„Gekk ég yfir sjó og land og hitti þar einn gamlan mann, sagði svo og spurði svo hvar áttu heima?“ ..
Og hvar á ég heima?
Ég las í góðum pistli Bjarna Karlssonar prests, um að þakklæti væri andstæða sjálfsvorkunnar, og auðvitað passar það. Það snýst um fókus, að horfa á það sem við erum þakklát fyrir í stað þess að vorkenna okkur yfir því sem við ekki höfum. –
Sumt er svo sorglegt að við megum alveg vorkenna okkur smá, en það er vonlaust að ætla að dvelja í vorkunnseminni eða reisa okkur hús í hennar landi.
Ég heyri stundum í viðtölum mínum að það er eins og fólk leiti uppi vandamál eða hreinlega búi til hindranir í sínu lífi, – ef það hefur ekki utanaðkomandi vandamál. – Já, sorgleg staðreynd, og ég sá að vinkona mín Hallgerður Pétursdóttir hefur stundum skrifað: „Sumum líður best illa“.. og við höfum eflaust öll verið þar einhvern tímann. Þannig að þetta getur átt við okkur öll á einhverjum tímapunkti, en munurinn er hvort við kíkjum bara í heimsókn eða hvort við byggjum okkur hús þarna í Sjálfsvorkunnarlandi.
VIð erum öll eins í grunninn, við fáum líkama og við fáum sál. Við erum hirðar líkama og sálar og við þurfum að staðsetja likama og sál.
Við þurfum stundum að vorkenna okkur, og leyfa okkur að finna til, en að sama skapi þurfum við að þakka okkur fyrir allt sem við höfum áorkað, allt sem við höfum gert og erum. Þakka líka lífinu fyrir allt það góða sem það hefur fært okkur, fyrir að mega anda fersku lofti, finna ilminn af sjónum og sjá stjörnur á himni. Þakka fyrir litlar hendur, stórar hendur, lítil faðmlög og stór. Þakka fyrir líf sem þó hefur hvatt, en líf sem gaf á meðan á því stóð.
Ég var að hugsa það í morgun hvað það væri magnað, þessar gjafir sem mín nánustu hafa skilið eftir. – Pabbi kvöldbænirnar og signinguna, mamma morgunversið „Upp, upp mín sál“ – og Eva mín endalaust ljós sem fylgir mér alla daga. – „Hugsaðu ljós“ .. heyri ég hana hvísla.
Með þessa hvatningu verða allir vegir færir.
Ég hef valkost og ég hef valið að búa í landi án allrar aðgreiningar og án allra landamæra og það er rúm fyrir alla sem velja að gerast landnemar þar.
Ég ætla að búa í Þakklætislandi, en þú?