Þakklát fyrir súrefnið í loftinu …

Félagi sonar míns lenti í því að vera næstum kafnaður í reyk – þegar hann varð innlyksa í íbúð sinni,  þegar kviknaði í íbúð á hæðinni fyrir neðan. –  Hann lýsti því hvernig hann rétt náði að anda, sá ekki handa sinna skil fyrir sótsvörtum reyk, en komst svo inn í herbergi þar sem hann gat andað að sér lofti inn um glugga.

Þegar slökkviliðsmennirnir komu loks inn til hans, eftir dágóða stund, og frelsuðu úr prísundinni,  var hann því væntanlega þakklátastur að geta andað óhindrað að sér fersku lofti. –

Ég var, enn og aftur, með námskeið í gær, og einn þátttakandi spurði um „töfralausn“ að betra lífi. –

Ég er þess fullviss að fyrsta skrefið hvað betra líf varðar, er Ákvörðunin um að eiga betra líf.  Í henni felst sú hugmyndafræði að við trúum að við eigum það skilið og þess vegna megum við ekki hindra það sjálf.  –  Við segjum því:

„JÁ TAKK“ … (Mæli með því að opna faðminn í leiðinni og anda djúpt að sér lífinu og svo anda lengi frá til anda frá sér gömlu hugmyndunum að við eigum ekki gott skilið!

Annað skrefið – sem er jafn mikilvægt hinu fyrsta, -felst í þessu „Já takk“ –  því að „JÁ“ þýðir að við erum að opna fyrir gjafir lífsins og „TAKK“  þýðir að við erum þakklát fyrir gjafirnar, – líka þær sem við höfum nú þegar. –

Grunngjöf lífsins er andardrátturinn okkar, – og það að geta andað sjálfstætt að okkur súrefni. –  

Við áttum okkur eflaust ekki á því svona dags daglega, eða þökkum það fyrr en e.t.v. við sjálf eða nánir ættingjar hafa þurft að vera háð utanaðkomandi öndunaraðstoð.  Við höfum séð fólk sem  er háð súrefniskút.  Í upphafi hverrar flugferðar er talað um að ef að loftþrýstingur breytist muni súrefnisgrímur falla niður og þá eigum við að setja þær yfir munn og nef og anda því að okkur, og ef við ferðumst með barn þá setja grímuna á okkur fyrst og svo barnið. –

Reyndar er þetta mest notaða lýsing á mikilvægi þess að hjálpa sjálfum sér fyrst, áður en við aðstoðum barn. –  Sem þýðir auðvitað mikilvægi þess að við séum í ástandi sjálf til að geta aðstoðað aðra.

Af einhverjum ástæðum hugsaði ég mikið um andardrátt og súrefni í gær, – og hvað ég væri þakklát fyrir að geta dregið andann, svona ein og hálparlaust. –

Ég hugsaði um það út frá því sjónarhorni, að af einhverjum orsökum finnst okkur svo sjálfsagt að geta andað að við þökkum það ekkert sérstaklega.   Okkur finnst það kannski bara svo sjálfsagt, vegna þess að flestir ganga um og anda áreynslulaust.

Það er ekki fyrr en við upplifum skort á einhverju að við áttum okkur á því hversu dýrmætt það er. –  Þegar við erum að kafna, þegar við þurfum að vera háð súrefniskút, – þá er þráin að geta andað djúpt og frjálst.

Við sem búum á Íslandi búum við ferskt loft í ómældu magni, við erum að vísu að spilla því á höfuðborgarsvæðinu við og við, og sumir upplifa óþægindi þess vegna,  þau sem eru viðkvæm í öndunarfærum. –

Ferskt loft er þakkarvert og það að geta andað er þakkarvert. –

Hver er svo þessi „töfralausn“ að betra lífi? –

Jú, það er að þakka það sem við höfum, og okkur finnst venjulega svo svakalega sjálfsagt, – svona eins og súrefnið,  skjól fyrir veðri og vindum,  það að fá að borða, það að eiga fjölskyldu o.fl. o.fl. – allt sem við tökum eins og sjálfsögðum hlut,  en það er ekkert sjálfsagt í þessu lífi. –

Við eigum allt gott skilið, það er ekki málið.  –  Við erum líka að fá svo margt gott, og lykilatriðið er að vera þakklát. –

Þakklát fyrir að við erum nóg og höfum nóg – á meðan við getum andað.-

Þegar við Ástundum þakklæti,  förum við að finna að líf okkar batnar, – því að þakklætið ber með sér einhvers konar fullnægjutilfinningu og sátt,  á meðan vanþakklæti ber með sér tilfinningu skorts óg óánægju. –

Það er miklu betra að lifa fullnægjuhugsun en í hugsununinni um að þarfnast eða skorta. –

Þegar við erum full af þakklæti, eykst tilfinningin fyrir  innri frið og sátt, eykst gleðin, eykst ástin. –

Þakklæti er því undirstaða þess að eiga betra líf.

Þakklæti fyrir lífsins andardrátt.

TAKK ER TÖFRAORÐIÐ .. 

man-breathing-fresh-air

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s