Er það okkar „eðli“ að sofa ein? …

Ég heyrði viðtal – eða hlustaði með öðru eyranu í gær, við konu sem minntist á að það væri lágmarkskrafa að hvert barn ætti sér herbergi. –  Ég man ekki alveg hvort að hún orðaði það svona, en ég man að ég hugsaði margt þegar þetta var sagt.

Í framhaldinu fór ég að hugsa hvort að það sé okkur eðlislægt eða ekki að vera svona ein, sofa ein í herbergi.

Persónulega finnst mér voða yndislegt að sofa með öðrum í rúmi, – já hljómar pinku skrítið kannski? –  eða ekki? –

Þá er ég ekki bara að tala um það hvað er yndislegt að sofna með makanum, kúra saman og eiga koddahjal fyrir svefninn,  eða hvernig sem fólk hefur það.  Ég er líka að tala um þegar ég fæ barnabörnin í heimsókn, – og hef lítinn kropp hér nálægt, sem sparkar í mig, rumska og heyra andardráttinn (börn eru svo falleg þegar þau sofa 🙂 ..) ..

Í dag er það þannig að ég hreinlega elska líka að hafa litlu hundana „í fjölskyldunni“ – uppí rúmi, undir sæng til fóta,  og það nýjasta er að við erum iðulega fimm uppí rúmi, – ég, kærastinn,  eitt stykki hundur og tveir kettir.   Hundurinn yfirleitt upp við mig, og svo ein til tvær kisur utan í honum,  svo það er augljóst að þeim finnst gott að kúra þétt.

Ég veit að sumum hryllir við og fara að hugsa um sóðaskap, hár og eitthvað svoleiðis,  en þetta er bara toppurinn fyrir mér, og best þegar eins og eitt stykki barn eða barnabarn er líka. –  Auðvitað má ekki verða það þröngt að svefn truflist, og ég viðurkenni alveg að stundum er ég ekki alveg nógu úthvíld eftir t.d. tvö stykki barnabörn í rúminu,  þó að andlega líði mér vel.

Ég ólst upp við mikil þrengsli, á nútíma mælikvarða.  Árið 1969, árið sem pabbi lést,  vorum við orðin sjö manna fjölskylda í þriggja herbergja íbúð. Við vorum því fjögur systkini í einu herbergi.  Á tímabili svaf ég í koju og á tímabili sváfum við systir mín í svefnsófa.

Ég var lika að rifja það upp nýlega að eftir að við fengum sjónvarp, sem var eflaust 1968,  höfðum við þann háttinn á á heimilinu að pabbi lagðist á gólfið á stóran púða,  og við systinin röðuðum okkur bókstaflega á hann, –  í sitt hvort hálsakotið og svo var síðan hans púðinn okkar. –  Svona lágum við í hrúgu að horfa á sjónvarpið 🙂 ..  Eins og ég skrifa hér að ofan, lést pabbi 1969, nánar til tekið 8. júlí það ár.  Það var því óttalega skrítið að hann væri horfinn, – enginn pabbamagi að kúra á, – en við systkinin héldum áfram að liggja á koddanum hans stóra, utan í hvort öðru, höfum í raun haldið saman síðan,  þó á annan máta.  –

Við fluttum síðan, mamma og systkinin í fimm herbergja íbúð um haustið 1969,  og þá vorum við eldri systir mín saman í herbergi, þó í sitthvoru rúminu, – og litla systir fékk oft að sofa uppí, annað hvort hjá henni eða mér.  Seinna fluttum við í sitt hvort herbergið í þeirri íbúð.  Þegar ég varð svo tólf, fluttum við í einbýli og okkur boðið að vera í sitt hvoru herberginu,  en frábáðum okkur það og vildum frekar vera saman. –  Á tímabili fluttum við rúmin okkar saman í mitt herbergið,  því það var styttra á milli að rabba fyrir svefninn. –

Ég var átján ára þegar ég kynntist síðan barnsföður og eiginmanni til rúmlega tuttugu ára, –  þegar sú fyrsta fæddist fékk hún mikið að sofa eða sofna uppí, –  og seinna tvíburarnir sem fæddust fimm árum seinna.  Starf mannsins var þannig að hann var oft burtu erlendis,  svo þega hann var fjarri – varð það stundum þannig að mamman og börnin sofnuðu saman, og röbbuðu um daginn og veginn áður en þau sofnuðu.

Á tímabili átti stóra systir hjónarúm og þá fengu litlu systkinin að koma og kúra – og í 11 ár áttum við Labrador sem elskaði að kúra hjá krökkunum,   og við leyfðum það.

Reglan var vissulega að hver svæfi í sínu bóli, börnin áttu sín herbergi oftast.   En þeim þótti þessi nærvera góð.  Börnin ólust líka upp við að vera yfirleitt svæfð, með söng, með sögum eða strokum á baki. –  Kannski kolrangt, að skvera þeim ekki bara inn í herbergi og láta sofna,  en okkur þótti þetta gott og samveran verðmæt.

Það sem ég er að hugsa upphátt í þessum pistli, er,  hvað ætli sé okkur meira eðlislægt að sofna, svona eins og dýrin, utan í hvort öðru, eða hvort að sængin er orðin einhvers konar „substitute“ fyrir hlýju annarrar mannveru? –   Ég hef ekkert lesið mér til um þetta og finnst oft gott að prófa að finna upp hjólið eða „spekúlera“ sjálf og lesa mér síðan til og sjá hver er að pæla í sömu hlutum og ég. –

Ég þekki það líka að það er gott að vera eða sofa „með sjálfum sér“ – hafa algjört rými, – en stundum finnst mér það tómlegt, – en spurning hvort það er óeðlilegt að finnast það tómlegt eða eðlilegt? –   Erum við of háð öðrum ef við söknum þess að kúra og hafa nánd af öðrum, hvort sem það er manneskja eða dýr? –

Fer eftir hverjum og einum? –

Jæja, óvenjulegur pistill – veit ég, en ég tel þetta skipta máli, þar sem ég fjalla mikið um meðvirkni, að vera háð og annað slíkt.

Meðvirkni verður alla jafna til í bernsku,  sem eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum.   Það er þá auðvitað mikilvægt að vita hvað er í raun „eðlilegt“ og hvað ekki! ..

Einmanaleiki og félagsleg einangrun er, að mínu mati, ein af birtingarmyndum nýs þróaðs samfélags. Við Íslendingar erum komin úr baðstofunum, kvöldvökum,  þrengslunum –  yfir í að vera meira ein og sér.   Sumir eru félagslyndir en fá ekki að njóta þess.

Er stefnan sú rétta,  hver í sínu herbergi, meiri fjarlægð?  Erum við að reyna að nálgast á annan hátt, eins og að vera í samskiptum á netinu,  Facebook er stundum eins og fjölskyldu-eða vinafundur,   en skortir að sjálfsögðu upp á persónulegu nándina, faðmlögin,  viðveruna og svo framvegis, – nú er ég komin aðeins út fyrir og gæti haldið áfram með það í næsta pistli.  En kannski er þetta með hvar og hvernig við sofum,  einhvers konar grunnur? –

 

Alla vega grunnur að spurningu,  „hvað er eðlilegt?“ –

Þessi mynd hér að neðan, lýsir hvernig mitt „himnaríki“ er, en það er svo sannarlega ekki allra.  Ég gef alveg afslátt á hanann, og auðvitað er myndin ýkt, –  og alls ekki allra.

1501698_10202778721578015_1297398636_n (1)

 

 

Ein hugrenning um “Er það okkar „eðli“ að sofa ein? …

  1. Það er yndislegt að hafa börnin upp í að kúra með.Hér þykir það sjálfsagt að sofa með mömmu og pabba =) Takk fyrir frábært blogg

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s