Skilnaður er makamissir og makamissi fylgir sorg. – Sorg er safnheiti svo margra tilfinninga, – og þó að margar tilfinningar við skilnað séu eins eða sambærilegar og við dauða maka, þá eru sumar sem tilheyra dauðsfalli maka en aðrar tilfinningar eins og skömm og höfnun oft ráðandi við skilnað. – Sumum finnst skömm að skilja, öðrum finnst skömm að hafa verið í vondu hjónabandi of lengi. –
Hafa „leyft“ einhverjum að koma fram við sig á þennan og hinn mátann, – og svo endar það stundum með hvelli eða leiðindum. –
Fólk getur líka upplifað skömm að hafa ekki tekist að halda drauminum um gott hjónaband á lofti, skömm fyrir að hafa ekki getað gert makann hamingjusaman þannig að hann leitaði annað, jafnvel, þó við ættum að vita að hver og einn ber ábyrgð á sinni hamingju. –
Það er margt sem getur verið uppi á teningnum, en þegar skilnaður er orðinn að veruleika, þá upplifir fólk missi, jafnvel þó að missinum fylgi í sumum tilfellum einhvers konar frelsistilfinning þá er breytingin erfið.
Síðan er það þeirra sem skilja að vinna sig í gegnum sorgarferlið eftir skilnað og standa síðan sterkari og upplifa þá, þegar til baka er litið að ganga í gegnum þroskaferli. –
Hvort sem skilnaður átti sér stað fyrir viku eða fyrir tíu árum, ef þú ert að glíma við gremju, reiði, óréttlæti heimsins eða hreint út sagt einmanaleika þá er mjög mikilvægt að afneita ekki sorginni við skilnað, jafnvel þó óskað hafi verið eftir honum af báðum aðilum. Það er sambandið, eins og við óskuðum okkur, sem deyr, og þann missi syrgjum við flest.