Þessi pistill fjallar um missi, um breytingar og hann fjallar um höfnun. – Höfnun er sú tilfinning sem við mannfólkið óttumst mest. – Að missa tengsl, að einhver sem er okkkur kær vilji ekki tengjast okkur. – Það er mikilvægt í því tilliti að hugsa út í tenginguna við hið heilaga í okkur sjálfum.
„Er dauðinn alltaf hið versta?“
Það er svolítið “off” að tala um dauðann. Það er eins og að við viljum ekki vita af honum, en samt er fólk að deyja á hverjum degi, eins og fólk er að fæðast á hverjum degi. –
Dauðinn er svo sár og hann er svo endanlegur.
Sumir segja: “Það er enginn dauði” – og meina þá að hið andlega (sálin) lifi að eilífu” – það er líka í kristinni trú, þó það sé túlkað misjafnlega, eins og að við dauðann sofnum við og rísum á hinsta degi.. – Í Biblíunni er líka talað um að rísa upp í dýrðarlíkama, en þessi dýrðarlíkami er þá væntanlegi þessi andlegi, ekki þessi massi sem við köllum dags daglega líkama. –
En hvernig er dauðinn fyrir þau sem verða eftir? – Hann er sár, endanlegur, við getum ekki faðmast, talað saman eða hlegið saman – nú eða grátið saman, getum ekki svo margt sem við gátum áður og það er „THE END“ eða endirinn á svo mörgu og óhemju vond og grimm breyting í lífinu að missa þau sem eru okkur náin.
Dauðinn er missir.
HÖFNUN er missir
Nú langar mig að nálgast missi á annan hátt, en það er þegar fólk fer úr lífi annars fólks, án þess að deyja. Það bara fer og þau sem eftir verða missa.
Það þekkja þau sem hafa gengið i gegnum skilnað, – og tilfinning sem verður ríkjandi er höfnun. – Að vera hafnað af þeim sem við elskum, er býsna súr og grimm tilfinning. Margir sem hafa lent í því, hafa viðurkennt að hafa hugsað “Það hefði verið skárra, ef að hann/hún hefði dáið” – já, þetta virkar undarlegt og kannski taka einhverjir andann á lofti. En ég held að við verðum bara hreinlega að viðurkenna mannlegar tilfinningar.
En það er ekki heldur allltaf bara maki sem upplifir höfnun við skilnað. Það eru börnin. Í allt of mörgum tilfellum hverfur annað foreldrið – stundum alveg, en stundum að einhverju leyti úr lífi barnsins síns. – Feður sem kynnast nýjum konum og eignast “nýja” konu og jafnvel fjölskyldu (hennar börn/þeirra börn) hafa stundum “gleymt” eða forðast það að hafa börn af fyrra hjónabandi/sambandi með í nýja lífinu. – Þá upplifa börnin höfnun.
Ég missti pabba minn sjö ára, – hann dó og það var hræðilegt. Önnur stelpa missti pabba sinn, – hann flutti “alla leið út á land” – og hún sagði í barnslegri einlægni “ég vildi óska að pabbi minn hefði dáið” – og aftur gæti maður andvarpað, ef við vissum ekki hvað lægi þar á bak við. Hvað meinti hún?- Jú, ef hann hefði dáið, þýddi það að hann hefði ekki yfirgefið hana viljandi og þannig hefði hún ekki upplifað svona mikla höfnun. –
Þegar fólk með þessar upplifanir úr bernsku, – upplifanir af höfnun foreldris sem lendir í skilnaði og/eða trúnaðarbresti – þar sem makinn velur skilnað, – verður uppllifunin margföld, tilfinningar barnsins koma ofan í tilfinningar hins fullorðna. –
Óttinn við að missa maka er líka mikill hjá fullorðnum aðila sem hefur misst foreldri í dauðsfalli. – Við erum svo víruð til að tilheyra, elska og vera elskuð, við tengjum vírana okkar saman – við þau sem eru okkur náin og þegar þessir vírar slitna þá er sársauki. –
Gífurlegur sársauki.
Ég nefndi dæmi um föður hér að ofan, en að sjálfsögðu eru llíka dæmi um að börn upplifa að þeim er hafnað af mæðrum. Það gildir það sama.
Að missa maka er sárt, að missa foreldri er sárt. Það er sárt að missa barn, – gífurlega sárt, – og alveg gífurlega vont fyrir foreldri líka ef það upplifir höfnun frá barni sínu.
Ég held samt, – og tala út frá sjálfri mér hér, að hin skilyrðislausa elska sé samt mest frá foreldri til barns, – þannig að ef barn er hamingjusamt skipti það mestu máli. – En það þarf styrk til að elska skilyrðislaust.
Þessi pistilll er ekki til að gera lítið úr missinum við dauðann, langt í frá. En hann er til að vekja athygli á missinum og sorginni við höfnun. Þar fylgja oft í kjölfarið tilfinningar eins og skömm og reiði. – Það eru margar vondar tilfinningar sem gera þeim sem eftir situr ekki gott. –
Við þessa höfnun snýst hugsunin svo oft inn á við: “Hvað var að mér?” – “Er ég ekki nógu ________ góð/ur, falleg/ur, skemmtileg/ur” .. en í flestum tilfellum hefur það lítið sem ekkert að gera með þau sem eftir eru. –
Það á náttúrulega engin/n að skilja við barnið sitt, – a.m.k. á meðan það er ennþá barn að aldri. Aðstæður geta orðið þannig á fullorðinsaldri að ekki er hægt að umgangast eigin afkvæmi, en það er efni í annan pistil.
Skilnaður er raunverulegur í nútíma þjóðfélagi, og í mörgum tilfellum er það þannig að sá sem stígur út úr sambandi er ekki endilega að hafna maka sínum, – og það að vilja ekki vera með honum eða í sambandinu lengur hefur ekkert eða lítið með hinn aðilann að gera. – Þetta snýst í raun ekki um makann, heldur sjálfsleit þess sem fer. En það þýðir samt ekki að sá/sú sem eftir situr upplifi ekki höfnun. Það sama gildir um sjálfsvíg – þau sem eftir sitja upplifa oft að þeim sé hafnað, – en að sjálfsögðu eru þau sem falla fyrir eigin hendi, fyrst og fremst að hafna eigin lífi hér á jörðu, eina leiðin sem þau sjá til að komast “heim” er í gegnum þessa leið.
Það er sönn heimkoma, þegar við deyjum líkamlegum dauða – og við þurfum ekki dæma þau sem fara, ekki dæma okkur sjálf heldur, – þetta var þeirra leið, við höfum okkar eigin. Dómharka í eigin garð og annarra er mesta orkusuga sem til er og engum til góðs, og síst okkur sjálfum.
Stundum gildir það kannski líka fyrir foreldra sem yfirgefa börnin sín? – Kannski eru þessir foreldrar fullorðin týnd börn, leitandii að sjálfum sér og að reyna að komast heim til sín, í fangi annarrar manneskju?
Flest höfum við upplifað einhvers konar höfnun í gegnum ævina. Við erum hrædd við að biðja um greiða, um hjálp, því við gætum fengið “nei” – og þá tökum við því sem persónulegri höfnun, – en höfnunin hefur oftast ekkert með okkur að gera persónulega, viðkomandi bara er upptekin/n, ekki í stuði eða eitthvað. –
Mikið af þessum stóru höfnunum í lífinu eru sama eðlis og þær litlu, og hafa ekkert með okkur persónulega að gera, en það er oft erfitt að sjá það. –
Það er þó oft huggun harmi gegn, – að vita af því. –
Kannski snýst þessi höfnun ekki um þann sem upplifir höfnunina, – heldur getu- eða kunnáttuleysi þess sem fer eða hafnar, getuleysi til að gefa ást, þiggja ást, takast á við verkefni og ábyrgð sem fylgja því að vera í sambandi við nána ástvini.
Kannski er þetta fullorðið sært barn, sem bara ekki kann og fer í burtu. Stundum með tilfinningarnar sínar inní skápnum. Með sjálfa/n sig inní skápnum. Sem kann ekki að lifa lífinu lifandi, en er leitandi – burt frá sínum. – Í stað þess að leita heim. Í stað þess að muna sig og hver hann eða hún raunverulega er.
VIð stundum það mörg að hafna okkur sjálfum, – með því að leita út á við, – í stað þess að leita inn. – Það er eflaust versta tilfinningin, að hafna sér.
Undir sama titli „Er dauðinn alltaf það versta?“ væri líka hægt að ræða óhugnanleg slys og sjúkdóma og þær breytingar sem verða á okkar nánustu og á lífi þeirra, og okkar, þar sem fólk missir eiginleika sem það hafði áður, og þá missum við í raun það fólk sem það var áður. – Fólk missir lífsgæði sín og það er sárt að horfa upp á slíkt.
Dauðinn hefur margar birtingarmyndir, – hver breyting í lífinu er dauði á því gamla og upphaf á hinu nýja. – Við deyjum á hverri sekúndu og lifnum á hverri sekúndu. Viðurkennum okkur, veitum athygli þessu lífi sem kviknar á hverri sekúndu, þannig að við verðum vör við okkur sjálf og höfnum okkur ekki. –
Á meðan að þú elskar þig, er alltaf einhver sem elskar þig.
Þegar þú upplifiir elsku þína, upplifir þú elsku Guðs,
– sem var þarna allan tímann.
Þá vitum við líka að okkur var ekki hafnað
og við höfnum ekki sjálfum okkur.
Þú ert nógu ……….
ÁST ❤