„Hver heldurðu eiginlega að þú sért? – Heldur þú að þú sért nafli alheimsins?“
Eeeee…
Hver og ein manneskja getur aldrei upplifað veröldina öðru vísi en að hún sé í miðjunni. – Þess vegna er það ekkert til að skammast sín fyrir að segjast vera nafli alheimsins (síns).
Við erum aldrei nafli náunga okkar. 😉
Munurinn á okkur og Guði – er að Guð er nafli alheimsins og í sérhverjum nafla. – Getur fundið allar tilfinningar, skilið okkar sjónarhorn. Fundið okkar sorg, gleði og skilur allt.
Guð er kærleikur.
Þegar við hleypum inn kærleikanum förum við að sjá hlutina út frá því ljósi.
Með „augum“ kærleikans og við förum að upplifa máttinn sem því fylgir.
Þvi fylgir líka frelsi. Frelsi frá illu, frelsi frá dómhörku, frelsi frá illu umtali, frelsi frá ótta og hatri.
Flestallt ofbeldi er unnið út frá ótta, ótta við að missa, ótta að hafa ekki stjórn, og óttinn blindar augun og hjartað fyrir kærleikanum.
Þess vegna þarf hver og ein manneskja að hreinsa út sinn ótta og hleypa enn meira kærleika að.
Í móðurlífinu þiggjum við næringu í gegnum naflastrenginn, góða næringu sem lætur okkur þroskast og þegar við erum tilbúin þá fæðumst við inn í heiminn. Förum úr verndandi móðurlífi móðurinnar inn í jarðneska tilveru þar sem okkur mæta endalaus verkefni og áskoranir.
Móðurlífið er okkar micro cosmos, eða smá heimur, heimurinn er okkar macro cosmos eða alheimur. Þar höldum við áfram að þiggja næringu – þó á annan hátt sé, en við getum alltaf – þegar við leyfum það – skynjað okkur í móðurlífi heimsins. Þar sem ríkir ekkert annað en kærleikur og gleði. Ef við upplifum annað erum viið týnd og höfum horfið frá móðurlífinu, erum stödd einhvers staðar fjarri okkur sjálfum.
Móðurlífið hefur aðdráttarafl því að kærleikurinn hefur aðdráttarafl. Öll mótstaða okkar heldur okkur frá þessu móðurlífi. – Líka mótstaða við erifðum tilfinningum. – Þegar við finnum sorg þá megum við ekki setja upp mótstöðu við sorginni, heldur taka á móti henni með kærleika og gráta – og þegar við höfum fengið þessa útrás þá finnum við að við erum hugguð í þessu móðurlífi.
Ef við aftur á móti berjumst á móti tilfiningunum – hleypum þeim ekki út, förum við lengra og lengra frá móðurlífinu. – Förum frá staðnum og fjarlægjumst okkar eigin nafla.
Svo stöndum við ofboðslega týnd í henni veröld og spyrjum: „hvað vil ég? – hvað er ég? – Er ég farin að lifa eftir öðrum nöflum? – Þeirra sjónarhorni, en ekki mínu eigin? –
Af hverju get ég ekki fylgt mínu innsæi – eða „útsæi?“ – er það kannski vegna þess að ég er á skökkum stað í tilverunni? –
Kannski má ég bara fara að trúa því að ég sé nafli alheimsins, því ég get ekki skynjað veröldina rétt út frá nafla annarra. –
Ef okkur ætlar að líða vel í þessum heimi, þurfum við að fara að skilja að tilgangur lífsins er ekki þjáning, þó oft þurfi þjáningu til að skilja hann, – tilgangur lífsins er að uppgötva kærleikann og gleðina, tilgangur lífsins er þakklæti.
Það er mikil ábyrgð sem fylgir því að vera nafli alheimsins, ábyrgð á sjálfum sér, það er ekki hægt að kenna neinum öðrum um, ekki aðstæðum, ekki fólki og ekki veðrinu.
Þegar við stöndum upp eftir naflaskoðun þá skiljum við þetta:
Kærleikurinn er krafturinn sem færir okkur bata og breytingar.
Hættum að leika guði í lífi annarra – taka fram fyrir hendurnar á almættinu, ef svo má að orði komast. – Skyggjum ekki á þeirra eigin nafla, svo það fólk geti fengið að skynja heiminn á sinn hátt. Segjum þeim ekki hvernig lifið lítur út frá þeirra nafla.
Hvað sem á gengur í lífinu, þá er farvegurinn okkar aftur heim í móðurlífið – heim í kærleikann, gleðina og friðinn. Það koma stormar sem hrinda okkur út úr þessum unaðsstað, en í staðinn fyrir að horfa frá honum þar sem eymdin liggur – þá tökum við ákvörðun að komast aftur heim.
Með ákvörðuninni er batinn hafinn. Þá hættum við að vera fórnarlömb aðstæðna eða annars fólks.
Þegar við tökum ákvörðun, – segjum „já takk“ – ég vil elska, gleðjast og þakka – og taka á móti því góða sem lífið gefur, þá þurfum við að hvíla í trausti þeirrar ákvörðunar, en ekki fara að finna alls konar hindranir í eigin huga um að það sem við höfum ákveðið muni ekki ganga upp. – Ekki fara að leita að ástæðum, fólki og aðstæðum, – afsökunum fyrir að stöðva ákvörðunina. Leyfum henni að verða, vegna þess að hún kemur okkur heim til okkar.
„Let it be“ .
FRABR GREIN,OG SVO SATT,TAKK:)