Undir hamri dómhörkunnar ….

Kona nokkur var mjög leið yfir því hvað uppkomin  dóttir hennar kom sjaldan í heimsókn. –  Henni fannst dóttirin tillitslaus og eigingjörn. –

Konunni datt ekki í hug að líta í eign barm og hugleiða, „getur verið að ég sé að halda henni frá mér?“ –   Hvað er það sem ég er að gera sem veldur því að dóttir mín kemur ekki í heimsókn? –

Konan gerði sér ekki grein fyrir því að í þau fáu skipti sem dóttirin kom, byrjaði hún yfirleitt að skamma hana fyrir hversu sjaldan hún kæmi og sendi t.d. á hana „skeytið“ um hvítu hrafnana, segir: „Sjaldséðir hvítir hrafnar“ – svo að dóttirin var ekki fyrr komin inn úr dyrunum en að skothríðin hófst.  –  Hamar dómhörkunnar kominn á loft.

Ef þetta á að vera til að dótturinni langi til að koma aftur, er þetta kolröng aðferðafræði, sem virkjar bara samviskubit og vanlíðan.

Eitt af því sem einkennir það að „vakna“ til andlegs lífs er að hætta dómhörku, – bæði í eigin garð og annarra..  Í stað dómhörku kemur samhygð og skilningur. –

Í stað dómhörku kemur sátt og kærleikur, og að taka á móti manneskjunni eins og hún er. –

Það er vont að vera nálægt fólki sem er stanslaust með okkur í prófi, er að meta og vega. –  Þá förum við að „vanda okkur“  og verðum óeðlileg.  Er ég nógu góð/ur? – Er ég nógu dugleg/ur?   Segi ég eitthvað rangt? Segi ég eitthvað rétt? –

Sérstaklega gildir þetta um okkar nánustu. –  Að leyfa þeim að vera eins og þau eru. –  Auðtiað þurfa börn uppeldi, en uppeldi í kærleika og það er hægt að segja fólki til án þess að vera í einhvers konar dómarasæti. –

Við þekkjum flest þessa tilfinningu að tipla á tánum í ákveðnum samskiptum eða samböndum.  Sveigja okkur og beygja. –

Þessi samskipti geta verið gagnkvæm og eru því bara óeðlileg og hvor aðili fyrir sig kominn í hlutverk í staðinn fyrir að vera hann sjálfur.

Við þekkjum eflaust líka mörg fólk sem getur ekki hamið sig að koma með einhverjar athugasemdir í okkar garð, – stundum eru þær bara þannig að það er sagt með svipbrigðum eða viðmóti.

Á móti getum við orðið ofurviðkvæm og upplifað meiri gagnrýni en í raun og veru er í gangi. –  En þá er það yfirleitt vegna þess að gagnrýni hefur verið fyrir. –

Það er gífurlega mikilvægt  fyrir börn að vita að þau séu elskuð án skilyrða. – Það er að segja að láta þau vita að þau séu verðmæt – eins og þau eru – í sjálfum sér.  Ekki vegna þess að þau fara út með ruslið eða sýna góðan námsárangur í skóla o.s.frv. – Bara af því að þau eru.  Það þýðir ekki að þau gegni ekki skyldum og hjálpi til – heldur þýðir það bara að þau eru ekki það sem þau gera, heldur það sem þau eru og það er það sem við öll viljum vera. –

Við viljum öll vera elskuð skilyrðislaust, og það þurfum við öll að læra. Líka elskuð  af okkur sjálfum.

Það er gott að geta umgengist hvert annað afslöppuð án dómhörku og tilætlunarsemi. –

Það er lýjandi að lifa undir hamri dómhörkunnar, og við þurfum hvert og eitt okkar að líta í eign barm og kannski í eigin hendi og sjá hvort að við höldum á slíkum hamri. –

Elskum ….án skilyrða.

p.s. það skal tekið fram að skilningur þarf að virka í báðar áttir. Sumir hafa aldrei lært annað en að vera að dæma og að gefa þau skilaboð að verðmæti náungans sé falið í því hvað hann gerir en ekki í því hvað hann er. – Það er því vankunnátta í samskiptum sem veldur því að einhver tekur svona á móti þeim sem hann í raun saknar og hrekur því aftur frá sér. – Í stað þess að segja: „Það er mikið að þú lætur sjá þig“ eða „Sjaldséðir hvítir hrafnar“ – ætti viðkomandi bara að taka fallega á móti viðkomandi með góðu faðmlagi og segja: „Mikið þykir mér vænt um þig“ – því það er eflaust það sem hann í raun vill segja, en kann ekki að koma orðum að því.

Maya

2 hugrenningar um “Undir hamri dómhörkunnar ….

  1. Bakvísun: Mest lesið á árinu 2013 | johannamagnusdottir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s