Eftirfarandi texti er innblásinn af Eckhart Tolle, sem skrifaði m.a. bókina Mátturinn í Núinu. –
Er gleði, áreynsluleysi og léttleiki í því sem þú ert að gera? Ef ekki, þá er tíminn að taka frá þér stundina, og þú sérð lífið sem byrði eða þraut.
„Fagnaðarerindið“ er að ef ekki er gleði, áreynsluleysi eða léttleiki í því sem þú ert að gera, þýðir það ekki að þú þurfir endilega að breyta því sem þú ert að gera, heldur getur verið að það sé nægjanlegt að breyta því hvernig þú ert að gera það. „Hvernig“ er alltaf mikilvægara en „Hvað“ .-
Skoðaðu hvort þú getur veitt gjörningnum (því sem þú ert að gera) meiri athygli en útkomunni út úr gjörningnum. –
Dæmi úr hversdagslífinu, – þú ert að vaska upp, þú nýtur þess á meðan þú ert að gera það, uppvaskið verður að athöfn sem þú nýtur, í staðinn fyrir að verða ekki sátt/ur fyrr en uppvaskinu er lokið 🙂 ..
þú gefur uppvaskinu fulla athygli og ert því í tímanum, en ekki í framtíínni þegar uppvaskinu er lokið. –
Þetta er einföld útskýring á „accept what is“ eða sættu þig við það sem er. Æfingin felst í því að veita miklu meiri athygli í það sem við erum að gera en útkomunni út úr því. Ef að við erum að vinna verkið og hugurinn kominn áfram – erum við að hafna núinu. –
Á sömu stundu og við virðum stundina, hverfur óhamingju og barátta – eins og fitan hverfur með uppþvottaleginum, og lífið fer að flæða í gleði og án áreynslu.
Þegar þú ástundar það að njóta stundarinnar og veita henni athygli, verða einfaldir hlutir mun ánægjulegri.
Svo ekki vera of upptekin við að hugsa um afraksturinn – veittu því sem þú ert að gera athygli. Afraksturinn kemur þá óumflýjanlega og áreynslulaust.
Þarna vitum við af markmiðinu, en við erum með fókusinn á því sem við erum að gera. –
Önnur leið að segja þetta er „The Way to Heaven is Heaven“ – Lífsgangan á að vera ánægjulega, NÚNA, ekki bara þegar við höfum náð áfangastað. –
Sátt við núið verður ekki betur lýst, – í mínum huga. – Svona getum við sætt okkur við okkur sjálf, líkama okkar, og aðstæður okkar. Æft okkur að ástunda þolinmæði og nægjusemi. –
Þegar þessi árátta að flýja núið – fara fram eða aftur í tíma minnkar, flæðir gleði þess að Vera inn í allt sem þú gerir. Á þeirri stund sem athygli þín beinist að Núinu, upplifir þú gjöf viðveru þinnar, ró, frið. Þú þarft ekki að reiða þig á framtíðina til að ná fullnægju – frelsun þín liggur ekki í framtíðinni. Þegar – Þá – Ef .. heldur Núna. Þá aftengir þú þig útkomunni. Hvorki það að mistakast eða ná árangri hefur máttinn til að breyta ástandi tilveru þinnar. Þú hefur uppgötvað lífið sem er undirstaða stöðu þinnar í lífinu.
Þörfin til að vera eitthvað annað eða öðruvísi en þú ert hverfur, þegar þú nærð þessum stað sáttar við núið. Það getur vel verið að þú náir alls konar árangri: að verða þekkt/ur, auðug/ur, losir þig við hluti sem ekki þjóna þér, en þegar horft er dýpra, inn í vídd þess að VERA, ertu fullkomin/n og heil vera NÚNA.
Það vantar ekkert, skortir ekkert, þú þarft ekki að betla – fjársjóðurinn ert þú, gleðin ert þú, ástin ert þú, friðurinn ert þú, þú ert nóg og hefur nóg og fram streymir gleðin við að vera.