Það er svo hollt að ræða málin. Stundum er ég alveg komin „meðetta“ og svo fæ ég erfiða spurningu frá þátttakanda í námskeiði og/eða viðtali og þarf að endurhugsa allt upp á nýtt. –
Fyrirgefning er hugtak sem við þurfum að vinna mjög mikið með, þegar við erum að „endurstilla“ okkur. – Að fyrirgefa veitir okkur frelsi, og aftengir okkur fólki eða atburðum sem hafa átt sér stað og okkur er e.t.v. uppálagt að fyrirgefa. –
Ein spurningin var: „Er hægt að fyrirgefa of mikið?“ –
Ég held það sé ekki hægt, eins og það er ekki hægt að elska of mikið. –
Fyrirgefning felur það í sér að við fyrirgefum t.d. þeim sem hefur gengið yfir okkar mörk, brotið á okkur o.s.frv.- en það þýðir EKKI að við samþykkjum það sem var gert, eða að við dveljum áfram við aðstæður sem eru okkur ósamboðnar eða brjóta á okkur. –
Önnur spurning: „Hvað ef ég get ekki fyrirgefið?“ – Er ég þá ómöguleg manneskja? – Auðvitað ekki. Fyrirgefning er í raun að sleppa tökum, – aðalmálið þegar við erum að fyrirgefa einhverjum er að sleppa tökum á viðkomandi svo við séum ekki tengd honum/henni, eða aðstæðum. – Fyrirgefningin er fyrir okkur sjálf fyrst og fremst, og ef við getum ekki fyrirgefið þessum aðila eða aðstæðum, þurfum við að taka það skref að fyrirgefa okkur að geta ekki fyrirgefið og vita að það er líka allt í lagi. –
Sá eða sú sem fyrirgefur verður alltaf stærri en sá eða sú sem er fyrirgefið. – Fyrirgefning er tvöföld gjöf, hún er gjöf til þess sem fær fyrirgefninguna og gjöf til okkar sjálfra. – Ef við fyrirgefum okkur sjálfum er hún tvöföld gjöf. Við erum gefendur og þiggjendur. –
Fyrir trúaða manneskju – á eitthvað æðra – hefur mér fundist það ótrúleg blessun að geta beðið um hjálp við fyrirgefninguna. – Viðurkenna vanmátt sinn, – sleppa tökum á annan hátt, – „Ég get ekki fyrirgefið, það er of erfitt, hjálpaðu mér Guð við að losa mig undan „álögum“ þessarar manneskju“ – „Ég skal taka ábyrgð á mér, – en ekki öðrum.“ –
„Ég fyrirgef mér – og ég er frjáls“ …
Það er líka mikill munur á iðrandi manneskju og þeirrar sem iðrast ekki, – sem er ekki tilbúin til að viðurkenna að hún hafi gert rangt eða brotið á okkur. – Ef að iðrun er fyrir hendi, er í flestum tilfellum auðveldara að fyrirgefa manneskju, en ef engin er iðrun þá er það eins og að rétta einhverjum gjöf sem hann eða hún vill ekki þiggja.-
Það þýðir ekki að þú hafir ekki gefið gjöfina, – þú hefur gert þitt, – ef hinn aðilinn vill ekki þiggja, þá er það hans vandamál. –
Það er hægt að ræða fyrirgefninguna fram og til baka, – en það sem skiptir mestu máli í þessu öllu saman, er þessi ábyrgð sem hver og ein manneskja hefur gagnvart sjálfri sér. – Það er ekki hægt að breyta öðru fólki eða hvernig það hugsar, – nema jú það samþykki það. – Við stundum sjálfsást með því að taka ábyrgð á andlegri og líkamlegri heilssu okkar, og það að elska sig er líka að fyrirgefa sér. –
Leyfum okkur að vera mannleg, með bresti, gera mistök og stundum viðurkenna að við getum ekki. – Að viðurkenna það er auðmýkt. –
Verum ekki dómhörð á okkur sjálf og ætlum okkur ekki að vera Guð almáttugur sem getur fyrirgefið skilyrðislaust. –
Það er auðvitað gott að hafa það að markmiði, – markmiði sem er eins og stjarna, en látum okkur nægja að ganga á geislunum frá stjörnunni, – hafa þann fókus að vilja fyrirgefa, svo framarlega sem okkur er það unnt. –
Guð fyrirgefur okkur svo við getum sofið vel .. og átt góða morgna.