Í bata er best að lifa
og þegar ég kem auga á sársauka minn
tek ég ákvörðun um að breyta um farveg
kveð sárin sem urðu til við rangar hugsanir
vegna þess að ég hef lært að ég er verðmæt
grímulaus og allslaus fyrir Guði og mönnum
og ég á allt gott skilið, eins og við öll
ég reisi mér ekki tjaldbúðir í sorginni
ekki frekar en skömminni
sleppi íþyngjandi lóðum höfnunar og hefndar
því ég hef frelsað sjálfa mig
og þá þarf ég ekki að spyrna frá botni
heldur flýg af stað sem fis
inn í nýja og betri tíma
þar sem óttinn fær engu stjórnað
hugrekkið heldur mér á lofti
hjarta mitt er heilt og sátt
ég fyrirgef vegna mín
sleppi tökum á fortíð og fólki
og leyfi því að koma sem koma skal
set ekki upp hindranir og farartálma
og kvíði engu
heldur brosi breiðu brosi eftirvæntingar
við vissum ekki betur
kunnum ekki betur
kærleikurinn kemur og kyssir á bágtið
þakklætið þerrar tárin
Gleðin valhoppar í kringum mig
bíður spennt og segir í sífellu:
„komdu út að leika“ 🙂
Mér er frjálst að elska
og þess meira sem ég elska
vex kærleikurinn til lífsins
ég kallaði áður „elskaðu mig!“
en nú þarf ég ekki að betla
bara elska
það er nóg
ég hef nóg
ég er nóg
FALLEGT,TAKK:)