Ég man eftir augnabliki, uppi í risi á Nönnustíg í Hafnarfirði. Ég lá þar um miðja nótt uppí rúmi, kasólétt af tvíburunum mínum, Eva Lind komin uppí og faðir barnanna sofandi. –
Mig langaði að „frysta“ stundina. Allt var svo öruggt, nýju börnin örugg í mallanum mínum, Eva í handarkrikanum. – Gat þetta ekki bara verið svona, alltaf? –
Ég var alltaf pinku hrædd við að missa, – og þegar barn hefur upplifað missi á unga aldri er það kannski ekki skrítið, en ég var aðeins sjö ára þegar ég missti pabba.
Af hverju var ég eiginlega að leggja þetta á mig, andlega, að eiga þessi börn? – Það var svo mikil áhætta. – Því að um leið og maður eignast, erum við komin í óöryggið að missa. Ef maður eignast ekki, þá missir maður heldur ekki. –
En það er þetta með að missa af reynslu, missa af því að elska, – sem er svo magnað.
Það er ekki bara börn sem fólk missir af, – við getum misst af því að njóta þess að elska, því við þorum ekki að taka áhættuna. – Við gætum misst og það er svo vont. Og það sannar sig aftur og aftur, að það gerist; að við missum.
Svo er það líka þannig að ef við eignumst bíl, þá erum við hrædd um að hann skemmist eða beyglist, – ef að við eignumst hús og hluti, að það verði brotist inn í húsið og/eða hlutirnir teknir.
Lífið er áhætta. – Við erum alltaf að taka áhættu þegar við eignumst eitthvað, hvort sem það eru vinir, fólk, dýr o.s.frv. á að missa.
Það er eitt sem verður skýrara hjá mér, með hverjum deginum sem líður. –
Það er mikilvægi þess að gera sér grein fyrir því sem er hið innra, það sem við getum ekki misst. Það er ástina í eigin hjarta. Hún liggur í uppsprettunni okkar, – kannski er mín skilgreining á Guði, þessi uppspretta. Uppsprettan hið innra.
Love is God – God is Love ..
Geneen Roth, er kona sem skrifaði m.a. bókin „Women, Food and God, an unexpected path to almost everything, – segir frá því sem Súfistarnir kalla „Ferðalagið frá Guði“ ..
„Í Ferðalaginu frá Guði trúir þú því að þú sért það sem þú gerir, það sem þú vigtar, áorkar, svo þú eyðir tíma þínum í að reyna að skreyta þig með ytri mælikvarða um gildi þitt.
Vegna þess að jafnvel grannt og frægt fólk verður óhjákvæmilega gamalt, fær appelsínuhúð og deyr – er ferðalag frá Guði 100% líklegt til að valda vonbrigðum.“
Við vitum að við komum til með að missa svo margt, – eins og þarna kemur fram, þá missum við ungt útlit, – það syrgja það margir og reyna að halda í það sem lengst, því það skiptir þá meginmáli, – við missum eitthvað af fólkinu okkar, – verst er þegar að það fer í þokkabót í „öfugri röð“ – þ.e.a.s. þegar börn fara á undan foreldrum, það er eitthvað voðalega rangt við það, – en engu var lofað, þegar af stað var farið.
Geneen kallar það ferðalag frá Guði, að vera of upptekin af hinu ytra. – Þegar við erum „í Guði“ – hvorki í ferðalagi frá Guði eða að Guði, þá erum við í uppsprettunni, sem aldrei verður tekin burt. –
Ein tilgátan er sú að ef ég er (í mínu jarðneska lífi) vel skorðuð í uppsprettunni, – eigi ég auðveldara með að skynja þau sem farin eru úr jarðneska lífinu, – því þar dvelji þau í raun. Þar er þeirra staður, og það má alveg kalla uppsprettuna – hjartað eða kjarnann. Hjarta er Cor á latínu, en það orð er líka skylt „The Core“ eða kjarna á ensku. –
Hjartað er kjarninn, og er uppsprettan – og þaðan er í raun alltaf öruggt að lifa, því að það sem er í hjartanu er ekki hægt að missa. –
Hvernig vitum við að við erum í kjarnanum/uppsprettunni – að lifa frá hjartanu? – Jú, þegar okkur líður vel, erum sátt, hlæjum, sleppum tökum o.s.frv. þá erum við í kjarnanum. Þegar við erum í gremju, söknuði, pirringi, reiði o.s.frv. erum við komin út fyrir – erum farin að ferðast frá Guði.
Þegar við finnum þennan skort á Guði, – mistúlkum við hann svo illilega að við förum að reyna að fylla á skortinn (finna lífsfyllingu) með einhverju utanaðkomandi, ferðumst í burtu, með því að leita út á við í stað þess að horfa inn á við, í stað þess að stækka góðu tilfinningarnar í hjartanu. Það er hægt að æfa það.
Auðvitað gat ég ekki legið uppí rúmi, og fryst stundina sem ég átti þarna 1986, þegar ég gekk með tvíburana mína. Síðan það var hef ég misst manninn (hann er þó tæknilega lifandi enn). Sjálf hef ég misst á þennan máta, að leita út fyrir minn kjarna. – Evu Lind missti ég þar sem hún dó, – en við dauðann er hún komin „heim“ í kjarnann og þess duglegri sem ég er að vera í mínum, minni uppsprettu skynja ég hana betur. í þessu andlega formi. (Nei ég er ekki orðin klikk :-)). Þetta meikar bara svo mikinn sens, að það hálfa væri nóg. Hugmyndafræðin er að mestu komin frá Abraham Hicks og Louise Hay, en líka fleirum.
Það sem munkarnir gera og þau sem eru að hugleiða tímunum saman, er að fara inn á við. Inn í þessa uppsprettu. Tengjast henni, tengjast Guði. Þá skiptir útlit engu máli, aldur, húð, eignir – það verður bara „húmbúkk“ … Fólkið okkar er alltaf með okkur, hvort sem það er í líkama eða anda.
Þegar ég var í guðfræðideildinni glímdi ég við texta sem ég skildi ekki þá, en það var textinn um samversku konuna;
13Jesús svaraði: „Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta, 14en hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs.“
Þarna er hann að tala um venjulegt vatn, venjulegt vatn úr uppsprettu. – En þessi lind sem Jesús var að bjóða þarna uppá – var þessi uppspretta, sem við þurfum að tengjast. –
Þegar við höfum tengst henni, – höfum við tengst þessu eilífa, sem við vissulega tengjumst eftir líkamlegan dauða, en það er auðvitað stórkostlegt að vera tengd í jarðnesku lífi, meðan við göngum hér á þessari jörð í líkama okkar. –
Jesús er eilífur og býður þetta vatn sem verður til eilífs lífs á hverjum degi.
Upprisan er grundvöllur kristins átrúnaðar. – Upprisa til eilífs lífs.
Í fullvissu þess að við höfum allt sem við þurfum, og alla sem við þurfum, og að við sjálf séum með þessa lind eilífs lífs hið innra. Þá er ekkert að óttast. Hvergi er þetta útskýrt betur en í Davíðssálmi númer 23, sem er oft spilaður og sunginn í útförum, en er um leið trúarjátning. Hér eru stiklur úr honum og skýringar:
Þó ég fari um dimman dal (Dimmur dalur hér er tákn fyrir lífið, en upprunalegur texti er „Þó ég fari um dauðans skugga dal, – sem þýðir að það sem er í skugganum af dauðanum er lífið sjálft).
Þá óttast ekkert illt, því þú ert hjá mér (Guð er hjá mér, hið innra, Guð er í uppsprettunni og er allt sem er).
Bikar minn er barmafullur (Bikarinn er hér tákn fyrir okkur sjálf, og við erum full af þessu lifandi vatni, lindarinnar sem er uppspretta hið innra með okkur).
Mig mun ekkert bresta (Mig mun ekki skorta, þýðir það, – mig mun ekki vanta neitt).
Ég hef gengið langan veg, og erfiðan, til að komast að þessari niðurstöðu. Ég hef misst mikið, syrgt mikið, hrasað, meitt mig, en staðið upp. Kannski þurfa allir að ganga þetta sjálfir til að trúa, til að skilja. – En samt er ég ekki viss.
Mig langar að bæta því hér við, að ef við höfum upplifað fullnægjandi kynlíf – með einhverjum sem við elskum – fundið eininguna, – samrunann – er kannski ekki skrítið hvað margir ákalla Guð .. þegar þeir finna vellíðanina, hvað er það? ..
Kannski er það ein leið að kjarnanum, að uppsprettunni að stunda samlíf. – Ég segi bara „ein leið“ – því auðvitað eru þær margar. – Hvað gerist einmitt ef að fólk í sambúð er ekki samferða eða samtaka þessa leið inn í eigin kjarna? – Það hefur mismunandi þarfir eða löngun? Það fer að leita út á við, – í annað fólk, í vinnu, í mat o.s.frv. – En kannski ætti það, ef það vill ekki svíkja maka sinn, að leita annarra leiða inn á við, – ekki bara læra á þetta í gegnum kynlífið.
Er það að leita í aðra, til að nálgast kjarna sinn – jafn mikill flótti og leita í áfengi eða vímuefni? – Er fólk bara vímuefni fólks? .. Það er þó ekki eins skaðlegt og víman, eða hvað?
Nú er ég búin að „fabúlera“ mikið. Það er enginn sannleikur í þessu, bara pælingar um lífið, dauðann, það að missa, það að eiga. Það sem er eilíft og það sem fer.
Það er ekki hægt að frysta stundina, – lífið flæðir áfram og lindin innra með okkur heldur áfram að flæða. –
Niðurstaðan – þar til annað kemur í ljós.
yndisleg grein,takk:) 🙂
Þann 12. júlí 2014 kl. 15:21 skrifaði „JÓHANNA MAGNÚSDÓTTIR, ráðgjöf,
Yndislega skrifað. Knús 🙂