„Let it be“ …..

LetItBe_2013

Það var í júlí 2012 að ég var stödd í Lindarbrekku, sem er ættarbústaðurinn okkar, og tilheyrði áður föðurafa-og ömmu, – ég var ein og ég svaf í gamla rúminu þeirra.  Ég vaknaði upp um miðja nótt og fannst ég heyra orðin, eða hafði kannski dreymt þau: „Let it be“ .. sem var auðvitað bein tilvísun í hið fallega lag bítilsins Paul McCartney. –   Ég hef alla tíð síðan haft mikið dálæti á laginu, en í morgun komu þessi orð aftur til mín,  – og ég fór að íhuga þau.  Ég fór líka að íhuga þýðinguna og muninn á „Láttu það gerast“  eða „Leyfðu því að gerast“ .. nú eða „Láttu það verða“.. eða „Leyfðu því að verða“ ..

Let it = Leyfðu því …

Svo gúglaði ég „Let it be“ og sló inn orðið „meaning“ með, og „voila“ ég fékk söguna á bak við lagið, sem kom skemmtilega á óvart. –

Paul hafði s.s. verið að ganga í gegnum erfiða tíma um haustið 1968. Það voru farin að koma upp ýmis samskiptavandamál í hljómsveitinni, – og hann segist hafa skynjað að hún væri a liðast í sundur. Hann var farinn að vaka lengi frameftir, drakk og dópaði eins og margir gerðu á þessum árum.

Hinir meðlimirinir buggu allir úti á landi með sínum mökum,  en hann var piparsveinn í London í eigin húsi.  Hann segir það hafa e.t.v. verið undirliggjandi að þarna væri kominn tími á að hann finndi einhvern lífsförunaut,  því þetta var stuttu áður en hann fór að vera með Lindu.

Hann var algjörlega búinn á því, og sumar nætur fór hann í rúmið og sofnaði á maganum með andlitið grafið í koddann, og þegar hann vaknaði, átti hann í erfileikum með að rísa upp og hugsaði, – „eins gott að ég vaknaði, annars hefði ég nú bara kafnað.“

Síðan gerðis það eina nóttina, einhvers staðar milli svefns og vöku, að hann dreymdi móður sína, sem hafði látist þegar hann var aðeins fjórtán ára gamall.  Hún hafði verið hjúkrunarfræðingur, sem hafði lagt mikið á sig í vinnu því hún vildi það besta fyrir börnin sín.  Fjölskyldan var ekki stöndug, átti ekki bíl og rétt náðu því að eiga sjónvarp,  svo báðir foreldrar voru útivinnandi.  Þegar hún kom heim á kvöldin eldaði hún matinn, svo þau höfðu ekki mikinn tíma saman, en nærvera hennar hafði haft þægileg áhrif í lífi hans.  Eftir að hún dó og árin liðu átti hann erfiðara og erfiðara með að sjá andlit hennar fyrir sér, og hann talaði um að líklegast væri það oftast svoleiðis og að fólk þyrfti að rifja upp andlit hinna látnu m.a. með að skoða myndir, og þannig hafi það verið fyrir honum.

Svo í þessum draumi, tólf árum eftir dauða hennar, birtist móðir hans honum, og hann sá andlit hennar skýrt, sérstaklega augun hennar, og hún sagði blíðlega og mjög hvetjandi um leið: „Let it be.“ –

Hann segir það hafa verið dásamlegt, og hann hafi vaknað með dásamlega tilfinningu. Það hafi verið eins og hún hafi heimsótt hann á þessum erfiða tíma lífs hans og gefið honum þessi skilaboð:  Vertu ljúfur, ekki berjast gegn hlutum, reyndu bara að fara með straumnum og það mun allt ganga upp. –

Af því að hann var tónlistarmaður, fór hann beint að píanóinu, og byrjaði að semja lagið: „When I find myself in times of trouble, Mother Mary comes to me“ … en María var nafn móður hans … „Speaking words of wisdom, let it be. There will be an answer let it be.“

– Margir hafa eflaust talið þetta eiga að vera Maríu Guðsmóður, og kannski ekki gert mikið úr að leiðrétta það dags daglega.

Það tók hann ekki langan tíma að semja þetta, og hann samdi það að mestu í einum rykk. Honum fannst lagið sérstakt, svo hann lék það fyrir hina strákana og fyrir fleira fólk og síðar varð það einnig titillinn á hljómplötunni,  þar sem það var svo mikils virði fyrir hann.   Einnig segir hann frá því að þegar að eitthvað gerist, eins og fyrir töfra, sé það eitthvað sem annað fólk taki líka eftir.

Það var siðan fljótlega eftir drauminn að hann fór að vera með Lindu, sem hann segir að hafi bjargað sér, – og hann talar um að það megi segja að mamma hans hafi sent hana til hans.

Lagið er líka eitt af því fyrsta sem hann og Linda gerðu saman í tónlistinni og hann notar rödd hennar sem bakrödd í laginu.

Lagið er í dag, orðið næsum eins og sálmur.  Það var sungið á minningarathöfninni um Lindu og eftir 11. september var það mikið spilað í útvarpinu, og Paul söng það í fjáröflunartónleikum í New York í kjölfar atburðarins.

Þessi orð eru mjög hugleikin Paul, ekki aðeins vegna þess að móðir hans kom með þau til hans í draumi, á erfiðum tíma í lífi hans – þar sem lífið fór að batna í kjölfarið – heldur líka að með því að gera þau að lagi og taka það upp með Bítlunum, varð það huggun og heilandi yfirlýsing fyrir annað fólk.

(Hér hef ég ekki skrifað alla söguna, – og er þetta bara endursögn, en upprunalegi, en heimildin  er HÉR).

„LET IT BE“ ..

Kærar þakkir til Paul McCartney – fyrir að deila þessu með okkur hinum! …Það eru góð skilaboð að stjórnast ekki of mikið eða rembast í hlutunum, heldur bara að leyfa þeim að gerast og treysta.  Ef við ætlum að leyfa, megum við ekki heldur hindra. –

 

Ein hugrenning um “„Let it be“ …..

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s