Það sem er of er of og það sem er van er van. –
Að ætla sér að laga vanrækslu með ofdekri er eins og að drekkja blómi sem við höfum gleymt að vökva lengi. –
Auðvitað þarf að vökva blómið vel, – en það á ekki að hella endalaust vatni á það vegna þrúgandi samviskubits yfir að hafa ekki sinnt því.
Þið vitið hvað ég meina.
Þetta á við í samskiptum okkar. Til dæmis með börn, – ef þeim er lítið eða illa sinnt og gefinn lítill tími, þýðir það ekki að það eigi að fara á einni helgi í alla ævintýragarða og kjúklingastaði, eða kaupa handa þeim hrúgu af sælgæti. –
Það gerir þau bara snarvitlaus, og engum greiði gerður.
Það er hinn gullni meðalvegur sem gildir. –
Þegar einhver hefur beitt ofbeldi, bætir hann það ekki með blómum, heldur með því að beita ekki ofbeldi. –
Ofdekur er eitt form ofbeldis, – það er rán á þroska og það er stuldur á gleði.
Því á ekki að bæta eitt ofbeldi með öðru, þó eðlismunur sé á.
Það er ekki hægt að „kaupa“ frið og það er ekki rétta leiðin, friður fæst með friði, ekki peningum. –
Munum að gefa af því okkur langar að gefa, og það veitir okkur gleði að gefa, ekki gefa vegna þess að við erum með samviskubit.
Samviskubit er vond forsenda fyrir góðverkum eða gjöfum.
Það er gott að opna augun og skynja hvar við erum, – ekki byggja á rusli fortíðar eða byggja á samviskubiti fortíðar, – þá erum við alltaf að borga einhverja skuld. – Fyrirgefum okkur sjálfum. Þiggjum nýja blaðsíðu, notum nýja lærdóminn til að gera rétt og lifa í jafnvægi.
Ef við viljum vera góð, verum góð – en ekki „of“ góð, því af einhverjum ástæðum endar það oftast með ósköpum. – Þessi „ofgóðmennska“ þróast iðulega út í meðvirkni, sem þýðir að við erum farin að stjórnast af því að geðjast og þóknast öðrum og drifkrafturinn verður slæm samviska.
Það þjónar ekki tilgangi lífsins, en tilgangur lífsins er að njóta lífsins.