Mömmur eru oftast valdamestu áhrifaaðilar í lífi barna sinna. Pabbar fylgja þar fast á eftir. Það eru að sjálfsögðu til undantekningar, en mæður standa líffræðilega framar. Börnin eru tengd þeim með naflastreng til að byrja með, síðan með brjóstagjöf. Tengsl móður og barns eru ótvírætt sterk.
Andleg tenging er síðan samofin hinni líffræðilegu. Sumir segja að börn skynji líðan móður og áhrif í móðurkviði.
„Hún leiðir og verndar og er mér svo góð“ …
Það eru væntingarnar til mömmu, og væntingar samfélagsins til mæðra.
Mæðrum sem líður illa hafa oft ekki burði til að standast væntingarnar, þær eru jafnvel í það miklum sársauka eða vanliðan að þær hafa að mestu leyti vond áhrif á barnið sitt. Jafnvel þótt þær reyni að gera sitt besta dugar það ekki, þar getur bæði komið inn vankunnátta,og vangeta.
Allar konur sem líffræðilega geta orðið mæður, hafa „leyfi“ til þess og til að ala upp barnið. Það er ekki fyrr en komið er í óefni sem aðrir fara að skipta sér af, ef það er þá nokkurn tímann gert. Ef aftur á móti sé um að ræða að velja fósturforeldra, þá vandast málið! .. Þá er farið í alls konar smáatriði, lengi vel máttu einstæðar konur ekki ættleiða og ég held það séu enn hömlur t.d. hvað holdarfar varðar. Skrítnar reglur s.s. og himin og haf á milli krafna gerðra til líffræðilegra mæðra og mæðra sem vilja ættleiða.
Því miður er það nú staðreynd að mörg börn koma brotin undan uppeldi/ofbeldi foreldra sinna. Oftast er ofbeldið óbeint, eða einhvers konar neikvæð stjórnun, þ.e.a.s. skilaboð eru ekki skýr, heldur alið á samviskubiti og sektarkennd til að börnin láti að stjórn. Þegar við erum þjökuð af slíku og/eða gjörðir okkar stjórnast af slíku þá erum við ekki að njóta lífsins. Það sama gildir ef börn eru stöðugt að sækjast eftir viðurkenningu móður og föður, þá fara þau að stjórnast af því. Forsendur fyrir gjörðum, er til að þóknast, geðjast eða fá viðurkenningu foreldra, frekar en að upplifa ánægjuna beint og njóta þannig uppskeru þess sem verið er að gera.
Ef svo foreldrar klikka á að veita því athygli sem vel er gert, verður barnið óánægt og telur sig ekki nógu verðmætt, gott, duglegt o.s.frv. en búið,er að kenna því að verðmæti þess felist í dugnaðinum.
Mæður voru áhrifamestar hér áður fyrr, en feður oft notaðir sem grýlur. Börnum var hótað að pabbi fengi að heyra, ef þau voru óþekk, og pabbar þá gerðir að einhverjum flengikústum.
Þetta er enn við lýði, en ég var að koma heim með flugi fyrir stuttu síðan, þar var móðir með mjög baldinn dreng og var hún að reyna að siða hann í lendingu. Hún hótaði honum að hringt yrði í pabba og honum sagt frá um leið og lent yrði, nema hann hegðaði sér. Pabbinn hefur eflaust beðið grunlaus á vellinum að taka á móti konu og barni. Drengurinn baðst vægðar, og með grátstafi í kverkunum sagði hann „ekki segja pabba, ætlar þú nokkuð að gera það?“ .. þetta er ljótur leikur móður, þar sem hún er að gefa valdið frá sér og um leið hræða barnið. Til að toppa þetta kom svo amman inn í dæmið og fór að lofa drengnum sleikjó við lendingu, en þa brást mamman illa við.
Uppeldi er ekki alltaf einfalt og þær eru margar gryfjurnar sem hægt er að lenda í, við sem teljum okkur góð erum kannski bara að ofdekra og ofdekur er skemmandi alveg eins og vanræksla er skemmandi.
Móðirin er í raun nokkurs konar Guð í augum barns síns, það sem hún segir eru lög og hún er óskeikul, þar til annað kemur í ljós! … Engin vonbrigði eru stærri en þau en að mamma bregðist eða hafni. Það er þessi mikla þörf fyrir að vera samþykkt, tilheyra og tengjast sem gerir börn háð mömmu og það þarf mjög mikið að ganga á til þess að börn fari að forðast móður. Eftir því sem hún talar meira niður til þeirra, þess meira fara þau að reyna að bæta sig o.s.frv.
Svo erum við hissa á að konur (karlar) endist í samböndum sem þau eru ítrekað beitt ofbeldi! Hvar læra þau það?
Er ekki makasamband bara framlenging af sambandi barns við foreldra?
Við erum víruð fyrir ást og að tilheyra, og þegar það bregst líður okkur illa og förum jafnvel að meiða og þá erum við komin að upphafinu aftur. Hvernig á móðir sem hefur sjálf lent í sársauka og ekki upplifað eðlilega æsku, móðir sem vantar sjálfstraust, sjálfsást og sjálfsvirðingu að geta kennt barni sínu það og leitt það í styrk?
Pælið svo í því að ein af hindrunum í ættleiðingu er holdarfar og aldur!
Móðir er í raun heilt samfélag, margar mæður eru góðar mæður, a.m.k. ekki vondar, en hvort þær kunna á barnið sitt eða hvað því er fyrir bestu er önnur saga.
Hver og ein móðir, hver og ein manneskja þarf að læra að elska sig og sjá verðmæti sitt til að geta miðlað því áfram. Að elska sig er að taka ábyrgð á eigin velferð og hamingju.
Þannig verður móðir góð fyrirmynd, en ekki eins og kolröng guðsmynd, þar sem hótað er refsingu pabbans eða veitt viðurkenning með sleikjó, þannig að lífið verði eins og dans sem dansa verður eftir höfði foreldra í stað þess að heyra tónana sem koma úr eigin brjósti.
Guð er ekki refsivöndur né sleikjó, Guð er skilyrðislaus ást, og skilyrðislaus ást er óskeikul. Ef við göngum fram í sannleika og hreinu verðmæti án þess að börn heimsins þurfi að sanna tilverurétt sinn, getum við kallað okkur óskeikular mæður.
Elskum meira og óttumst minna.