„Það sem þú veitir athygli vex“
„Ekki byggja á rusli fortíðar“
Þetta eru setningar sem ég nota sjálf.
En lífið er fullt af þversögnum, – og hvor er réttari fullyrðingin: „Oft má satt kyrrt liggja“ – eða „Sannleikurinn er sagna bestur“ .. ?
Er ekki bara „bæði betra“ eins og börnin segja? –
Þarf ekki að að skoða í hvaða samhengi við erum að tala?
Það tel ég.
Ef við verðum bensínlaus, dugar ekki að líma brosmerki yfir bensínmælinn og segja að allt sé í lagi og halda að við getum keyrt áfram. – Eigum við að veita bensínmælinum athygli? – Já auðvitað.
En það er ekki þar með sagt að við þurfum að stara á hann allan tímann og óttast það að bensíntankurinn tæmist, við gætum líklegast ekki keyrt ef við tækjum ekki augun af honum! ..
Þegar við skoðum fortíð, þá skönnum við hana – rennum augun yfir hana eins og bensínmælinn og höldum svo áfram. Fortíðin er eins og fenjasvæði, við höldum áfram þegar við förum þar í gegn, en það er enginn staður til að reisa sér hús. –
Ef við erum vansæl, þá þurfum við í mörgum tilfellum að vita orsök til að geta unnið í henni. –
Afleiðingar eru pollurinn sem við erum alltaf að þurrka upp, – pollur sem e.t.v. stækkar og stækkar, stækkar meira eftir hvert skiptið sem við þurrkum hann upp. Kannski vegna þess að við erum alltaf með fókusinn á pollinum? – Hvað ef við stilltum hann á orsökina, hinn leka krana? Væri ekki rétt að gera við hann og þá hætti pollurinn að koma?
Hér er ég að stinga upp á því að við þurfum að hætta að veita vandamálum athygli – sem eru í raun afleiðing, og veita orsökunum athygli. Hvað ef við erum með slæman sjúkdóm, við tölum sífellt um hann þegar við hittum einhvern, við lesum um hann og spáum og spekúlerum, sjúkdómurinn fær gríðarlega athygli og vex og vex, en kannski erum við ekki að íhuga orsök, eða hvað við getum gert sjálf.
Jákvæðni hjálpar í öllum tilfellum. Broskallinn skaðar engan, og það að hugsa á lækninganótum – eins og einhver sagði, „mitt bros lætur frumurnar mínar brosa“. –
Allt tal um sjúkdóma – allt væl um vandamál, án þess að gera eitthvað í því er eins og að tala um að bíllinn sé bensínlaus og kvarta yfir því, jafnvel skammast yfir að einhver annar fyllti ekki á bílinn, en sleppa því að setja bensín sjálf/ur – þrátt fyrir að vita að það er leiðin til að komast af stað aftur. –
Ég hef mikið rætt um skömm, og skv. „skammarsérfræðingnum“ Brené Brown, minnkar skömmin þegar við tölum um hana. – Skömmin er eins og hinn leki krani, hún orsakar vanlíðan og óhamingju. – Viðgerðin er á þeim bæ að opinbera hana, gefa hana frá okkur, fyrirgefa okkur og með því skrúfum við kranann fastan.
Það er ekki hægt að hunsa lekann krana, eða bensínlausan bíl. Bíllinn keyrir ekki – af hverju? – Jú, hann er bensínlaus. – Við bara tölum ekki um það út í hið óendanlega að hann keyri ekki, og gerum það að risa vandamáli.
Gerum ekki úlfalda úr mýflugu, heimsstyrjöld úr rökræðum, fjall úr þúfu. – Það gerum við þegar við veitum vandamálinu of mikla athygli en hunsum orsakirnar, eða gerum ekkert í þeim.
„Oh ég er svo feit/ur“ – hvað ætlar þú að gera í þvi og af hverju ertu of feit/ur? – Ef þú ætlar ekkert að gera í því, hættu þá að tala um það, því þú fitnar bara af því. – Já, svoleiðis er það.
„Oh, ég er svo blönk/blankur, – hvað ætlar þú að gera í því og af hverju ertu of blönk/blankur? – Er það öðrum að kenna, ertu þá fórnarlamb? Gætir þú gert eitthvað í því? – Verður þú ekki bara blankari ef þú ert alltaf að tala um vandamálið blankheit? –
Niðurstaða mín (í bili – aldei endanleg): – ekki stilla fókusinn vandamálin, en um leið ekki afneita þeim, það er nauðsynlegt að vita af þeim, sjá „sársaukann“ sem veldur þeim og vinna í honum.
Fine Young Cannibals sungu: „What is wrong in my life that I must get drunk every night? – Vandamálið er álitið drykkjan, eða alkóhólisminn sem fær vissulega mikla athygli, – en það er auðvitað þetta „what is wrong“ – „hvað er að?“ sem við ættum að spyrja og leitast við að gefa gaum.
Svo gott að tileinka sér þetta… vildi að þetta væri svona auðvelt. Oft gott að reyna að gleyma því slæma sem gerðist í fortíðinni en svo einmitt þarf maður að skilja það til að geta unnið í því og þar staldra ég aðeins of lengi við!