„Hann lætur mér líða svona“
„Hún lætur mig fá samviskubit“
„Hann kemur mér alltaf í vont skap“
„Hann veldur mér vonbrigðum, þegar að hann breytist ekki“ …
Þetta eru nokkur dæmi um setningar – sem við segjum þegar við höfum gefið valdið yfir okkar eigin tilfinningum yfir til annarra. –
Hver lætur okkur líða svona eða hinsegin? – Ef einhver lætur okkur líða á einn eða annan hátt, þýður það að við erum valdalaus gagnvart viðkomandi. Við höfum ekki vald á eigin líðan, heldur þessi hann eða hún sem lætur okkur líða. –
Auðvitað hefur fólk mismunandi áhrif á okkur, orkan okkar getur passað vel saman, – stundum finnum við það við fyrstu kynni. En við þurfum að læra það að við megum ekki gefa frá okkur allt vald yfir eigin líðan, leggja ábyrgðina á okkar tilfinningum á annarra herðar.
„Elskaðu mig“ – „Skemmtu mér“ – „Gleddu mig“ – „GEF MÉR“ söng plantan í Litlu Hryllingsbúðinni.
Þegar við verðum svona háð öðru fólki hvað tilfinningar varðar, verðum við eins og strengjabrúður. – Ef einhver hrósar okkur eða veitir okkur viðurkenningu, verðum við glöð en ef einhver gagnrýnir eða er leiðinlegur við okkur verðum við leið. –
Alltaf þessi „einhver“ – sem er utanaðkomandi. –
Breytingin er að átta sig á að við erum „einhver“ – sem getum endurheimt valdið, ef við höfum gefið það frá okkur.
Í þessu samhengi vil ég enn og aftur endurtaka setninguna: „Meðvirkni verður til þegar við reynum að fá frá öðrum það sem við höldum að við höfum ekki sjálf.“ –
Við höldum að við höfum ekki valdið, en við höfum það.
Við reynum að fá ást, virðingu, traust, viðurkenningu – jafnvel athygli. –
Kannski fáum við valdið með að skipta um fókus, hætta að leita út á við eftir viðurkenningu, eftir „skipun“ um hvernig okkur á að líða.
Er það ekki bara? – 🙂
TAKK TAKK:)