Ég átti smá glímu við afsökunarpúkann í morgun, – ég er nefnilega búin að vera í fríi erlendis og hef ekki farið í jógað mitt aftur, sem ég byrjaði að stunda í júníbyrjun. Ég hefði getað byrjað á mánudagsmorgun, en þá sagði afsökunarpúkinn „þú ert nú alltof þreytt og stirð, þú byrjar bara á miðvikudagsmorgun“ .. Svo kom miðvikudagsmorgun, það er að segja í dag! – Ég vaknaði snemma við sms frá dótturinni, sem lét mig vita að það væri örlítil seinkun á „pickup“ en ég var að fara að keyra hana í flug, þessa íslensku „Grace Kelly“ .. en hún líkist henni mjög þegar hún er komin með hnútinn í hnakkann og flugfreyjumeiköppið. – Hún hringdi svo um 6:30 (já frekar snemmt) og var við það að renna í hlað, svo ég stökk í bómullarbuxur og bol, – og setti í mig hnút, – ég var þó ekki alveg „Grace Kelly“ og hef ekki um það fleiri orð! 🙂 ..
Ég hugsaði strax að ég væri nú alltof stirð til að fara í þetta jógadæmi, kannski ég ætti bara að byrja í ágúst (afsökunarpúkinn). Ég skilaði henni af mér úti á Loftleiðum (eins og það a.m.k. hét einu sinni, og hún sagði „gangi þér vel í jóganu“ .. afsökunarpúkinn hló við og hvíslaði: „hehe, hún veit ekki að þú ætlar sko aftur heim í rúmið, – enda máttu það alveg, dauðþreytt, fórst alltof seint að sofa, – svo er öxlin slæm, eftir að þú dast þarna um daginn og gerðir þig að fífli í bakaríinu í Borgarnesi, ekki ætlar þú að fara að gera þig að meira fífli og vera stirð fyrir framan alla hina í jóganu .. blablabla..“ ..
Hann náði mér í þetta skiptið, og ég var komin langleiðina heim, þegar eitthvað ljós kviknaði í höfðinu á mér, – kannski var það „Ég get það engillinn“ – en það var a.m.k. ekki afsökunarpúkinn, – því ég tók U beygju á Hringbraut, og hugsaði að ég yrði svo ánægð, því mér líður alltaf svo vel eftir þessa Kundalini jóga tíma, – afsökunarpúkinn hélt samt áfram, – „viltu ekki bara fara í jógað þegar þú hefur grennst svolítið?“ – „Það er miklu auðveldara að gera alla þessa „hunda“ og „kóbrur“ og „sólarhyllingar“ ef þú hefur minna til að bera“ … en nei, nú hafði ég tekið valdið af þessum púka, – vegna þess að ég elska sjálfa mig meira en hann! ..
Það að elska sig er að taka ábyrgð á heilsu sinni – líkamlegri og andlegri, og jóga þýðir einmitt sameining líkama og huga, svo ég veit fátt betra, nema jú að vera úti í náttúrunni!
Ég var því mætt í jógatíma klukkan sjö í morgun, – það gekk bara mjög vel – yndislegur tími, og eins og venjulega kem ég þaðan endurnærð á sál á líkama. Eftir á hugsun er „hvað var ég að hugsa, að ætla aftur heim í rúm“ .. en ég veit alveg að ég var að hlusta of mikið á afsökunarpúkann.
Ég veit að við eigum öll svona afsökunarpúka, – sem halda aftur af okkur, og er meistari í að finna hindranir fyrir okkur, hindranir fyrir því að við gerum það sem er best fyrir okkur sjálf. Hindranir fyrir því að við stígum upp úr sófanum og förum í göngutúr, sund, eða hvað annað sem er í raun merki um það að við berum ábyrgð á okkur og þyki vænt um okkur. – Hvernig væri nú að líma yfiir munninn á þessum afsökunarpúka og sjá hvað gerist, – hvað hefur þig lengi langað til að gera en finnur endalausar afsakanir, – kannski eru þær bara fyrirsláttur, ekki raunverulegar hindranir. Þær eru nefnilega flestar komnar frá afsökunarpúkanum og hann er bara okkar eigin sköpun!
Dásamlegt þegar hann þagnar .. þá er líka mun auðveldara að hlusta á hjarta sitt, – sem vill allt það besta, fyrir okkur!
Og ekkert „já en“ …. kjaftæði .. 🙂