Að lifa innan frá og út ….

Hver er munurinn á því að lifa innan frá og út og að lifa utan frá og inn?

Jú, þegar við lifum utan frá, þá erum við í stuttu máli sagt eins og strengjabrúður samfélagsins, strengjabrúður vina, fjölskyldu, maka o.s.frv. – við hegðum okkur alltaf eins og okkur er „sagt“ eða eftir þeim skilaboðum sem við fáum.  Stundum eru þessi skilaboð mjög misvísandi og það gerir okkur rugluð í ríminu. – Við verðum reið, gröm – eða upplifum aðrar vondar tilfinningar, en segjum kannski – „af hverju gerir ekki einhver eitthvað?“ – en áttum okkur ekki á því að við erum „einhver.“ –

Ef við lifum innan frá og út, þá höfum við tengingu við okkar innri rödd, og náum að lifa eftir innsæi okkar og tilfinningum. –  Það getur verið djúpt á okkar eigin, sérstaklega ef við erum vön að setja þarfir annarra eða viðmið (hvort sem það er í víðu samhengi eða þröngu)  í fyrsta sæti, jafnvel þó það brjóti á okkur sjálfum.

Fullorðið fólk – uppaldendur þurfa eðlilega að setja börn í fyrsta sætið.  Þau gera það með því að taka ábyrgð á sjálfu sér og velferð sinni (svona eins og að setja á sig súrefnisgrímuna fyrst til að hjálpa barni). –

Einstaklingur sem tekur ábyrgð á eigin velferð og jafnvægi – hlustar á innri rödd og lifir af heilu hjarta – og hefur hugrekki til að fylgja sannfæringu sinni.

Jim Morrison sagði:

„Mikilvægasta tegund frelsis er að vera það sem þú raunverulega ert. Þú skiptir út raunveruleika þínum – sannleika þínum – fyrir hlutverk.  Þú skiptir út skynjun þinni fyrir leikrit.  Þú gefur upp hæfileikann til að finna til, en setur í staðinn upp grímu  Það getur ekki orðið nein stór bylting fyrr en persónuleg bylting, hvers og eins hefur átt sér stað.  Byltingin þarf að gerast hið innra fyrst.“

Ég á eina sögu þar sem ég fylgdi sannfæringu minni, ekki síst barna minna vegna, ég vildi að ég hefði þó verið „vitrari“ eða tengdari í öðrum efnum, en sagan er eftirfarandi:

Það var saumaklúbbur á Nönnustíg í Hafnarfirði, – ég sé tímann alltaf út frá aldri barna minna, og Eva Lind hefur verið u.þ.b. fjögurra ára gömul, svo það er árið 1985.  Ég var með saumaklúbb og við vinkonurnar að gúffa í okkur kökum og kaffi, þá tekur ein upp sígarettu og ætlar að kveikja sér í.  Ég bið hana vinsamlegast um að bíða þar til við værum búnar að borða.

Hver haldið þið að hafi verið talin skrítin?

Það var gamlárskvöld í Goðatúni, og núna er árið 1993 og ég bauð nágrönnunum yfir og við sátum inni í stofu, – nágrannakonan tekur upp sígarettu og í bið hana vinsamlegast um að reykja ekki inní stofu yfir börnunum, hvort hún geti fært sig fram í eldhús. –

Hver haldið þið að hafi verið talin skrítin?   (Ég fékk meira að segja að heyra það frá mömmu að ég væri dónaleg við gestina ;-))..

Stuttu seinna var komið algjört reykbann inni á okkar heimili, ég hafði gefið börnunum mínum það í fæðingargjöf að halda þeim frá reyk og þegar um börnin manns er að ræða er ekki erfitt að setja fólki mörk.

Stundum mættum við vera duglegri fyrir okkur sjálf.

Ég var þarna  (ásamt eflaust fleirum) á undan minni samtíð, en talin frekar frek, skrítin og jafnvel dónaleg.

Ég fór eftir minni eigin sannfæringu og gegn sannfæringu hinna.

Þetta er dæmisaga, um það að það ER mikilvægt að standa með sér,  ég þarf varla að segja frá því að flest fólk í dag á reyklaus heimili og býður ekki börnum upp á að anda að sér reyk, enda skilst mér að óbeinar reykingar séu jafnvel skaðlegri heilsunni en beinar, er það ekki?

Hvað um það, þessi pistill fjallar ekki um reykingar – eða markmiðið með honum er það ekki, heldur mikilvægi þess að fylgja sannfæringu sinni, – nú þar til og ef annað kemur í ljós, og setja mörk.  Jafnvel þó við séum ein og fáum ekki til þess stuðning. –

Lifum heil – innan frá og út.

Kannski erum við hrædd við að gera byltingu í samfélaginu, þegar við eigum enn óuppgerða byltingu innra með okkur sjálfum. Við erum ósátt við pólitíkina og óstjórnina, ranga forgangsröðun o.s frv. Mikilvægast er að taka til í eigin ranni fyrst, og svo þora að taka afstöðu, byggða á eigin sannfæringu. Samfélagið er mjög lasið, meðvirkt, alkóhólískt, og sýndarmennska allsráðandi. Það er engum um að kenna, við höfum fengið þessi skilaboð frá bernsku. Við þurfum heldur ekki á sökudólgum að halda, heldur bara vakna og skilja, og í framhaldi af því koma út úr skápnum sem við sjálf. Það er öllum í hag, vegna þess að við erum perlur í sömu perlufestinni, og allar perlurnar eiga að skína.

1463696_10151707031842373_1341857672_n

Ein hugrenning um “Að lifa innan frá og út ….

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s