Ég fór og verslaði í matinn sl. föstudag, fyrir „kertaljósakvöldverð“ sem ég var með í bígerð, en ég hafði boðið nokkrum vinkonum – svona „blandi í poka.“ –
Vala mín var að fara í flug svo ég var að passa hann Simba hennar og hann var s.s. með mér í bílnum. Mér fannst ég orðin ansi sein, en ég átti von á dömunum um kl. 19:00 og fór að stressast.
Simbi (sem er pinku spes hundur) var alveg að fara að gera mig stressaða – og ég ætlaði að fara að pirrast á vælinu í honum, snöggu geltinu og svo prumpaði hann í þokkabót. En svo fór ég að hlæja – því ég fattaði að ég væri pirruð vegna þess að ég var sjálf stressuð en það hafði minnst með hann að gera. Hann er alltaf eins.
Þegar ég kom heim úr verslunarleiðangrinum datt þetta ljóð upp úr mér:
Föstudagsljóð í skeytastíl
Simbi prumpar í bílnum
geltir líka
elska hann samt
því ég er svo stútfull
af kærleika
eftir að ég uppgötvaði
hina jákvæðu orku lífsins
máttinn og dýrðina
❤ LOVE ❤
Svo þó að einhver prumpi
og þó að einhver gelti
hundur, maður eða kona
elskaðu þau samt
því það hefur ekkert
með þig að gera
það er bara einhver hundur í þeim
🙂
Mér þótti þetta svo fyndið, svo ég bætti við athugasemd að „heimskur hlær að sjálfs síns fyndni“ – sem einhver fúll á móti hefur líklegast fundið upp – er það ekki bara?
En hvað um það, kertaljósakvöldverðurinn tókst afburða vel – við sátum, snæddum, spjölluðum og sötruðum áfenga sem óáfenga drykki fram yfir miðnætti – og hvað eru mörg s í því?
En aftur hvað um það, næst þegar fólk er að abbast upp á ykkur þá spyrjið það bara: „Er einhver hundur í þér?“ . 😉 ..
Svo fókusar kona bara á skemmtilega hluti og yndislegt fólk.
Já – gott að setja inn eitthvað svona létt líka!
🙂