Við lærum mest af reynslunni, – svo ef við ætlum bara að hoppa inn í draumasambandið – einn, tveir og þrír, erum við kannski fulll bjartsýn. –
Það er sniðugt að þegar ég fæ fólk til að „brainstorma“ svolítið með mér, – og hugleiða hvernig það vill að makinn sé, og það nefnir atriði eins og:
- skemmtilegur
- traustur
- heiðarlegur
- myndarlegur
- ábyrgur
- tilfinningalega opinn
- o.s.frv.
að snúa því upp á viðkomandi – og spyrja hvort að þetta sé lýsingin á þeim sjálfum. Hvort þeir/þær hafi þetta til að bera. –
Eckhart Tolle segir í bók sinni „Mátturinn í Núinu“ að þú lærir meira um sambönd við það að fara í þrjú misheppnuð sambönd á jafn mörgum árum, heldur en ef þú situr heima í stofu og bíður eftir hinu fullkomna sambandi. – Hann orðar það kannski ekki akkúrat svona, en í þessum dúr.
Við lærum af reynslunni eins og áður sagði, og þegar við uppgötvum hvað við viljum ekki – þá vitum við um leið hvað við viljum. –
Mér finnst í raun leiðinlegt að nota orðið „misheppnað“ samband. Því hvert samband hefur sitt, – er ævintýri út af fyrir sig. Það er alltaf eitthvað gott við hvert samband og það má alveg taka það með sér. Samband er eins og blóm sem þarf að vökva og sinna, og það þarf tvo til að sinna því. Það er aldrei nóg að aðeins ein manneskja rækti sambandsblómið, þá upplifir hún sig einmana og það getur verið meiri einmanaleiki að vera ein/n í sambandi, – en að vera ein/n yfirhöfuð. –
Það er dásamlegt að sjá pör sem hafa náð því að vera samstíga, og taka bæði ábyrgð á þessu blessaða sambandsblómi. Það þarf að sjálfsögðu tvo ábyrga einstaklinga sem eru tilbúnir að rækta sig og rækta hvort annað, um leið og þetta blóm. –
Það er best ef það kemur áreynsllulaust, og án tilætlunarsemi. Það er ræktað af því báðum langar til þess, en ekki vegna þess að þau þurfa þess.
Ef að sambandsblómið er alveg orðið skrælnað og engin von á að koma því til á ný, – þá er það hvorki fallegt né neinum til gleði. – Stundum er það bara gerfi, og það sjá það allir sem koma nálægt því. –
Ég rakst um daginn á grein um mismunandi vandamál innan sambanda, og talað var um hörð vandamál og síðan mjúk. Þessi hörðu eru ef það er um að ræða ofbeldi í sambandinu, illska og leiðindi. Ofbeldi er að sjálfsögðu eitthvað sem drepur sambönd og er gróft brot á sambandinu og þýðir í raun að sambandinu er slitið. – Það hangir þá á einhvers konar vana- eða öryggisþráðum, þ.e.a.s. fólk er statt í aðstæðum sem það þekkir og flest upplifum við okkur örugg í því sem við þekkjum, hversu absúrd sem aðstæður eru. –
Fólk er hrætt við óvissuna sem fylgir frelsinu. Hrætt e.t.v. við að vera eitt en ekki hluti af pari, og óttinn við það að vera ein/n er meiri en óttinn við að vera í ofbeldissambandi. Þar kemur líka inn almenningsálit, o.fl. –
Allir eiga skilið gott líf og gleði. EInhvers staðar las ég að mælikvarði góðs sambands væri hversu mikið væri hlegið. Ég held það sé rétt, enda einn af topp eiginleikum sem fólk nefnir þegar spurt er um óska-eiginleika hjá maka að hann sé skemmtilegur! Pælið í því! –
En hvað um það, – þessi pistill er svona „aðfararorð“ – eða hliðarpistill við efnið sem ég fer í á námskeiðinu „Sátt eftir skilnað“ – en nýtt námskeiið er í boði 16. ágúst nk. kl. 9:00-15:00. Hægt er að lesa um það HÉR.
Sátt er eitt af þessum mikilvægu hugtökum í lífinu, – að lifa í sátt og samlyndi, alvöru sátt, ekki bara að halda friðinn út á við, það getur verið stórhættulegt því þá er hinum innra friði stundum fórnað, sem er í raun mikilvægasti friður hvers og eins!
Friður á jörðu er ein stærsta ósk hverrar manneskju, hvort sem hún er fegurðardrottning eða ekki. Og ef við erum jörðin – eða heimurinn þá er það okkar, hvers og eins að finna friðinn. Vera breytingin sem við viljum sjá í heiminum. – Um leið og viið upplifum þennan „Inner Peace“ eða innri frið, erum við sátt.
Það er markmið okkar allra, hvort sem við erum ein eða í sambandi.
Yfirskrift pistilsins er „Hvernig getur þu vitað hvað þú vilt fá út úr sambandi?“ – og kannski er svarið bara einfalt? „Innri frið“