Nú get ég talað „digurbarkalega“ því þetta er að virka fyrir mig. – Ég er ekki að segja að lífið sé allt í „messi“ – en jú, það hefur margt gengið á til að „messa“ það upp, – en ég ætla ekki að fara að rekja það hér, heldur segja hvernig maður tekst á við það, og það er að sjálfsögðu að byrja á réttum enda. –
Það er alltaf gott að byrja innan frá. –
Mér finnst grundvallaratriði að treysta að allt fari vel, það er númer eitt. Þá meina ég svona í lokin á ævintýragöngunni sem við köllum „líf“ .. og um leið og við erum komin í þá tíðni – eða þá hugsun þá fer okkur strax að líða betur. –
Hvernig byrjum við á okkur? – Jú, t.d. að velja góða næringu, það sem við tökum inn, bæði andlega sem líkamlega. Þegar við förum að hætta t.d. að borða yfir okkur, – borðum meira af ávöxtum og grænmeti, – lifum heilsusamlega og líkama okkar í vil, þá þakkar líkaminn það. Það sama gildir um andann, þegar við tökum inn góða andlega næringu, – þá þakkar andinn það. – Það er allt okkar ábyrgð. –
Ég minntist á grundvalllaratriðið hér áðan, s.s. að trúa og treysta að allt fari vel. Það þýðir að við göngum án viðnáms inn í lífið. Án þess að búa til hindranir í kollinum okkar. – Það er í raun mjög gott að vita hvað við viljum, jafnvel setja það niður á blað. (Ef við erum óviss, getum við notað útilokunaraðferð (hvað við viljum ekki) og þá er þetta fljótt að koma. – Ótti okkar heldur aftur af bata og breytingum, – ótti við aðra, ótti við að mistakast, ótti við að gera sig að fífli, ótti við að aðrir viti hvað við séum ómöguleg, en hinir eru með nákvæmlega sama óttann, – alveg eins og við, – og við erum alltaf að miða okkur við eitthvað sem ekki er til, svo hættum því. Ekki láta óttann stoppa framfaraskref í lífinu. Já skref sem mistekst er líka framfaraskref, því það er lærdómur. Við lærum ekket á að gera ekki neitt. – Ekkert nám er gagnslaust. Jafnvel þó við klárum það ekki, því við fáum alltaf eitthvað út úr því. –
En já, byrja heima hjá sér í einu litlu horni, – horni sem heiitir líkami okkar, – horni sem heitir hugur okkar. – Þegar okkur fer að líða betur í okkur sjálfum, eftir að hafa gert líkama og sál gott, með góðu atlæti, góðri næringu, þá ósjálfrátt fyllumst við orku til að fara að gera betur á öðrum sviðum. Halda fínu hjá okkur, – sortera í skúffum, losa okkur við gamalt dót. Þetta „letting go“ dæmi, eða að sleppa, er mjög táknrænt í því að t.d. taka til í bílskúr, geymslu eða fataskáp. Henda, selja eða gefa, sleppa einhverju sem þú hefur haldið í sem minningu, föt sem þú hefur ekki notað í ár, hlutir sem safna ryki og taka pláss í lifi þínu.
Ímyndaðu þér að þú sért að fara í flug í loftbelg. Karfan er full af drasli og dóti og heldur þér niðri. Það er dótið (dót = fólk, hugsanir, og svo bara veraldegt dót og drasl) sem heldur körfunni niðri og þú kemst ekki á loft. Þá þarf að velja og kasta fyrir borð því sem heldur þér niðri. –
Varúð! Ekki ætla þér að gera allt í einu. Muna þetta með að byrja í einu horni. Taka einn bita í einu, eitt skref í einu, því að ein algengasta ástæða að við gefumst upp er að við ætlum okkur of stóran pakka í einu.
Byrja heima, byrja á kroppnum og sálinni, – svo er hægt meðfram því að fara að taka dótið sitt – taka inn góða næringu, – losa sig við vonda, og losa sig við dót sem er stundum eins og einangrun milli þín og þín. – Já, maður kemst ekki til sjálfs síns fyrir draslinu! 🙂
Það er alltaf hægt að byrja, – og það þarf að gefa sér góðan tíma. Ef þú ert t.d. búin að safna of mörgum kílóum. Gerðu ársplan, í stað þess að ætla þér að losna við þau á einhverjum óraunhæfum tíma. Þetta ár líður hratt, sérstaklega þegar litið er til baka.
Það er margt sem við söfnum sem okkur langar að losna við, aukakíló, drasl, ryk, föt, vandamál, skuldir, o.fl. o.fl. – Við verðum að gefa okkur tíma og tækifæri til að koma þessu í lag, – og muna að láta það ekki stjórna tilveru okkar og líðan þó þetta sé ekki allt komið í gírinn á einu augabragði. –
Ákveðum HVAÐ við viljum gera og hvernig við viljum hafa þetta, en förum ekki að hafa áhyggjur HVERNIG við gerum það því það skapar viðnám. Viðnám eða „resistance“ er það sem heldur aftur af lífsflæðinu. – Oftast koma hlutirnir upp í hendur okkar, ef við gerum okkar besta, því við getum auðvitað ekki gert betur en okkar besta.
Ítreka – Óttaleysi er það sem skiptir mestu máli. Hvernig losnum við við óttann, jú, við þorum að elska, elska okkur sjálf og náungann. Elskan bræðir svo margt, hún er eins og sólin sem bræðir klakann. –
Eigum góðan dag og heilbrigðan á sál og líkama.
Ef þið viljið læra/vita meira um þessa hugmyndafræði hér í pistilinum, þá eru alls konar námskeið framundan, – sem hægt er að lesa um t.d. á facebook síðunni minni – sem er undiir heitinu Jóhanna Magnúsdóttir HVATNING OG RÁÐGJÖF – ég er þakklát fyrir hvert „læk“ .. ❤