Unglingarnir og ruslið í herbergjunum – lausn – djók! …

Ég skrifaði – lausn – djók, vegna þess að þetta er eitt af vandamálum sem flestir, ef ekki allir foreldrar ræða um, röfla yfir, – rífa hár sitt yfir, rífast við unglinginn yfir o.s.frv. –

Hversu mikil orka, óánægja, vanlíðan o.s.frv. ætli fylgi þessum samskiptum út af ruslinu eða frágangi í herbergjum unglinga? –

Eru unglingar kannski bara eins og veðrið? –  Eitthvað sem ekki er hægt að breyta?

Hverjum líður illa í fatahrúgunum og ruslinu? –  Er það þeim sem búa í herbergjunum eða foreldrunum? –   Hefur það sem hingað til hefur verið gert virkað? – Að láta öllum illum látum, hóta, kvarta o.s.frv. virkað? –  Hefur það borgað sig? –  Eru allir sáttari?

Ég held að þetta sé svolítið sem þarf meira æðruleysi við.  Það er mjög algengt að unglingaherbergi séu á hvolfi. Ég man eftir móður sem hringdi einu sinni í mig, – þegar ég var aðstoðarskólastjóri.  Barnið hennar var fyrirmyndarnemandi, – stóð sig með prýði í skólanum, og taldi hún m.a. að ég hefði þar haft ítök.  Hún bað mig s.s. að ræða við barnið hennar (segi engin nöfn né kyn) um umgengnina heima. – Þessi fyrirmyndarnemandi í skóla gekk s.s. um herbergið sitt eins og það væri svínastía.

Ætli þetta sé ekki bara eitthvað þroskaskeið? –  Flestir virðast vaxa upp úr þessu og geta átt þokkalega snyrtileg heimili,  nú og ef að það er rusl,  hverjum líður illa með það.  Hversu mikið rusl þarf að vera til að okkur fari að líða illa og finnast við vera löt og ómöguleg? –

Sumir hafa heimilin alveg á hreinu, – hvert einasta rykkorn pússað,  en líkami þeirra er í rusli. –  Hver er að böggast í þeim.  Kannski er það pabbinn sem er að böggast í unglingnum? –  eða mamman? –   Kannski er þeirra eigið líf í messi, ekkert endilega líkaminn, eitthvað annað – eins og fjármálin, tilfinningarnar, samskiptin.  Hvað ef það stæði einhver á öxlinni á þeim og heimtaði að þau tækju nú til í sínu lífi? –  Þau væru bara sóðar,  tilfinninga- eða fjármálasóðar? –

Er það rétta hvatningin?

Líklegast ekki.  Ég held nefnilega að til að skilja hvort annað, þurfum við að líta í eigin barm.  Fæstir eru með „allt á hreinu“ alls staðar. –   Svo kannski er allt í lagi að slaka á.

Ég held að best sé að viðurkenna fyrir sjálfum sér hvað er í gangi,  og þá að tala út frá eigin brjósti.  Ekki segja við unglinginn.   „Þú ert algjör letingi, – farðu nú að þrífa hjá þér, – þetta er ekki hægt lengur.“ –   Heldur, viðurkenna: „ég er svo viðkvæm sál, ruslið hjá þér pirrar taugarnar mínar,  ég á svo bágt með að hafa svona á heimilinu okkar, – ég er alinn þannig upp að óreiða fer í taugarnar á mér.  Herbergið þitt er hluti af heimilinu og mér finnst ég missa tökin, þegar hluti heimilisins er í óreiðu.“  eða eitthvað í þessum dúr.

Það er í raun það sem við erum að segja.  Við trúum ekki að unglingnum líði vel í óreiðunni, – af því að okkur líður ekki vel í henni. –  Við erum samt búin að koma því þokkalega til skila að honum eigi að líða illa, og því er hann væntanlega kominn með slatta af samviskubiti að vera ekki að taka til eða ganga frá. –

Samviskubit er ekki rétta hvatningaleiðin.

Það er alveg sama lögmál hvað þetta varðar og lögmálið t.d. að halda líkama sínum heilbrigðum og hreinum. –  Það er vegna þess að við elskum okkur, og viljum bjóða okkur sjálfum upp á næringu /atlæti sem er okkur gott. –   Að elska sig er að taka ábyrgð á okkur. –  Ef við erum t.d. umhverfisverndarsinnar, – þá hugsum við vel um jörðina, heiminn. Hellum ekki eitri niður í jarðveginn og minnkum ruslið. –  Ef við gætum elskað nánasta umhverfi okkar og líkama okkar eins og jörðina (í anda umhverfisverndarsinnans)  þá færum við að ganga betur um okkur sjálf og virða. –

Það er því mikilvægt að huga að forsendunni – „af hverju ætti ég að taka til?“ – hvort sem það er í líkama mínum, sálinni, herberginu eða heiminum? –

Jú, vegna þess að mér þykir vænt um og ber virðingu fyrir líkamanum, sálinni, herberginu/heimilinu, o.s.frv. –   og ég ber sjálf/ur ábyrgð á þessu öllu saman.  Ég tek til fyrir sjálfa/n mig fyrst og fremst.

Er kannski sama lausn á þessu herbergjavandamáli og öllum öðrum vanda heimsins? –

Er lausnin að elska meira?  Elska meira umhverfi sitt, elska sjálfan sig meira?   Og munum það að elska sig er að taka ábyrgð á eigin heilsu og hamingju? –

Lausnin komin?   eigum við ekki bara að slaka á og leyfa öllum að læra sína lexíu.  Kannski að nálgast unglinginn með kærleika, – eins og áður sagði, útskýra hvað getur gerst ef hann missir tökin á umhverfi sínu, – hann hættir að finna fötin sín, þau blandast við hreinu fötin,  pizza-afgangar fara að mygla í kössunum, og bréfaruslið utan af sælgætinu safna ryki. –

Það er í raun alveg eins og þegar óreiða er í sálinni.  Ef við söfnum upp vandamálunum, þá eru þau eins og sælgætisbréf sem safna ryki, – og fara jafnvel að lykta.  Þessi ytri óreiða fer að valda innri óreiðu, – og stíflum,  því að eitthvað festist í rykinu. –

Við finnum það sjálf, þegar að við höfum tekið til í fataskápnum okkar, geymslunni, erum nýbúin að skúra o.s.frv. – að það hefur góð áhrif á andann.  –   Það virðist vera eitthvað samhengi þarna á milli. –

Herbergið hjá unglingnum er því tákn fyrir svo margt, – líka í okkar fullorðinslífi, – og ég játa mig alveg seka um að vera stundum eins og unglingurinn með fatahrúgurnar í sófanum í herberginu.

Það er alltaf leiðinlegra að gera það sem við EIGUM að gera, heldur en það sem við gerum fyrir okkur sjálf, að eigin frumkvæði, eða vegna þess að við elskum okkur svo mikið og virðum að við viljum gera það.  Það er því sjálfsvirðing og virðing fyrir umhverfinu sem þarf að vera „vakinn“ að allri tiltekt.  En ekki það að við „þurfum“ eða „eigum“ að gera það. –   Eins og við „Þurfum“ að fara í megrun,  ef við erum of þung.

Þegar við grennum okkur, þarf það að vera á réttum forsendum,  vegna heilsunnar, vegna þess að við viljum að okkur líði betur, vegna þess að við berum ábyrgð á heilsu okkar og hamingju. –

Að öllu þessu sögðu, er aðalmálið „Að láta sér líða vel“ …

Ef að einhver á herbergi, og honum líður virkilega vel í ruslinu, á ekki bara að láta hann/hana í friði? –  Ef einhver er  feit/ur grönn/grannur og honum/henni líður vel á nokkur að vera að skipta sér af því?   Að því undanskildu að viðkomandi sé að valda sér eða öðrum skaða?  …

Þetta er engin lausn, en „food for thought“ – í þessu „taktutilíherberginuþínuunglingurvandamáli“ …

p.s. ég var alin upp hjá einstæðri móður með fimm börn, – mamma hafði þann háttinn á að við tókum allt í gegn á laugardögum, og þá skiptum við með okkur verkum. – Allir tóku þátt og að sjálfsögðu tókum við herbergin okkar.  Ég held að í raun sé þetta skásta (og skemmtilegasta) ráðið sem ég veit.  Það var alltaf ákveðin stemming í því, þegar allir voru á fullu.  Og svo þegar húsið var orðið skínandi í lokin. – Það var þessi „samsköpun“ eða „co-creation“ að gera saman.

 

 

 

MessyRoom blog

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s