Ég sat andspænis ungri frænku sem var að hefja sitt annað ár í skólagöngu. Hún stynur stundarhátt „mig langar að vera með sítt hár þegar ég byrja í skólanum á morgun“ – en hár hennar var í nokkurs konar Prins Valiant stíl klippt rétt fyrir neðan eyrun. –
Ég svaraði henni að líklegast yrði hún að bíða eitt ár með það, að byrja á nýju skólaári með sítt hár, en nú skyldi hún bara leyfa hárinu að vaxa og sjá hvað gerðist.
Við vitum að hár þarf tíma til að vaxa, og við vitum að margir hlutir gerast nákvæmlega svona. Þeir þurfa sinn tíma til að þróast og verða til. En við verðum líka að gefa þeim „séns“ til að vaxa og ekki alltaf klippa aftur þó við verðum óþolinmóð og síddin sé einhvers konar millisídd sem er hvorki fugl né fiskur.
Um leið og ákvörðun er tekin að leyfa einhverju að vaxa er niðurstaðan komin, en hún kemur ekki á morgun. –
Þetta er svipað og með að ákveða að taka af sér kíló, þau fara ekki af með barbabrellu, – eða að fara að spara peninga, bankabókin er ekki orðin feit á morgun. – En ef við erum ákveðin, trúum á vöxinn eða framkvæmdina þá er ekkert sem stöðvar það, nema e.t.v. ein góð manneskja sem við þekkjum mjög vel, og það erum við sjálf.
Leyfum góðum hlutum að gerast og leyfum lífinu aðeins að hafa hönd í bagga, Það snýst um lögmál þess að leyfa, eða Law of allowance. Gæti verið að þar kæmi líka lögmálið um að eiga skilið, – það er líka til.
Trúum á árangur, og trúum líka á ævintýri. –
🙂