Lífið er dauðans skuggadalur

Lífið er óvissuganga, – en óvissunni lýkur við dauðann.  Við vitum í raun ekkert hvað gerist á morgun eða bara á næstu mínútu, þó oft séu til dæmis líkurnar á því að nýr dagur rísi mun meiri en að hann rísi ekki. –

Það kom einu sinni til mín kona, sem var komin í lífshættulega yfirvigt og sagði: „ég er að fremja sjálfsvíg – ég geri það bara hægt og rólega“ …

Af hverju ætli hún hafi verið að gera það? — Kannski vildi hún í raun deyja, – eða hún þorði ekki að lifa? –   Að lifa er að finna til, og að lifa er að finna sársauka. –  Þessi kona bældi sársauka sinn með mat. – Hún var tilfinningalega hungruð og tilfinningalegt garnagaul öskrar á „eitthvað“ –  en auðvitað er það þannig að matur kemur aldrei til með að gera okkur södd tilfinningalega. –

Það er því á grundvelli óttans, óttan við að finna til og sjá sársauka sinn og upplifa,  sem þessi kona var að fremja hægfara sjálfsvíg. – Bæla lífið með mat.  Aðrir bæla það með áfengi og enn aðrir með t.d. vinnu. –

Óttinn felst í því að vera. –

Þó ég fari um dimman dal – eða dauðans skuggadal, sem lífið er, þá óttast ég ekkert – því ÞÚ ert með mér. –

Hver og hvað þetta ÞÚ er skiptir hvert og eitt okkar máli, – að vera ekki hrædd eru skilaboðin.  Dauðinn – í ýmsu formi – er yfirvofandi, skuggi hans fylgir okkur allt lífið,   en að vera að hugsa um hann daglega eða óttast hann verður til þess að við forðumst það að lifa. –  Við hleypum ekki lífinu að og göngum því lifandi dauð. –  Við óttumst óvissuna, hvenær dauðinn skellur á, svo við förum, í stjórnsemi okkar að stunda hægfara sjálfsvíg.

Við erum ekki hrædd við dauðann, við erum hrædd við líf í skugga dauðans. –  Hrædd við allt sem getur gerst í lífinu, hrædd vð að missa, hrædd við að meiða okkur. –

Lífið er áhætta, – bátur er öruggur í fjörunni en það er ekki tilgangur bátsins að liggja í fjöru. Tilgangur bátsins er að sigla á öldunum. Bera fólk á milli staða.

Ef tilgangur okkar væri að vera örugg, þá værum við fædd án tilfinninga,  og þá værum við úr stáli eða plasti.  Óbrjótanleg, en ekki viðkvæm eins og postulín. –

Við þurfum að mæta svo mörgu, sitja marga skólabekki, – lífið er eins og ævintýrið í  Hringadróttinssögu.   Við mætum góðu og við mætum illu, en aðal málið er hvernig við mætum því – og hvert okkar eigið viðhorf er. –  Erum við góð eða ill?  Erum við hrædd eða óhrædd? –

Nú vitum við að lífsgangan er gengin í skugga dauðans og við göngum hana samt – við tökum ekki „short-cut“  á hana, eða forðumst þessa lífsgöngu,  með deyfiefnum.  Við finnum til – því að finna til er að vera til. –   Við finnum til sársauka og við finnum til gleði.   Þannig er lífið. –

Mestu hetjurnar eru þær sem taka á móti sársaukanum, en afneita honum ekki. Þær gráta, þær orga þegar þær finna til og skammast sín ekki fyrir það,  því það er eins og að skammast sín fyrir sjálfa/n sig og lífið. –   Þegar við höfum grátið út, þá er það eins og hreinsun og hægt er að halda áfram. –  Byrðinni er létt.

Ekki afneita lífinu núna vegna þess að einhvern tímann muni það óhjákvæmilega enda, – lifðu lífinu núna og ekki taka ánægjuna frá þér með áhyggjum og kvíða yfir því hvernig muni fara.  Það sem verður verður og komi það sem koma skal. –

masada9

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s