Og svo er þetta „mín síða“.. þar sem ég skrifa ….og þú lest, takk 🙂
Það sem ég hef þó komist að, er að við erum öll frekar lík. Við eigum miklu meira sameiginlegt en ó-sameiginlegt.
Við erum með tilfinningar, líkamlegar og andlegar – við erum með viðbrögð við aðstæðum, en birtingarmyndir tilfinninganna eru ólíkar og við erum misopin fyrir að tjá okkur um þær. Það þýðir ekki að við finnum ekki til þó við tölum ekki um það, hvað þá skrifum um það!
Það eru tilfinningar gleði og tilfinningar sorgar og allt þar á milli. Það er, að mínu mati, okkur hollara að bæla ekki tilfinningar, en á móti þurfum við ekki að vera ýkt á útopnunni.
Ég held það sé sama hvar borið er niður, það er þessi gullni meðalvegur eða jafnvægið sem er æskilegast að miða við. Hvorki OF né VAN.
Það segir sig sjálft.
Að dvelja á „stað“ jafnvægis, þar sem mér líður vel.
Hvernig veit ég þegar ég er komin „út fyrir?“ …. Jú, þegar ég er annað hvort finn of mikið til eða of lítið til.
Ef ég er dofin og mér er sama um allt, er ég á vondum stað, og ef ég er yfirmáta spennt og stressuð er ég líka á vondum stað.
Það má yfirfæra þetta á muninn á því að náunginnn skipti okkur engu máli alveg yfir í það að vera yfirmáta afskipasamur (stjórnsamur á neikvæðan hátt).
Meðalvegurinn væri þá að láta sig náungann varða, án þess að þurfa að skipta sér öllu mögulegu.
Meðalvegurinn er oft vandrataður.
Þetta er eitthvað sem við þekkjum flest, og þegar við mætum fólki sem er statt langt fyrir utan þennan meðalveg, þá pirrar það okkur því það minnir okkur líka á þetta ójafvægi í okkur sjálfum.
Neikvæðni annarra getur pirrað okkur, jákvæðni annarra getur lika pirrað okkur, og fróðlegt að átta sig á því að það tengist okkur sjálfum miklu meira en þessu fólki. Það er hvernig „tíðni“ þeirra mætir okkar eigin.
Mitt líf, mín ákvörðun … þýðir að ég (og þú) ákveð hvernig ég ætla að lifa, í neikvæðni eða jákvæðni – nú eða jafnvægi.
Til þess þarf að vera vakandi fyrir tilfinningunum, hlusta á eigin rödd, og spyrja: „hvernig líður mér?“ … ef ég er pirruð, þá þarf ég að fókusera „heim“ í jafnvægið, þar sem mér líður best. Ég get valið það.
Ég get valið að leyfa fólki að lifa sínu lífi og hafa sínar tilfinningar, án þess að sogast inn í þeirra tilfinningalíf.
Stundum er eins og við stöndum á palli jafnvægis og jafnvel gleði, í umhverfinu er annar einstaklingur eða einstaklingar sem langar að vera þar sem við erum stödd. Ef þeir ná því ekki, er hætta á að þeir reyni að fá okkur á sinn pall. Það sé eina leiðin. Þá verðum við að aftengja okkur þessu fólki tilfinningalega, svo það nái ekki til okkar. Það verður bara að hafa það, að það verði sárt, reitt o. s frv. því það er á þeirra ábyrgð. Enginn varnaði þeim að komast á betri stað (pall). Hindrunin var og er oft við sjálf.
Við getum öll valið okkur pall, það getur vel verið að við dettum af honum við mikla utanaðkomandi erfiðleika, eins og við missi, sem kemur eins og stormur og feykir okkur af pallinum, en við höfum tækifæri til að komast þangað aftur.
Þá er best að horfa til og umgangast þau sem vilja fá okkur á pallinn, en ekki þau sem vilja halda aftur af okkur eða íþyngja við „klifrið“ upp á pallinn.
Þessi unga dama og ömmustelpa, á meðfylgjandi mynd, hún Eva Rós, er ein af þeim sem hjálpar mér að fókusera á réttan stað.
Lífsreynsla mín sést í línum andlit míns, en hún nær seint að þurrka af mér brosið.
Mitt líf, mín ákvörðun er að eiga gott líf, fullt af ást, gleði, frið og þó að hið ytra sé stundum að „bögga“ stórt og smátt, ætla ég að halda jafnvægi.
Og já, tilfinningaveran ég, skrifa til að lifa.
Takk fyrir þig sem gefur þér tíma til að lesa, ég hugsa til þín á meðan og ég hlakka til að mæta þér á góða pallinum 🙂
❤
Þetta eru dásamleg skrif Jóhanna, takk fyrir 🙂