„Hver ertu og hvað viltu?“ …..

Margir uppgötva það að þeir vita ekkert hverjir þeir eru og þá ekki heldur hvað þeir vilja.

Þar sem lífið er líf andstæðna er oft hægt að finna þetta út með því að skoða hver við erum ekki, og hvað við viljum ekki, næstum eins og að nota útilokunaraðferðina og sjá hvað verður eftir.

Ef við byrjum á stóru tilvistarspurningunni, um hver við erum, og notumst við þessa formúlu, þá getum við byrjað:

Ég er ekki:

 • maki minn
 • stétt mín
 • kyn mitt
 • kynþáttur
 • staða mín
 • starf mitt
 • fötin mín
 • börnin mín
 • foreldrar mínir
 • bíllinn minn
 • menntun mín
 • bankareikningur minn
 • útlit mitt
 • o.s.frv.

Það sem ég er er eitthvað sem varir frá fæðingu til dauða, eða í raun varir það um eilífð i huga þeirra sem trúa á eilíft líf, og þá er aðeins um að ræða líkamlegan dauða.

Að skynja hver við erum, þetta innra, þessar verðmætu verur, eins og perlur að eiga líkamlega tilverureynslu, og þá er skelin líkaminn, en perlan þau sem við raunverulega erum.  Líkaminn er hulstrið, og/eða „græjan“ sem gerir okkur m.a. fært að upplifa lífið á jörðinni,  tjá okkur og vera í samskiptum.

Að vera til,  og hreinlega að vera, er að finna til, og afneita ekki tilfinningunum, heldur mæta þeim og fara í gegnum þær því þannig vitum við hver við erum.  Fíkn verður til þegar við erum á flótta frá sársauka.  Fíkn í vímuefni,áfengi, tóbak, mat, leiki, vinnu o.s.frv.  Fíkn er ekki það sama og eðlileg neysla, fíkn er of-neysla.  Flóttinn getur líka birst í stjórnun eins og fram kemur við anorexíu eða því að þurfa að stjórna öllum og öllu í kringum sig.

Ef við leyfum okkur bara að finna til og leyfum okkur að vera, þá rifjum við fljótt upp hver við erum.  Við þurfum ekkert að reyna eða rembast, bara slaka á og taka á móti því sem kemur.

Þegar við svo skoðum hvað við viljum, er aftur gott að stilla upp það sem við viljum ekki.

Það lærum við best af því að skoða líf okkar og þá vegarslóða sem við höfum farið, samferðafólk, störf, samskipti o. s frv.

Ef við höfum upplifað vond samskipti, getum við sagt að við viljum góð samskipti, ef við höfum upplifað fjarlægan maka eða ótraustan, getum við sagt að við viljum nánd og traust í sambandi o. s frv.

Ef við erum óánægð þar sem við erum stödd í lífinu, þurfum við að skoða æðruleysisbænina, hverju getum við breytt og hverju ekki?  Ekki eyða tímanum í að reyna að breyta fólki, heldur vera sjálf þessi breyting sem við viljum fá í okkar líf.  Stundum kemur í ljós að vinnustaður, samband/hjónaband, einhver eða eitthvað í umhverfinu er að hindra okkur í því að vera við eða hafa lífið eins og við viljum og þá þarf að breyta og þá þarf oft kjark til að stíga út úr þekktum aðstæðum í óþekktar.

Fyrst þurfum við þó alltaf að spyrja okkur og komast að hvort að við séum sjálf þessi hindrun,  hvort að við séum í raun að skapa okkar eigin tálmanir eða hvort þær komi utan frá.

Það er stundum vont að sjá þetta sjálf/ur því við erum hluti ástands, hluti sambands, o. s.frv. og erum því orðin „samdauna.“

Þegar við erum búin að vera lengi í rými þar sem verið er að sjóða skötu, þá hættum við að finna lyktina. Ef við förum út og komum aftur inn skellur lyktin á okkur.  Við þurfum oft að nýja aðkomu eða að sjá ástandið utan frá til að skynja það.  Lyktin þarf ekki alltaf að vera slæm, kannski er þetta bara ljúf angan, en við áttum okkur ekki á því nema að stíga út fyrir og koma inn aftur.

Ef við erum alveg að kafna úr fýlu, nú þegar, það er eitthvað að rotna í ruslapokanum, þá þarf að henda þeim poka.  Það þýðir ekki að láta eins og engin sé lyktin og stundum þarf að grafast fyrir hvaðan hún kemur.

Engin/n vill, eða ætti að vilja búa við fýlu, hvort sem hún kemur innan frá eða utan. Við lögum hana ekki með að sprauta ilmi yfir, heldur annað hvort forða okkur úr henni eða uppræta.

þegar fólk leitar sér ráðgjafar, og lýsir ástandinu, þá er það að fá lánaða dómgreind.  Er ástandið orðið fýluástand, er ég orðin samdauna og hvernig breyti ég því?  Er hægt að lofta út á heimilinu, báðir aðilar að taka þátt í að viðra, eða vill annar aðilinn í sambandinu bara hafa þetta svona áfram.

Fullorðnar manneskjur bera ábyrgð á sjálfum sér.  Þær eru sjálfráða. Þær bera ábyrgð á að vernda barnið hið innra, veruna sem er varanleg. Þær bera ábyrgð á heilbrigði þessarar veru og hamingju. Þær bera ábyrgð á löngunum, þörfum og vilja þessarar veru.  Veru sem á allt gott skilið, sem  er komin hér til lífs til að vera til og lifa lífinu lifandi, en ekki bara til að þrauka lífið.

Til að lifa lífinu lifandi, þarf stundum að fara út fyrir veggi hins þekkta og örugga,  og til að vita hvað við viljum þarf stundum líka að skoða það sem við viljum ekki.  Það er oft eina leiðin til að læra. –

Já lífið er svo sannarlega undarlegt ferðalag, en við höfum að miklu leyti í höndum okkar hversu fjölbreytt það er og hversu áhugavert.

Hver ert þú?  Hvað vilt þú? … Hvað áttu skilið?

419760_399582396722202_155458597801251_1749816_1666267657_n

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ein hugrenning um “„Hver ertu og hvað viltu?“ …..

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s