitt eigið hjarta með að tala svona beint út frá því og vonandi um leið ykkar hjörtu. –

Ég lagði af stað frá Húsi andanna á föstudagseftirmiðdag,  en það kalla ég litla húsið mitt á Framnesveginum sem er statt í bæjarhluta hinna „Lattelepjandi lopatrefla“ eins og sumir kalla 101 Reykjavík.

Ferðinni var heitið á Hvanneyri þar sem fjarbúðarmakinn minn býr ásamt tveimur heimasætum og einum hundi,  en á leiðinni keypti ég tvær ljósaperur skv. fyrirskipun bóndans því bæði framljósin tóku upp á því að gefa upp öndina nokkurn veginn samtímis og hef ég ekki lent í eins miklu blikki síðan ég var sautján ára!

Þegar komið var á Hvanneyri greip bóndinn perurnar og fór með perurnar út, en ég skellti mér bara í sófann hjá eldri heimasætunni að horfa á Ellen.  Einhvern tíma tók þetta,  enda veit ég að það þarf að taka framhjólin undan til að skipta um þessar perur  og þá fór ég út og sá þá að bíllinn var kominn á tjakkinn hjá nágrannanum á móti,  og ég fór yfir til að fylgjast með.   Þessi nágranni hefur oftar en ekki reynst hjálplegar í hinum ólíkustu aðstæðum,  og þegar ég fór að ræða þetta við bóndann,  rifjaði hann það upp með mér að fólk væri bara svona á svæðinu! –  Já,  það er rétt,  það eru einhvern veginn allir að rétta hvorum öðrum hjálparhönd.   Það er okkar upplifun af Borgarfirðinum – og Skorradal.

Um kvöldið, eftir grill og „chill“ – í Skorradalnum,   rúllaði konan á bílnum með nýju ljósunum upp í Munaðarnes til systra sinna og átti með þeim gott kvöld.  –  Gerðum sólarhyllingu úti á palli,  enda erum við þakklátar sólinni sem biður aldrei um neitt,  og skín á okkur án þess að ætlast til nokkurs í staðinn.

Sólin biður ekki um endurgjald fyrir geisla sína.

En hvert erum við komin? – Enn í Munaðarnesi – eigum við ekki að drífa okkur til Reykhóla?   Jú,  – ég lagði af stað frá Huldukoti, sumarbústað samnefndrar Huldu systur nákvæmlega 12:07  (en ég ákvað að taka tímann því ég hélt þetta yrði svo svaaaakalega langt).

Veðrið var náttúrulega bara dásemd, og ég fékk fiðring í ljósmyndafingurinn,  en það er fingurinn sem ég nota á símann minn til að taka myndir,  og fyrsta stopp var í Grábrókarhrauni við afleggjarann að sumarbústað stórfjölskyldunnar og þar tók ég mynd og smellti beina leið inn á fésbókina – með yfirskriftinni „On my way“ – en hefði kannski átt að bæta við nánari upplýsingum – eða „to Smokey Hills“ – 😉

Það fór ekki á milli mála að hátíð var í gangi í Reykhólasveitinni því að þegar ég fór að nálgast sá ég plastaðar heyrúllur skreyttar rauðum hjörtum.  –   Reyndar hafði ég rekist á algjörlega náttúrulega hjartamynd fyrr á ferðalaginu,  þar sem ég sá hjartalagaða snjódyngju í einu fjallinu.   Ég ákvað að það væri „merki“ til mín.

Það er nefnilega svo gaman að fara að „vakna“ þ.e.a.s. að horfa í kringum sig og sjá allt það fallega.  Sjá skýin,  sjá fjöllin og himininn.  Það er hægt að keyra allan hringinn í kringum Ísland án þess að sjá nokkurn skapaðan hlut! –

Í fyrirlestrunum mínum hef ég verið að sýna fram á þennan mun og mikilvægi að njóta þess sem við erum að gera.  Ef við erum t.d. að borða,  þá eigum við helst að njóta þess að borða.  Ekki borða marengstertuna með skömm og samviskubiti.  –

Taka einn bita – segja svo: „ég ætti ekki að vera að þessu“ – taka annan bita – „oh nú verð ég alltof feit“ –  taka þriðja bitann – „æ sykur fer svo illa í mig.“  ..

Fyrir utan að þetta er hundleiðinlegt,  þá er óhollt að vera með samviskubit.  Svo annað hvort er að gera og njóta eða sleppa því alveg! –   Já,  líka að keyra hringinn!

En ég var sem betur fer ekki að keyra hringinn, ég var að keyra til Reykhóla og svo var ég bara komin! – Á slaginu 13:45.  Það er sko ekki langt að fara til Reykhóla! 😉

Það fer auðvitað allt eftir á hvernig það er litið.  Það er t.d. lengra að keyra hringinn,  það er lengra að keyra frá Reykjavík til Egilsstaða, svo það er bara stutt svona „miðað við“ ýmislegt annað.   Svo er það bara stutt þegar það er svona gaman á leiðinni,  verið að hlusta á hugvekjudisk og semja hugvekju á leiðinni! ..   Það er stutt þegar þú ákveður að njóta ferðarinnar í staðinn fyrir að væla og kvarta yfir hversu langt þetta er.

Það er þetta með blessað viðhorfið og valið.  Neikvætt viðhorf er ein mesta fötlun mannlegrar tilveru.  Það er svo miklu, miklu betra að gera alltaf það besta úr aðstæðum hverju sinni.  Sætta sig við það sem er og vinna út frá því svo við fáum nýjan vöxt.

Á leiðinni hugsaði ég nefnilega líka svolítið um fyrirgefninguna –  þessa gjöf sem við gefum sjálfum okkur til að sleppa fólki og til að sleppa undan aðstæðum sem okkur líkar illa.   Að fyrirgefa þýðir ekki að við samþykkjum einhverja gjörð,  við bara sleppum henni því við getum engu breytt svona aftur í tímann.

Gleði, gleði, gleði og sagði ég ekki áðan að við værum komin til Reykhóla?  Þar er fjólubláa hverfið með Tinky Winky og appelsínugula hverfið með alls konar appelsínugulu dóti og sveitin fyrir utan er rauða hverfið meðal annars með hjartaskreyttum heyrúllum eins og áður hefur komið fram.

Heimafólk hefur virkilega lagt sig fram við undirbúning, keppt er í alls konar greinum og ég mæti Elínu vinkonu minni og presti staðarins þar sem dráttarvélafimin er að fara í gang.  Það skal tekið fram að dráttarvélar eru ekki að keppa,  heldur fólk á dráttarvélum.

Við fengum okkur göngu um svæðið og fljótlega varð ég  vör við að ég var ekki aðeins komin til Smokey Hills eða Reykhóla,  heldur til Beverly Hills því að búið var að strengja borða yfir eina götuna með númerinu 90210 eða „nænótúvonó“  sem er tákn fyrir samnefnda sjónvarpsþætti.

Gleði, gleði, gleði – það er gleði að hoppa í hoppukastala, það er gleði að keppa í baggakasti og gleði að skreyta hús og götur í alls konar litum.

En stundum dugar ekkert svona,  stundum ertu bara í fýlu í hoppukastala og litirnir gleðja ekki tilveru þína.  Af hverju er það?

Ef þú kreystir appelsínu færðu ekki út bláberjasaft,  svo við notum nú litina í hverfunum á Reykhólum!

Ef þú kreystir appelsínu færðu út appelsínusafa.

Það skiptir máli hvað við höfum hið innra.  Erum við með gleði hið innra,  eða erum við kannski bara reið eða sorgmædd? –   Kannski full af gremju, eða hefnigirni vegna þess að við höfum ekki náð að sleppa tökunum á einhverju? –

Hver manneskja, svona nokkurn veginn komin á aldur,  segjum bara 18 ára aldurstakmark eins og var á dinnernum og ballinu í íþróttahúsinu í gærkvöldi,  hver svona manneskja ber ábyrgð á sinni gleði.    Það er hægt að skemmta sér eða láta skemmta sér.   Reyndar minntist veislustjórinn á kvöldskemmtuninni í gær á það að honum finndist fólkið á Reykhólum tilbúið til að skemmta sér en væri ekki í þessum „skemmtu mér“ gír.  Gaman að hann skildi taka það fram.

Viðhorfið okkar skiptir máli, – við þurfum stundum að „rísa yfir“ leiðindin og sjá í gegnum fingur okkar.   Stilla fókusinn á það sem er jákvætt og af hinu neikvæða.  Stilla fókusinn á það sem við höfum en ekki það sem okkur vantar.  Stilla fókusinn á það sem við viljum en ekki það sem við viljum ekki.

Viðhorf – fókus,  það er nokkurn veginn það sama.  Það er hvernig við horfum,  með jákvæðni og uppbyggingu í huga eða með neikvæðni og niðurbroti.   Hugsum aðeins út í það.

Það vilja fæstir fá á sig stimpilinn „fúll á móti“ – vera sá eða sú sem sér hindranir í öllum sköpuðum hlutum.   Á prestsetrinu sá ég blað með biskupnum okkar á forsíðunni,  reyndar var það hið feykivinsæla tímarit „Fréttabréf Biblíufélagins“ og þar stendur:  „Sá getur allt sem trúir“.. er það ekki bara?

Auðvitað skiptir máli á hvað þessi aðili trúir.

Sum okkar hafa tamið sér að trúa á óttann.  Þau óttast alla skapaða hluti.  Önnur trúa á efann og eru í sífellu að sá efasemdarfræjum,  það er auðvitað eins og þessi neikvæði einstaklingu sem sér hindranirnar.

En það var víst hann Henry Ford sem sagði: „Hvort sem þú trúir því að þú getir það eða getir það ekki hefur þú rétt fyrir þér.“ –   Þegar við setjum okkur markmið þá er svo mikilvægt að trúa því að það gangi upp.   Það þýðir ekki að við þurfum eitthvað að rembast,  heldur akkúrat öfugt.  Við tökum ákvörðun og förum af stað að vinna í því sem okkur langar,  ekki í örvæntingu eða einhverjum látum,  heldur bara af yfirvegun og LEYFUM hlutunum að koma til okkar,  því þegar við treystum og gerum hlutina af öryggi þá er mun líklegra að þeir gangi vel,  heldur en þegar við erum í vafa eða vantrausti og förum að vera okkar eigin hindrun.

Þetta er pinku „djúpt“ – en einfaldasta leiðin til að útskýra þetta er að sjá lífsfarveginn okkar sem blómabeð.  Með ákvörðunum okkar sáum við fræum og við ræktum beðið okkar og hugsum um það.  En við verðum að treysta Guði sem elskar okkur skilyrðislaust,  bara svona eins og sólin,  til að sjá um vöxtinn og treysta því að upp úr jörðinni spretti blóm og jafnvel tré.   Ef við erum óþolinmóð förum við auðvitað að krafsa í jörðina og kíkja í beðin og kannski skemma fyrir.

Gleði, gleði, gleði og enn erum við á Reykhólum og stödd í kirkjunni á þessum fallega sumardegi.

Það þurfti að taka hjólin af Hondunni minni til að setja í ljósin perurnar.   Ég held að það sé ekki svo djúpt í „perurnar“ okkar,  og ekki svo flókið að vekja okkur,  hver og ein og hver og einn þarf í raun að kveikja á sinni peru,  þó stundum þurfi góðan „nágranna“ til að aðstoða.

Við getum kallað það að vakna – eða að kveikja á perunni þegar við erum að átta okkur, eða verða meðvitaðri.  Þegar við förum að taka eftir,  taka eftir okkur sjálfum og veita okkur athygli.  Þegar við förum að sjá það sem við eigum ÖLL innra með okkur,  en lokum sum hver á það.   Þegar við lokum á það er eins og það sé slökkt á því og því náum við alls ekki að skína eða finna það sem við eigum hið innra.

Við eigum ÖLL, hvert og eitt okkar,  GLEÐI, ÁST og FRIÐ  –  en til að njóta lífsins út í ystu æsar þurfum einmitt að eiga þetta.

Þetta er mikilvægasta eign okkar fyrir utan andardráttinn sem Guð gaf.

Við Íslendingar höfum svo sannarlega kynnst því að það er ekki alltaf sól úti.   Við höfum enga stjórn á hinni ytri sól,  en við getum valið að taka sólina inn í hjartað og við getum valið að hleypa sólinni í hugann.

Gleði, gleði, gleði ..

Gleði er valkostur

Hvort sem við erum í kirkju eða hoppukastala – njótum lífsins.

Sól úti, sól inni, sól í hjarta, sól í sinni, sól bara sól.

995746_10201078032966742_569294661_n

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s