Þegar þig langar eitthvað en trúir öðru …..

„Þegar þig langar eitthvað en trúir öðru ertu að kljúfa orkuna þína.“… (Esther – Abraham Hicks).

Eftir því sem ár og þroski færist yfir, styrkist ég í trúnni. –  Ekki trú á eitthvað, heldur bara trúnni – hreinni og ómengaðri. –

Í raun skiptir trú næstum öllu.  Hverju við trúum að við séum.

Í rauninni erum við í einhvers konar „heilaþvottartrúboði“ alveg frá bernsku. –

Allt sem foreldrar segja og gera er ákveðið „trúboð“..

Foreldrarnir eru fyrstu „guðirnir“ – því flest börn trúa á foreldra sína – og trúa þeim oft í blindni. –

Við erum leirinn – eða leirkúlan sem foreldrarnir bera ábyrgð á að koma heilli í gegnum bernskuárin. –  Svo koma fleiri þarna inn í eftir því sem árin líða, – auðvitað fleiri í fjölskyldunni, kennarar, félagar í skóla, o.s.frv. –  Ef við eignumst maka getur verið að hann haldi áfram að móta þessa kúlu. –

Fyrstu árin erum við óábyrg fyrir okkur sjálfum,  – við erum ósjálfbjarga og getum ekki annað en treyst á foreldra eða aðra uppalendur. –   Það er hreinlega ekki annað í boði fyrir barnið. Þess vegna er hlutverk uppalenda MJÖG mikilvægt,  að uppeldið verði ekki að ofbeldi. –

Ofbeldið er eins og högg og holur í leirkúluna, og hún afmyndast og brenglast. –

Þegar að árin líða færist ábyrgðin skref fyrir skref yfir á okkur sjálf og þegar við erum algjörlega búin að taka yfir erum við full-orðin. –

Ef við tökum ekki ábyrgðina að fullu, erum við í raun ekki fullorðin og það vantar eitthvað upp á.

Hér er ég að tala um að fullorðin manneskja og heilbrigð ber fullkomna ábyrgð á sjálfri sér, – á hamingju sinni, velferð, viðhorfi, gleði, frið o.s.frv. –

Full-orðin manneskja trúir á mátt sinn og megin, og e.t.v. sinn æðri mátt eins og við köllum það.  En fullorðin manneskja verður að varast að gera aðrar manneskjur ábyrgar fyrir sér eða að trúa á aðrar manneskjur eins og þær væru þeirra æðri máttur og bera þar af leiðandi ekki ábyrgð á sjálfri sér. –

Ég var einu sinni að kvarta yfir fjölskyldumeðlim, – og sagði: „Hann lætur mér alltaf líða svona“ –  en um leið og ég sagði það, áttaði ég mig á valdinu sem ég var að gefa viðkomandi.

„Hver lætur mér líða svona og hinsegin?“ –  Er það ekki ég sjálf þegar ég samþykki, eða trúi því sem hinn segir – eða skilaboðum hans?

Hvað ef ég trúi þessum aðila ekki, eða samþykki ekki skilaboðin? –

Hvernig líður mér þá? –  Hvernig vil ég að mér líði? –

Við getum haft þennan aðila sem leigjanda (sem ekki greiðir þó leigu) í höfðinu á okkur, – þetta getur verið rödd úr bernsku, rödd úr samfélaginu – sem við trúum og sem talar svo hátt – eða við stillum svo hátt að við heyrum ekki í okkar innri rödd. –

Okkar eigin rödd fær ekki, hlustun,  rými eða við trúum henni ekki.  Hinir hljóta að hafa rétt fyrir sér, eða hvað? –

Hver hefur ekki fengið hugdettu, eða skynjað að eitthvað sé rétt og ætlað að fylgja því eftir, en svo kemur einhver annar og skynjuninni er ekki trúað lengur heldur hinum aðilanum.  – Svo kemur í ljós að skynjunin var rétt og viðkomandi lemur sig niður fyrir að hafa ekki fylgt eigin sannfæringu?

Við óttumst stundum eigin rödd, – því ef við fylgjum henni þurfum VIÐ að taka ábyrgð á því sem við gerum. Er ekki betra að varpa ábyrgðinni á einhverja utanaðkomandi, – „hann sagði það“ – segjum við svo eins og barnið og þurfum þar af leiðandi ekki að taka ábyrgð.

Við eigum rétt á ýmsu og sumt fólk er býsna duglegt að kalla eftir rétti sínum, en stundum vill þetta sama fólk ekki taka neina ábyrgð. –

Dæmi um þetta eru t.d. framhaldsskólanemendur (sumir) sem eru mjög stífir á rétti sínum um allt milli himins og jarðar sem varðar hina ytri umgjörð, – vill góða kennara, góðan skóla, góða aðstöðu, kennslu, námsbækur o.s.frv. –  Og að sjálfsögðu eru þetta sanngjarnar kröfur, en krafan til sjálfs sín er í lágmarki.  Það er hið ytra sem á að kenna, og nemandinn  er ekki til í að taka ábyrgð,  það á að kenna honum,  en það er takmarkað hvað hann „nennir“ að læra, nú eða kannski að vakna í skólann, nú bara stunda námið.  Kannski hefur viðkomandi nemandi bara takmarkaðan áhuga, eða trú á að þetta nám sé eitthvað sem þjóni honum eða henni. –

Hvað gerirst þá? –  Jú, þá finnur nemandinn afsakanir utan sjálfs sín (því hann trúir á ytri aðstæður og ekki á sjálfan sig) lélegur skóli, kennari, námsbækur o.s.frv. –  og tekur ekki ábyrgð á sínu námi.   Þar við bætist að jú, – þetta er í raun allt mömmu eða pabba að kenna því þau eru svo leiðinleg, eða það voru þau sem vildu e.t.v.  að hann færi í skólann. –

Ytri aðstæður HAFA áhrif, hvort sem við erum nemendur í framhaldsskóla eða bara skóla lífsins, þar sem við erum auðvitað öll. –

En ef við erum nemendur sem erum alltaf að horfa út á við,  kenna ytri aðstæðum um okkar getu eða framgöngu í lífinu, þá erum við komin nálægt því að vera fórnarlömb aðstæðna og umhverfis. –

Þá kemur trúin enn og aftur inn. Hverju trúum við um okkur sjálf, og hverju trúum við að við séum? –   Getum við sjálf lagfært þessa beygluðu leirkúlu? –   Getum við sjálf haft áhrif á okkar velferð? –

Þegar okkur langar eitthvað,  skiptir máli að við trúum því að við fáum það eða getum það. –  Við trúum að við getum lært, – því ef okkur langar það en trúum öðru þá setjum við hindranir í eigin farveg. –

Þegar við setjum út óskir í alheiminn,  segjum að við viljum vera hamingjusöm, – þá erum við að sá hamingjufræjum.  Þessi fræ hafa alla möguleika á að blómstra.

En það sem við gerum ef við trúum ekki á að þau verði að hamingjublómi,  þá sáum við efasemdarfræjum og stundum svo mörgum að þau vaxa upp og kæfa hamingjufræin. –

Málið dautt og hamingjublómin líka. –

Svo þegar við bætum vantrú í þetta líka, – við treystum ekki að hamingjufræin okkar vaxi – eða verðum óþolinmóð að bíða eftir þeim, förum við með skóflu og kíkjum hvort þau séu að spíra og skemmum þannig fyrir. –

Það er gott að eiga trú og leyfa sér að vænta góðs. –

Stundum gerirst ekki gott, – en margir vilja frekar trúa því, svo þeir verði ekki fyrir vonbrigðum. –   Það fólk er alltaf girt bæði með belti og axlabönd,  og í sumum tilfellum verða þessi „öryggistæki“ eins og spennitreyja og breytist í kvíða yfir öllu því „hræðilega“ sem mögulega, kannski, ef til vill – gæti gerst. –

Er það góð trú? –

Hvað með: „den tid den sorg“ – eða „leyfðu morgundeginum að hafa sínar áhyggjur?“ –

Er ekki skemmtilegra að lifa í góðri trú en vondri trú á framtíð og fólk? – Skiptir ekki lífsgangan máli, hvernig hún er gengin? –

Slökum á, sleppum, treystum og trúum,  og síðast en ekki síst leyfum okkur að vera svolíti kærulaus og minna ómissandi. –

Tökum ábyrgð, tökum trú – á okkur sjálf. –  Það heitir sjálfs-traust.

„Trú þín hefur læknað þig“ … Hverju trúum við? – Trúum við endalaust á að eitthvað utanaðkomandi beri ábyrgð á okkur og okkar líðan? – Hvað með trúna á okkar eigin getu, kraft og sannfæringu? – Hvað með trúna á það að við getum verið hamingjusöm? .. Er það hægt með þessa ríkisstjórn? – Er það hægt í þessu hjónabandi? – Er það hægt í þessum skóla…………………..lífsins skóla? –
Hverju trúir þú, og við hvern þarf að semja?

971890_412903325485195_97787239_n

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s