Myndum við vera sátt við að barnið okkar væri í samskonar sambandi og við sjálf? …

„Ef dóttir þín eða sonur væri í sambærilegum samskiptum við sinn maka og þú ert við þinn, myndir þú vera sátt/ur fyrir hans/hennar hönd?“ …

Óþægileg spurning fyrir marga viðmælendur, sem koma og leita sér ráða varðandi samskipti við maka.

Flest erum við sammála um að sambönd eigi að byggja á gagnkvæmu trausti og virðingu, ást og vináttu.

Þar fyrir utan að sambandið sé nærandi, og það sé hlutfalllsega meiri gleði sem fylgi sambandinu heldur en armæða. –

Margir „þrauka“ sín sambönd, í von um að eitthvað breytist, – helst þá makinn.  En svo verður fólk allt í einu fimmtugt, sextugt, sjötugt … o.s.frv.  og ekki breytist makinn!

Hvað þá?

Það er alltaf best að horfa fyrst inn á við.

Hamingjuna okkar eigum við nefnilega fyrst og fremst að finna hjá sjálfum okkur,  vera sjálf „í gír“ – sinna okkur sjálfum, næra, byggja upp sjálfstraust o.s.frv.-   Ef við erum komin á þann stað, er kannski sniðugt að líta til makans og sjá hvort hann er samstíga, eða einhvers staðar langt útí buska.

Eruð þið með sömu framtíðarmarkmið? –  Viljið þið sitt hvorn hlutinn? –

Er markmiðið andlegt  – eða er markmiðið veraldlegt?  … eða kannski bæði?

Við þurfum e.t.v. að skoða hvað við erum að bjóða okkur sjálfum upp á, okkar innra barni.  Því eitt sinn vorum við jú öll börn,  – börn sem áttu foreldra sem óskuðu börnum sínum hamingju. –

Erum við að virða óskir foreldranna? –

Erum við góð fyrirmynd okkar eigin barna?

Eru samskiptin okkar við maka okkar kennsla í  uppbyggilegum samskiptum? –   Er okkur sýnd virðing?   Erum við að sýna okkur sjálfum virðingu?   Sýnum við virðingu?

Börnin læra það sem fyrir þeim er haft.

Það er fólk þarna úti sem hefur þörf fyrir að stjórna maka sínum. Það er með fyrirframgefnar hugmyndir að „fyrirmyndarmaka“ –  en þegar makinn reynist öðru vísi, eða ekki fylla upp í myndina, hefst stjórnunin inn í mótið. –  Þegar það ekki tekst, koma upp vonbrigði.

Auðvitað geta tveir stjórnsamir einstaklingar hist.  Það er fólk þarna úti sem býr með innri sár.  Sársaukinn bitnar á makanum, og makinn skilur ekki hvað er í gangi og telur sig ómögulegan, – ómögulegan að geta ekki gert maka sinn glaðan (fyllir aldrei upp í formið). –   Þessi sem upplifir sig ómögulegan, fer að reyna að gleðja, en allt kemur fyrir ekki, það verður auðvitað aldrei nóg, því að gjafir eða dekur lækna aldrei gömul óuppgerð sár.   Sár sem viðkomandi upplifir sem tómarúm, og tómarúmið verður ekki fyllt nema innan frá. –

Það verður fyllt með því að sá sem upplifir það, fer að hlusta á eigin rödd og standa með sjálfri/sjálfum sér. –

Af einhverjum orsökum fara margir af stað inn í sambönd, með lélegt sjálfstraust og sjálfvirðingu og ætla sér að fá það frá hinum. – Um leið og hamingjuna og gleðina.

Við erum fædd með traust, virðingu, gleði og hamingju.  En við týnum því einhvers staðar á leiðinni.  Kannski þegar við horfðum á óhamingjusama mömmu – eða leiðan pabba.  Kannski þegar við horfðum upp á foreldra sem ekki kunnu að virða sig og/eða aðra? –

Kannski þegar við horfðum á foreldra sem upplifðu sig ekki verðmæta, lærðum við að við værum ekki heldur verðmæt.  Þau sögðu það kannski við okkur, að þau elskuðu okkur, en við fundum að þau kunnu ekki að elska sig, svo orð þeirra urðu ekki eins sönn, því elskan var bara að hluta til.

Að elska sig er m.a. að taka ábyrgð á sjálfum sér, andlegri og líkamlegri heilsu.

Þegar við reynum að „soga“ eitthvað út úr öðrum sem við höldum að við höfum ekki sjálf, heitir það meðvirkni.

Með látbragði okkar, framkomu og viðmóti erum við að prédika líf okkar.  Við erum að segja hver við erum.  Við getum sagt þúsund orð, en þau eru tóm ef þau eru ekki sönn. –

Við getum ekki logið um hver við erum, eða hvernig okkur líður gagnvart öðrum.  Alheimurinn skynjar það og börnin skynja það, því þau eru næm.

Þegar það sem við segjum og það sem við gerum er ekki í takt, riðlast allt regluverkið.  Við erum ekki sönn. Við erum ekki heiðarleg. Hvorki við sjálf okkur né aðra.

Við þurfum að setjast niður og hlusta. Ekki á aðra, heldur á okkur sjálf. Röddina sem elskar okkur, röddina í kjarnanum.  Ekki þessa sem hefur tekið sér bólfestu eins og sníkjudýr.

Hvað gerum við þegar við uppgötvum að við lifum í afneitun eða lygi, eða þegar við lifum eftir væntingum annarra en okkar sjálfra? ..

Hættum að ljúga. – Verum sönn.

Hættum að þagga niðrí þessari rödd sem vill okkur allt hið besta, sem er upprunaröddin.  Röddin sem við fæddumst með. Einhvers konar rödd innan úr kjarna okkar.

Til að heyra innri rödd, verðum við að fókusera inn – horfa inn, hlusta inn – elska inn og finna fjársjóðinn á staðnum þar sem við töldum tómarúmið vera. –  Það birtir til og við finnum lífsfyllinguna með sjálfum okkur.

Það er eins og við finnum hjartað slá, alveg uppá nýtt.

Við, sem vorum kannski skilin við okkur sjálf, – þegar við fórum í samband, endurnýjum hjúskaparheitið við okkur sjálf. –

„Já, ég vil elska mig, svo lengi sem ég lifi. – “

Ef að barnið mitt myndi upplifa þetta yrði ég hoppandi glöð.

Það er miklu líklegra að barnið mitt upplifi þetta ef ég, fyrirmyndin, geri það.

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.

Foreldrar vísa leið ……

images

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s