Árið 1991 kom út myndin „Sleeping with the Enemy“ – þar sem ung kona sem leikin er af Juliu Roberts, – lætur líta út fyrir að hún sé látin, til að sleppa frá eiginmanni sínum. – Hún treysti sér s.s. ekki til að yfirgefa hann. – Hún óttaðist hann í hjónabandinu, óttaðist að fara frá honum og afleiðingar þess. –
Það er vont að vera stödd á þessum stað. – Í kóngulóarvef maka, og það er auðvitað mjög sorglegt. –
Þegar ég fékk nemendur mína til að aðstoða mig í þankahríð (brainstorm) um hvernig þau sæu betri heim, þá kom m.a. „ekkert stríð“ -og flest viljum við sjá stríðlausan heim og herlausan kannski. –
En hversu erfitt er það ekki ef ekki er einu sinni hægt að halda friðinn á heimilunum. – Af hverju stríð? – Er þetta spurning um eign? Spurning um yfirráð og vald? –
Unga konan í fyrrnefndri mynd óttaðist að standa sig ekki, – hún þurfti að raða handklæðunum rétt, dósunum í skápnum o.s.frv. – Röfl, gagnrýni, ásakanir á maka geta snúist upp í það að makinn fer að óttast hinn aðilann í sambandinu. – Það verður spenna á heimilinu, – þú gerir aldrei nógu vel, eða ekki rétt. – Það er látið í ljós með orðum, viðmóti, fýlu o.s.frv. – Stjórnunartæknin er fjölbreytt. – Þetta þarf ekki að vera að aðeins annar aðilinn sé svona, kannski eru þau bæði.
Það er stríð og í stríði er fólk ekki vinir – það er óvinir. –
Það getur ýmislegt gengið á yfir daginn, aðfinnslur, fýla, samviskustjórnun og leiðindi. – Svo á að fara upp í rúm og hvað? Sofa saman? Elskast? – Sumt fólk fær að vísu eitthvað „kick“ út úr því að sættast í gegnum kynlíf, en spurning hvort það er að elskast eða einhvers konar útrás? –
En þetta gengur ekki svona að eilífu, því auðvitað fer mikil orka í stríðið, í óánægjuna. –
Kynlíf sambýlisfólks/hjóna varir allan sólarhringinn og er ekki bara samfarir. – Kynlíf er tilfinningatengt og það er bara ekkert varið í að sofa hjá óvini sínum, eða þeim sem þú óttast. –
Þegar þú getur ekki verið heiðarleg/ur við maka þinn þá óttast þú hann. Þegar þú þorir ekki að segja honum hvernig þér líður vegna viðbragða þá óttast þú hann. –
Ég held að allt of mörg pör óttist hvort annað, vegna þess að þau geti ekki verið heiðarleg við hvort annað. – Hvað ef að þú hefur gert mistök, á þá að segja maka sínum frá því? – „Æ er ekki betra að sleppa því, hann/hún bregst svo illa við og dæmir mig svo hart“. –
Harðir dómar, ásakanir – hörð viðbrögð eru til þess gerð að við þorum ekki að vera heiðarleg og förum að ljúga. –
Hvað er hægt að gera? –
Sannleikurinn gerir okkur frjáls, – við verðum að geta talað við maka okkar án þess að óttast viðbrögð. Báðir aðilar þurfa að vera umburðarlyndir og báðir þurfa svo sannarlega að vera heiðarlegir og traustir. – Traustið felst m.a. í því að geta sagt maka sínum frá sínum göllum sínu klúðri o.s.frv. – Trúnaðarbrestur er mjög sár, og það vita þau sem hafa reynt. – En sárið verður mun verra þegar bresturinn er upplýstur utan frá. – Makinn segir ekki frá.
Ótti við að það sem við höfum að segja særi maka okkar, hefur líka áhrif á hversu heiðarleg við erum. – Í raun er það þannig að þegar við ottumst að særa maka okkar, – erum við mest hrædd við að meiða okkur sjálf við að sjá makann særðan.
Ótti er gegnumgangandi hér.
Hvað segir það okkur? – EIgum við ekki að vera hugrakkari? Horfast í augu við óttann, og ganga í gegnum hann en ekki ganga í ótta?
Það er ótrúlegt frelsi að vera í sambandi þar sem hægt er að tala um ALLT – án þess að óttast viðbrögð makans. –
Fullorðnar manneskjur bera ábyrgð á sjálfum sér, og við verðum að leyfa makanum að hafa þann rétt að tjá sig og við höfum þann rétt að svara. – Ef við svörum með árás eða ásökunum, þá hefur makinn þann rétt að ákveða hvort hann vill vera í sambandi með manneskju sem er dómhörð, stjórnsöm og erfið.
Við höfum alltaf val og við verðum að setja mörk. – Láta vita hvað við viljum og líka hafa það á hreinu hvað er boðlegt í samskiptum.
Viljum við stríð eða frið?
Sumt fólk skapar stríð vegna þess að því leiðist. – Hvernig væri að gera eitthvað allt annað við leiðanum?
Vonandi eru ekki margir þarna úti sem þurfa að „feika“ dauða sinn til að sleppa frá maka sínum.
Það á að ríkja frelsi og friður í samböndum. – „Ó hvílíkt frelsi að elska þig“ – söng Páll Óskar. –
Fólk er ekki alltaf sammála og þá eru málin rædd, eins og á góðum starfsmannafundi. – Ef ekki fæst lausn eru til hlutlausir ráðgjafar sem hægt er að leita til. –
Óöryggi skapar ótta, vantraust og erfiðleika svo að það er á ábyrgð hvers og eins að finna sinn styrk, byggja sína sjálfsmynd, rækta sig og sjálfsástina. –
Það eru tveir heilir og kærleiksríkir einstaklingar sem ná að lifa saman í friði. –
Hver var aftur boðskapurinn? „MAKE LOVE NOT WAR“ ..
Heimilið er friðarsvæði – en ekki jarðsprengjusvæði þar sem fólk er hrætt við að stíga á ranga flís á eldhúsgólfinu eða parketfjöl. –
Allt of margir kannast við spennuna sem er á sumum heimilum. Börnin tala um að það sé betra þegar annað hvort mamma eða pabbi er ekki heima, því þá ríki ekki spenna. – Það er eitthvað rangt við það. –
Tölum saman í kærleika, tölum frá hjartanu og svörum með hjartanu. Ef samræðan er gerð í vináttu og styrk, þá er um að ræða vináttu, annars óvináttu og það er engum bjóðandi að sofa hjá óvininum.
Mikið vona ég að þetta hjálpi einhverjum til skilnings á mikilvægi þess að vera heiðarleg – traust – kærleiksrík o.s.frv. – Lífið er ekki þrautarganga – hjónaband er ekki eitthvað sem á að þrauka heldur, heldur njóta. –
Mæli með að þegar þetta er skoðað, að líta í eigin barm, skoða eigin viðbrögð, eigin stjórnsemi, eigin fýlu-eða samviskustjórnun. – Við græðum miklu meira á því en að vera alltaf að leita að göllunum hjá hinum. – Þeir geta líka verið til staðar, en hvað ef báðir aðilar eru tilbúnir að skoða sig, heila sig, bera ábyrgð á sér? –
ELSKA SIG – JAFNVEL ?
SKIL ETTA MJG VEL,TAKK:)