Hvað ef að lífið er ævintýri en ekki bara verkefni? ….

Ég er ein af þeim sem tala um skóla lífsins og að lífið færi okkur verkefni.  Verkefnin eru til þess að þroska okkur.

Þegar við erum fullorðin fáum við fullorðins verkefni, – en stundum fatta aðrir fullorðnir ekki að við berum ábyrgð sem fullorðin, og skipta sér of mikið af okkur og okkar verkefnum, vinna þau jafnvel fyrir okkur, svo við hvorki þroskumst af þeim, né njótum ánægjunnar að hafa leyst þau sjálf. –  (psssst.  það eru meðvirku þroskaþjófarnir).

En hvað ef við lítum á lífið sem ævintýri.  Einhvers konar „Lord of The Rings“ ævintýri.

Ef við sitjum heima í stólnum, og gerum ekki neitt, lifum við ekki mikið ævintýri? –   Það er freistandi að sitja heima í sófa … eða hvað? –  Bíða eftir að lífið líði? – Þrauka lífið?

Það er gott að nota sófann til að hvíla sig, njóta hans, en við njótum hans enn betur ef við höfum þurft að liggja á hörðu. –  Við njótum sólarinnar enn betur þegar við erum vön rigningu.  Og við njótum regnsins betur ef við erum stanslaust í sól.

Lífið er líf andstæðna, og við lærum að þekkja lífið,  hvað við viljum á því hvað við viljum ekki.   Við lærum leiðina á því að fara hana, en ekki bara lesa um hana í bók. –

Við getum lesið sjálfshjálparbók, kinkað kolli, og aha – sammála hverju orði.  Lesið svo þá næstu og kinkað kolli, og aha – sammála hverju orði.  Alltaf sitjandi heima í sófa.

Virkar það?

Lífið ER ævintýri og við höfum val um að taka þátt eða ekki.  Stundum færir lífið okkur eitthvað sem fær okkur upp úr sófanum, eða úr kyrrstöðunni og við viljum það ekkert endilega.  Sumt reynist farsælt,  sumt er vont, óbærilega vont, – en það þroskar.

Við breytumst við hverja breytingu, og breytingin þroskar okkur.  Við lærum og lærum.

Það er gott að líta á lífið sem ævintýri, þar eru nornir og dimmar verur, þar eru líka bjartar verur og englar.  Þar eru risakóngulær sem vilja festa okkur í vefinn sinn.

Lífið er kraftaverk í sjálfu sér,  við höfum gífurlegt val.  Val um viðhorf, val um að vera vanþakklát eða þakklát.

Lífið er eins og húsmóðir sem er sífellt að bera eitthvað á borð, – í flestum tilfellum er það eitthvað gott.  Hún leggur fyrir okkur vatn, loft, heilsu, – eða hvað sem það er,  og eins og vel upp alið folk gerir þá þökkum við fyrir á hverjum degi það sem lífið er að leggja á borð fyrir okkur, eða hvað? –   Gerum við það?

Hvað ef okkur finnst þetta bara sjálfsagt?  

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.  Minn erfiðasti lærdómur var að missa dóttur mína.  Ég var ekki að þakka fyrir líf hennar á hverjum degi, fannst það sjálfsagt að eiga hana, eins og hin börnin mín tvö og barnabörnin.

Ég þakka núna á hverjum degi að eiga börnin mín, en vildi óska þess að ég hefði ekki þurft svona grimman lærdóm til þess.  Auðvitað var ég þakklát fyrir,  en ég var samt meira upptekin af því sem ég hafði ekki.

Hvort sem það eru börn sem við eigum, foreldrar, vinir, systkini – þá er mikilvægt að þakka.  Ef við sjálf eigum líf, við getum andað – þá er líka sjálfsagt að þakka lífið.

Eftirfarandi skrifaði ég á fésbókarsíðuna mína og er þessu tengt:

Gleði og þakklæti fylgjast að, en ólíkt því sem við gætum kannski trúað þá er það þakklætið sem er forsenda gleðinnar en ekki öfugt, að vísu getur þetta spíralast áfram, en þakklætið er fræið sem við sáum og af því sprettur upp gleðin.
Það er spurning hvort það sé ekki bara vanþakklæti þegar við erum kvartandi og kveinandi að eiga ekki þetta eða hitt. Sérstaklega þegar við eigum það sem skiptir máli, sem er lífið? ..
Fókusinn fer, í vanþakklætinu,  á það sem við eigum ekki í stað þess sem við eigum, og hvað ef það er satt að það sem við veitum athygli vex? Eykst þá skorturinn á því sem við ekki höfum eða óánægjan yfir að eiga það ekki? Eckhart Tolle sagði einhvern tímann, að við þurftum bara eina bæn og hún væri „Takk“ ..
Þessi vitneskja hefur verið að síast inn hjá mér frá bernsku, þegar ég heyrði séra Þóri Stephensen, segja söguna af englunum tveimur, annar var með fulla körfu af óskum um að Guð gerði eitthvað, en hinn var með hálftóma körfu, en í hana komu bænir með þakklæti. Þessi saga hefur lifað með mér og ég margsagt hana.
Sem barni var mér kennt að fara aldrei frá matarborði nema þakka fyrir mig, og til baka kom þessi fallega setning; „Verði þér að góðu“ …
Börnin mín ólust upp við þennan sið, en mér finnst eftir að hafa umgengist slatta af börnum undanfarin ár að siðurinn sé á undanhaldi. Þetta átti nú alls ekki að vera einhver mórölsk prédikun eða prédikun yfir höfuð, en mér finnst þetta umhugsunarvert, að muna eftir að þakka fyrir, hvort sem það eru hversdagslegir hlutir eins og að fá að borða, sem okkur finnst sjálfsagt, en það er ekki sjálfsagt hvar sem er, eða þakka óvenjulega hluti sem koma til okkar. Við erum að þiggja gjafir hvern einasta dag, og það er kannski bara sjálfsögð kurteisi við alheiminn og lífið að segja takk, dvelja í fullnægjuhugsun en ekki hugsuninni um skort.

Ég þakka fyrir mig, fyrir daginn, fyrir lífið sem er ævintýri með óvæntum uppákomum, spennandi og ófyrirsjáanlegt. Ég þarf ekki sjónvarp né sápuóperur til að sjá lífið. Það er hér og nú, allt að gerast og bíð með eftirvæntingu, „hvað næst?“…
Það er gott að mæta deginum með elsku og taka ákvarðanirnar okkar út frá elsku og trú, en ekki ótta.

Það er hið sanna frelsi.
Ég þakka fyrir mig, og þakka fyrir þig, því ég er og þú ert!

coffee-cup

 

Ein hugrenning um “Hvað ef að lífið er ævintýri en ekki bara verkefni? ….

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s