Ég vil dvelja á stað þar sem umvefur mig hrein jákvæð orka, og ef ég hugsa það innar, þá vil ég VERA hrein jákvæð orka.
Ef ég er hrein jákvæð orka, tek ég ekki á móti neikvæðri orku, hún nær engri tengingu og svona skoppar af mér eins og vatn ef ég væri smurð með olíu. –
Auðvitað íhuga ég lífið og auðvitað íhuga ég dauðann, eftir þjáningar þær sem ég er búin að fara í gegnum síðastliðið ár. Dauðinn bankaði snemma á dyrnar hjá mér, en það gerðist þegar pabbi lést 1969 og ég aðeins tæplega 7 ára gömul. –
Dauðinn er jafn sjálfsagður og lífið en voða lítið ræddur í raun. Það mætti kannski ræða hann meira – ekki undir formerkjum þess að vera hrædd við dauðann, eða óttast komu hans, heldur til að skilja hann og samþykkja að hann er einmitt hluti lífsins.
Okkur finnst það óréttlátt og hrikalega ósanngjarnt þegar ungt fólk deyr. Það er ósanngjarnt og ömurlegt einhvern veginn. Að ung börn fái ekki að lifa með móður – með föður, sjái þau aldrei aftur í lifanda lífi.
Það má þó segja að það séu til aðrir vondir hlutir sem eru ekki beinlínis dauði, en það er þegar foreldrar – lifandi foreldrar – hafna börnum sínum, eða börn foreldrum. Hvers konar „dauði“ er það annars ekki?
Þegar skaðinn er skeður, þegar dauðinn er hið raunverulega sem við verðum að horfast í augu við. Þegar mamma, pabbi, dóttir, sonur, bróðir, systir, frænka, frændi, vinur, vinkona eru farin, þá hvað?
„Minning þín er ljós í lífi okkar“ er algengasta áritun á legsteina í dag, það þekki ég því ég seldi legsteina í tæp tvö ár. –
Og minning minna nánustu sem farin eru úr þessari jarðvist er svo sannarlega ljós í lífi mínu.
Það er mikið að missa bæði dóttur og móður á sama ári. Það hljómar eiginlega óbærilegt – og það er það, en samt, já samt kemst ég einhvern veginn áfram.
„When going through hell keep going“ – heyrði ég um daginn.
Ég held áfram, vegna þess að ég fæ enn fleiri minningar og enn meira ljós til að styrkja mig.
Ég fæ ljós frá minningum hinna dánu, og ég fæ ljós frá hinum lifandi. Aldrei hef ég fengið eins mikla elsku og væntumþykju eins og núna síðustu ár, og þið þarna úti eruð að styrkja mig í því að hreinsa út neikvæða orku og ég vil lifa og ég vil gleðjast og ég vil vera hrein jákvæð orka, því lífið er orka og við sogum til okkar neikvætt og við sogum til okkar jákvætt.
Þegar fólk fer á fínustu skemmtistaðina þá eru sumir sem fá V.I.P. passa, en V.I.P. þýðir Very – Important – Person.
Í mínu lífi hafa verið mjög mikilvægar persónur, – og þær eru að sjálfsögðu í lífi okkar allra. Nokkrar af mínum V.I.P. eru farnar og ég varð fúl, sár og reið að þær væru farnar, – þá stærsta stjarnan mín hún Eva Lind, sem var tekin svona fram fyrir röðina og fór á undan.
Það gat engan órað fyrir því að svona skyldi fara, en það getur engan órað fyrir því að ungt fólk fari – börn á undan foreldrum sínum, en samt er það alltaf að gerast. Ég er ekki eina móðirin sem hefur misst barnið sitt, – þó að á þeim tímapunkti sem það gerðist liði mér þannig.
En ég VIL lifa og ég vil gleðjast, ég vil njóta þess og þeirra sem eru í þessari jarðvist. Ég vil vera þeim hrein jákvæð orka um leið og sjálfri mér.
Aðeins út frá styrkleika mínum og mínu ljósi get ég gefið styrk og get ég gefið ljós – og ég get vísað veginn eins og viti. Ég dreg engan áfram, því engin/n vill vera dregin/n. – Allir vilja geta gengið á eigin jákvæðu orku.
Í gærkvöldi setti ég kómískan status á facebook: „Ef ég fæ 10 like tek ég tappann úr rauðvínsflösku“ – ég er, í þessum skrifuðu orðum, komin með 105 „likes“ .. – Þetta var skemmtilegur leikur og vissulega var tappinn tekinn úr – og svo kom systir yfir og hjálpaði til, en ég naut í raun mun betur þess að hlæja að öllum „like“ og vinarþelinu sem þeim fylgdu, heldur en áhrifa vínsins.
(ég tek það sérstaklega fram að ég er ekki að hvetja til drykkju áfengra drykkju, og held fast við það að vatnið sé drykkur drykkjanna).
En eníhú – svo ég fari nú að setja botn í þennan pistil – þá poppaði ítrekað upp í höfuð mér setning úr bók bókanna, sem er B.I.B.L.Í.A. – en þessi orð eru úr bók hennar sem kallast „Prédikarinn“ .. reyndar ætla ég að setja allan kaflann hér með því mér finnst hann passa vel við það sem ég er að skrifa:
1Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.
2Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma,
að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp hið gróðursetta hefur sinn tíma,
3að deyða hefur sinn tíma og að lækna hefur sinn tíma,
að rífa niður hefur sinn tíma og að byggja upp hefur sinn tíma,
4að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma,
að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma,
5að kasta steinum hefur sinn tíma og að tína saman steina hefur sinn tíma,
að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma,
6að leita hefur sinn tíma og að týna hefur sinn tíma,
að geyma hefur sinn tíma og að fleygja hefur sinn tíma,
7að rífa sundur hefur sinn tíma og að sauma saman hefur sinn tíma,
að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma,
8að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma,
stríð hefur sinn tíma og friður hefur sinn tíma.
9Hvaða gagn hefur verkamaðurinn af öllu striti sínu?
10Ég virti fyrir mér þá þraut sem Guð hefur fengið mönnunum að þreyta sig á. 11Allt hefur hann gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra en maðurinn fær ekki skilið að fullu það verk sem Guð vinnur. 12Ég sá að ekkert hugnast þeim betur en að vera glaðir og njóta lífsins meðan það endist. 13En að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.
ETUM – DREKKUM OG VERUM GLÖÐ, ÞVÍ ÞAÐ ER GUÐS GJÖF.
(feitletranir eru mínar).
🙂
Frábær pistill Jóhanna. Þú ert dásamleg,guð gefi þér styrk í sorginni .